„Blessaður vertu, það verður barið niður.“ Þannig svaraði búfjárfræðingur mér um daginn, þegar ég spurði, hvort gert væri ráð fyrir tvöföldu vinnslukerfi mjólkur, ef hér yrðu tvö mjólkurkúakyn.  Þá hafði ég í huga, að mjólk úr íslenskum kúm er ríkari að ostefnum en mjólk úr norsku rauðu kúnum og að sérstök tegund sykursýki er rakin til efna, sem meira er af í norsku mjólkinni en í mjólk hér á landi, og þess vegna myndu þeir, sem hefðu íslenskar kýr, krefjast þess, að norska mjólkin yrði aðskilin í vinnslu og sölu.

Í upphafi ráðunautafundarviku nú í febrúar fór ég á aðalfund félags búfræðikandidata í Bændahöllinni og hlustaði á erindi Ágústs Sigurðssonar ráðunautar Bændasamtakanna, aðstoðarmanns Jóns V. Jónmundssonar, um það, hvernig meta megi stærðfræðilega mun á erfðum nythæðar í kúakynjum.  Á eftir erindinu beindust umræður að líkunum á því, að auka megi nyt kúa hér á landi með innlendum eða erlendum kynbótum.  Í haust var ekki kunnugt um nokkurn búfjárfræðing í starfi á rannsóknarstofnunum, sem teldi álitlegt að sækja kynbætur til erlendra kúa.  Ekki kom neitt fram á fundinum eða eftir hann um, að það hefði breyst þrátt fyrir kunnáttu þeirra ráðunautanna Ágústs og Jóns í stærðfræði erfðafræðinnar, en á fundi í Þingborg 12. nóvember var Jón raunar óviss um, hvort erlendar kynbætur yrðu til hagsbóta — með frásögn Bændablaðsins: „Hvort þetta skref muni dæma menn úr samkeppni eða hvort það hjálpi er hlutur sem ég þori ekki að fullyrða.“

Málið stendur nú þannig, að nautgriparæktarnefnd hefur verið falið að athuga um innflutning á þann hátt, að kynblendingar yrðu bornir saman við íslenskar kvígur á 2-4 tilraunabúum, en ráðagerðin í fyrra var að hafa um 100 bú til þess.  Slík tilraun hlýtur að keppa við önnur rannsóknarefni.  Nóg er til af hugmyndum um rannsóknarverkefni, sem ekki fæst fé, aðstaða né vinnuafl til.  Þegar verkefni er metið til að ákveða fjárframlög, hlýtur að vera spurt, hvort líklegt sé, að það muni beina búskapnum á framfarabraut, og þá í þessu dæmi, hversu mikið þyrfti að vinnast í nythæð til að mæta hugsanlega auknum kostnaði bænda og mjólkurvinnslu, ef hér yrðu tvö kyn.  Á fagmáli heitir það aðgerðagreining.  Dæmið er óreiknað.  Innflutningsmenn kæra sig sýnilega ekki um, að dæmið sé reiknað og láta sig ekki varða álit  búfjárfræðinga rannsóknarstofnana.  Auðvitað á að setja dæmið upp, áður en hugsað er til þess að taka tilraunafjós og mannafla frá öðrum verkefnum, sem álitleg þykja til að minnka kostnað við að framleiða mjólk hér á landi.

Tilfinningar ráða afstöðu manna.  Innflutningsmenn eru sumir örvæntingarfullir um, að takast megi að lækka kostnað og bæta kjör bænda nægilega með öðrum ráðum.  Ég óttast, að með tveimur kynjum í landinu yrði tvísýnt um íslenska mjólkurframleiðslu yfirleitt, vegna þess að aukning nythæðar, ef um hana yrði að ræða, mundi ekki jafna kostnað við að breyta búskaparaðstöðu og hugsanlega tvöföldun vinnslu- og sölukerfis.  Aðgerðagreining er aðferð til að skýra, hvað kunni að vera rétt í slíkum tilfinningum.

Í þessu máli virðast bændur yfirleitt og trúlega ekki síður bændakonur, allur almenningur og búfjárfræðingar við rannsóknir eiga samleið um að kæra sig ekki um norskar kynbætur eða vera beinlínis á móti þeim.  Því brýnna er fyrir innflutningsmenn, ef þeir ætla sér að hafa sitt fram, svo að sómi verði að fyrir Bændasamtökin, að vinnubrögð séu vönduð.  Aðgerðagreining á því, hversu fýsilegt rannsóknarverkefni það muni vera að gera áðurnefnda samanburðartilraun, væri til þess fallin.  Síðan er annað mál, hvort ekki megi fá fyrr niðurstöður úr samanburðartilraun í Noregi, en með því móti gefst síður færi á að koma hér upp norskum kúm með smygli.

Bændablaðinu 3. mars 1998