Ég rakti það í blaðinu 21. f. m. („Úr sögu útflutningsbóta landbúnaðarins“) hvernig komst á sú regla, að bændum var tryggt innanlandsverð fyrir útfluttar afurðir að vissu marki. Af þeirri sögu verður samt ekki mikið lært.

Rökin fyrir því, að bændur nytu fulls innanlandsverðs fyrir nokkra útflutningsframleiðslu, voru þau, að með ríflegri fullnægingu innlendra þarfa yrði tryggt nægilegt framboð matvæla þótt harðnaði í ári. Það sjónarmið tengdist því markmiði, að tryggja bæri þjóðinni með eigin framleiðslu þau matvæli, sem náttúruleg skilyrði væru til að framleiða hér. Það hafði einróma stuðning Alþingis árið 1960, þegar ákvæðið um útflutningsuppbætur var lögfest, og aftur árið 1985, þegar búvörulögin voru sett.

Allt þetta tímabil hefur verið friður við Norður-Atlantshaf og ekki reynt á þá öryggisráðstöfun, sem felst í fjölbreyttri og ríflegri matvælaframleiðslu hér á landi, ekki frekar en reynt hefur á þann herbúnað, sem hér er ætlaður þjóðinni til öryggis. Þótt markmiðum búvörulaga hafi ekki verið breytt, hefur undanfarin misseri verið raskað grundvelli þess búskapar sem skapar þjóðinni fæðuöryggi. Þar munar mest um niðurfellingu kjarnfóðurgjalds,sem búvörulög heimila stjórnvöldum að leggja á. Verð á kjarnfóðri á heimsmarkaði sveiflast mikið. Það getur orðið svo lágt, að innflutt kjarnfóður verður svo ódýrt, að ekki borgar sig að köggla gras, að ekki borgar sig að sá korni, svo að ég nefni nýmælin í fóðuröflun, en það sem varðar mestu, að ekki borgar sig að vanda til heyskapar.

Svo geta komið tímar, að kjarnfóðurverð fer margfalt upp. Þannig stendur nefnilega á, að fóðurkorn, sem fer á markað, er ekki nema örlítið brot af fóðuröflun í heiminum, og nokkuð af því er aukaafurð matkornsræktunar. Þess vegna veldur lítil uppskerusveifla margfaldri sveiflu á framboðnu fóðri, og verðið fer eftir því. Slíkar verðsveiflur eru ekki til leiðbeiningar um varanlegar forsendur traustrar fóðuröflunar hér á landi.

Oft er vísað til þess, að á heimsmarkað séu settar niðurgreiddar afurðir. Það er einmitt það sem nú er verið að fást við í GATT-samningum. Endurbætt GATT-samkomulag getur samt ekki breytt þessu sérkenni fóðurmarkaðar heimsins.

Ísland er mikil matarkista. Fæðuöflunin er hins vegar heldur fábreytt. Hér eru um 63.000 ungmenni í örum vexti (undir 15 ára aldri), um 58.000 konur á barneignaraldri og um 18000 gamalmenni, fólk, sem illa þolir fábreytt fæði. Fyrir heill þessa fólks sérstaklega varðar miklu, ef að þrengir með aðföng, að tryggja mjólkurafurðir og grænmeti. Þrengingar mundu bitna harðast á fólki, þar sem slík framleiðsla er óveruleg, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu ásamt Suðurnesjum. Þar eru ungmennin nú um 38.000, konur á barneignaraldri 37.000 og gamalmenni 11.000.

Nægar mjólkurafurðir verða ekki tryggðar, ef á bjátar, nema til sé ríkulegt fóður í venjulegu árferði. Ég veit ekkert sem getur verið auðveldara að skýra fyrir útlendingum um stöðu landsins, og þarf ekki mikla þekkingu á hnattstöðu landa til að skilja hversu sérstök hún er. Það er til að mynda auðveldara en að halda fram mikilvægi þess, að íslendingar fái einir að sitja að fiskislóðum landsins, því að þá eru gjarna borin saman góð efni íslendinga við þröng kjör sjávarútvegsbyggða annarra Evrópulanda, sem ekki mega stunda sjó við Ísland. Menn þurfa líka að vita, að hér er í vissum skilningi gott u ndir bú, en það er búskapur sem hlýtur þó að vera kostnaðarsamur vegna legu landsins. Ég er sannfærður um, að yfirleitt þyrfti ekki nema nokkurra mínútna mál til að skýra þetta fyrir útlendingi, svo að hann skildi, að það væri óvitaskapur að nýta ekki gæði landsins til að tryggja fæðuöryggi. Það er stutt að líta til Grænlands. Þar er lítil sem engin fóðurræktun og engar mjólkurkýr og ekki garðyrkja. Þar þyrfti ekki langa stöðvun aðdrátta til að fólk yrði hungurmorða. Það er óvitaskapur að gera sér ekki grein fyrir þessu. Það er vítaverð vanræksla að kynna ekki þessa stöðu landsins í þeim samningum sem nú fara fram um alþjóðaviðskipti (GATT).

