Síðasti aðalfundur Neytendasamtakanna var haldinn haustið 1992. Ég sat hann sem fulltrúi Neytendafélags höfuðborgarsvæðisins. Enn hef ég ekki fengið skýrslu um fundinn, þótt ég hafi margsinnis spurt eftir henni á skrifstofu samtakanna. Forvitni mín beinist mest að ályktunum fundarins. Ég sat fundinn ekki til enda, þar eð ég hafði ráðstafað tíma mínum samkvæmt boðaðri dagskrá, en afgreiðsla mála reyndist tafsamari og var langt frá því lokið, þegar ég hvarf á braut.
Merkilegast þótti mér við umræðurnar, að afstaða fundarmanna virtist vera önnur til innflutnings matvæla í samkeppni við íslenskan landbúnað en mér hefur þótt vera afstaða starfsmanna samtakanna, sem koma fram í nafni þeirra og dæma um þau efni. Ég hef viljað ganga úr skugga um, hvort ályktanir fundarins væru í samræmi við þá tilfinningu, sem ég hvarf á braut með eða í samræmi við dóma starfsmanna
Ég sé í 1. tbl. blaðsins, að stefnt er að nýrri skipan samtakanna, þ. á m. skipan aðalfundar. Þar er tekið fram, að stjórn samtakanna geti gert ályktanir. Aðalfundur gerir sínar ályktanir, en engin leið er fyrir fundarmann að ganga úr skugga um það, hvort ályktanir stjórnar eru í samræmi við ályktanir aðalfundar, meðan fundargerð hefur ekki birst. Ég hef frestað greiðslu árgjalds, meðan gerðir síðasta aðalfundar eru á huldu.
Neytendablaðinu 40 (1994), 2:24