Ýmiss konar samtök geta náð saman með sjóðvali, hvort sem um er að ræða stigskiptan félagsskap eða ótengd samtök.

Samtök geta verið ofin úr öðrum samtökum. Dæmi um það er Öryrkjabandalagið, sem meðal annars er myndað af sambandi berkla– og brjóstholssjúklinga (SÍBS) og samtökum hjarta– og æðaverndarfélaga (Hjartavernd). Þar er einfalt stigveldi. Fiskifélag er myndað af landssamtökum, svo sem landssambandi útvegsmanna, landssambandi smábátaeigenda, samtökum fiskvinnslustöðva, samböndum sjómanna af ýmsu tagi og fiskvinnslufólks. Sami maður getur verið í fleiri en einum aðildarsamtökum. Bændasamtökin eru á sama hátt byggð upp af héraðssamböndum og búgreinafélögum fyrir allt landið. Bóndi getur verið í héraðssambandi og búgreinafélagi, einu eða fleirum.

Það er einfalt að viðhafa sjóðval í stigveldi eins og Öryrkjabandalaginu. Þar sem aðildin er blönduð og sami maður getur verið aðili á fleiri en einum stað, eins og í Bændasamtökunum, og jafnvel einnig af ólíkum toga, eins og í Fiskifélaginu, þar sem bæði eru samtök atvinnurekenda og launþega, getur reynst snúið að ná samkomulagi um úthlutun sjóðsatkvæða. Þriðja dæmið er, þegar félög skipast ekki í skuldbindandi samtök, en samt á að hafa þau með í ráðum.

Veljum til skilnings á því, hvernig kanna má skoðanir, þar sem félög skipast ekki í sömu samtök, sveitabyggð, sem er hreppur. Í sveitinni er ungmennafélag, kvenfélag, búnaðarfélag og kirkjusöfnuðir. Mörk kirkjusókna falla ekki að hreppamörkum. Sum félög ná yfir stærra svæði, svo sem verkalýðsfélag, kennarafélag og félag starfsmanna ríkis og hreppa. Hreppstjórn snýr sér til þessara félaga með sjóðvali til að átta sig á afstöðu manna. Þau fá atkvæði í sjóð í hlutfalli við tölu félagsmanna í sveitinni. Þá verður að líta á það, hversu sanngjarnt það er, að fleiri en eitt félag fái atkvæði vegna sama manns, en þannig er það vitaskuld nú, þegar félög vilja láta að sér kveða, að mörg þeirra geta verið fulltrúar sama manns. Sjóðsatkvæðin eru í höndum stjórnarmanna eða trúnaðarmanna innan sveitar.

Er nokkurt vit í því, að fólk, sem er kosið til að stjórna félagi með afmarkað hlutverk, skuli spurt ráða um allt önnur mál? Jú, þannig má átta sig á skoðunum fólks, sem yfirleitt lætur að sér kveða. Það gerir hreppstjórn með einhverju móti. Með sjóðvali fær hún skoðanirnar skjalfestar. Stjórnarmenn, sem vilja vera trúir félagi sínu, hljóta að bjóða flest atkvæði fyrir afbrigði máls, sem er mest í þágu félagsins, en með aðferðinni liggur vel við að tjá sig um leið um önnur afbrigði málsins. Sjóðval með þessu móti ætti að örva félagslíf.

Annar vettvangur, sem hreppstjórn gæti kannað skoðanir á með sjóðvali, eru þeir, sem sitja í nefndum hreppsins. Málin yrðu þá ekki lögð fyrir einstakar nefndir, heldur nefndarmenn í öllum nefndum; þeir, sem hafa tekið kosningu í nefnd, hafa lýst sig reiðubúna til að bera sérstaklega ábyrgð á heill hreppsins. Því eru skoðanir þeirra mikilvægar.

Lýðræði með raðvali og sjóðvali, III.C.1