Alþingi gerði vorið 1985 tvær merkar samþykktir sem varða almannaviðbúnað í fæðuöflun. Það setti búvörulög, þar sem stjórnvöld hafa vegna fæðuöryggis þjóðarinnar heimild til að leggja gjald á innflutt fóður til þess að treysta innlenda fóðuröflun. Það setti lög um almannaviðbúnað, sem skeytt var við lög um almannavarnir, þar sem hagvarnaráði, sem allir ráðuneytisstjórarnir skipa, er ætlað að treysta viðbúnað á válegum tímum. Hvorttveggja þótti svo sjálfsagt mál, að um það urðu engar umræður.

Það liðu nærri 6 ár þar til fréttist af hagvarnaráði. Í janúar 1991 sagði frá því, að það hefði komið saman í fyrsta sinn, en á þeim dögum hafði verið ákveðið, að bandamenn hæfu stríð við Írak um Kúveit. Þess var getið, að ráðið héldi, að íslendingar væru vel settir um m. a. fóður. Í sömu andrá mátti heyra þá frétt frá Ítalíu, að þar hamstraði fólk mat af ótta við að stríðið breiddist út. Aðgerðaleysi hagvarnaráðs hlýtur að sýna, að yfirmenn ráðuneytisstjóranna, ráðherrar landsins, hafa ekki talið ástæðu til að framfylgja lögum um það. Framleiðsluráð landbúnaðarins á samkvæmt búvörulögum að meta og taka tillit til fæðuöryggis að því leyti sem það varðar landbúnað. Það boðaði til fundar um málið í júlí 1986. Þangað voru boðaðir m.a. þrír fulltrúar hagvarnaráðs. Tveimur dögum eftir að fundarboðið var sent hagvarnaráði skipaði forsætisráðherra ráðið, þ.e.a.s. rúmu ári eftir setningu laganna. Þó þurfti ekki einu sinni að leita uppi heppilega menn í ráðið, þar sem í lögunum stendur hvaða embættismenn skuli skipa það. Framleiðsluráð óskaði eftir því, að hagvarnaráð sinnti málinu. Annað hefur Framleiðsluráð ekki gert.

Upptök málsins hjá stjórnvöldum eru þau, að landlæknir, sem á sæti í almannavarnaráði, tók það þar upp um miðjan 8. áratuginn, og árangurinn af því urðu lögin um almannaviðbúnað (hagvarnir) vorið 1985. Við Hákon Sigurgrímsson framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda fórum á fund forsætisráðherra í mars 1986 og gerðum honum grein fyrir málinu. Árangurinn varð enginn, eins og aðgerðaleysi hagvarnaráðs sýnir, en ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu er formaður ráðsins. Við Ólafur Ólafsson landlæknir fórum í júlí 1987 á fund nýs forsætisráðherra og kynntum honum málið. Síðan sömdum við greinargerð um það. Þar reifuðum við hvað styrkti fæðuöryggi þjóðarinnar og hvað veikti það og hvað væri helst til athugunar í þeim efnum. Hins vegar mátum við ekki hvaða hættur væru líklegar, við töldum okkur ekki kunnáttumenn á því sviði. Vorið 1989 afhentum við greinargerðina þremur ráðherrum og fórum á fund þeirra til að fylgja málinu eftir. Það voru landbúnaðarráðherra og heilbrigðisráðherra og loks dómsmálaráðherra, enda lýstum við þeirri skoðun í greinargerðinni, að aðgerðaleysi stjórnvalda í þessum efnum mætti ef til vill kenna því, að ábyrgðin væri hjá fjölskipuðu stjórnvaldi, og töldum líklegra til árangurs að fela almannaviðbúnað almannavarnaráði, en það er undir dómsmálaráðherra.

Þeir sem koma fram fyrir Íslands hönd í alþjóðasamstarfi bera íslendingum boð um það, sem krafist er almennt í samskiptum ríkja. Þeir þurfa líka að kunna að kynna lífshagsmuni íslendinga. Alþingi setti lög um vísindalega nýtingu sjávarslóða við Ísland árið 1948 og lagði þannig grundvöll að forræði strandríkja heimsins yfir landgrunninu. Áður ríktu hér í norðurhöfum leifar Rómarréttar, sem þrengdi hlut strandbyggja undan landi. Þeir íslendingar, sem best þóttust þekkja heiminn í þessum efnum, vöruðu við útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en voru bornir ráðum. Í þessu öðru lífshagsmunamáli íslendinga er það enn svo, að nokkrir íslendingar, sem teljast þekkja heiminn hvað best, vilja síst taka tillit til aðstæðna hér á landi.

GATT-samningarnir um heimsviðskipti með matvæli taka ekki tillit til fæðuöryggis. Í þeim ráða ferðinni stórveldi með fjölbreytta fæðuöflun, ríki með herstyrk til að tryggja fæðuöryggi sitt og ríki sem eiga stutta aðdrætti. Þótt ástæður íslendinga séu auðskýrðar, þarf að finna mælikvarða, sem fella má að almennum reglum um frjáls viðskipti, um það hvernig megi taka tillit til þeirra, sem ekki búa við áðurnefndar ástæður til að tryggja fæðuöryggi sitt. Til þess þarf bæði vit og vilja. Málflutningur íslendinga í GATT-samningum væri nú ólíkt auðveldari, ef eitthvað lægi eftir hagvarnaráð og Framleiðsluráð landbúnaðarins um fæðuöryggi.

Tímanum 17. júlí 1991