Viðskipti með greiðslumark, það mjólkurmagn, sem bóndanum er tryggt fullt verð fyrir, hafa áhrif á skatt kaupanda og seljanda. Verðlagið, sem viðgengst, hlýtur að mótast af því, að kaupandi og seljandi meta áhrif skattaákvæðanna á arðsemi viðskiptanna. Þegar tekið hefur verið tillit til áhrifa skattaákvæðanna á verðlagið, er ekki víst, að ákvæðin séu í þágu bænda. Hvernig sem því er varið, verður hér athugað, hvernig bóndi nokkur getur haft fullvirðisréttinn sem gjaldmiðil, og síðan dæmt um það, hvort eðlilegt sé, að viðskipti með greiðslumark séu tekin til greina við skattlagningu.

Þegar á bjátar og bóndinn er fjárþurfi, selur hann greiðslumark. Setjum svo, að hann hafi selt 10 000 lítra á 200 kr. lítrann. Verðmæti greiðslumarks er ekki eignfært á skattframtali hans, en hann er engu að síður tveimur milljónum króna fátækari í greiðslumarki samkvæmt kaupgengi. Í staðinn fékk hann tvær milljónir í hendurnar til að leysa brýn mál. Helmingur söluverðsins telst skattskyldur söluhagnaður, enda þótt hann hafi skert þau verðmæti, sem felast í greiðslumarki, um nákvæmlega jafnmikið og það, sem hann fékk greitt, eins og markaðsverð greiðslumarksins segir nógu skýrt.

Svo koma betri tímar, og hann hefur efni á að auka greiðslumarkið. Hann kaupir 10 000 lítra greiðslumark á gengi dagsins, sem er 250 kr. Kaupin kosta hann því tvær og hálfa milljón. Nú leyfir skattstjórnin honum að draga kaupin frá til tekjuskatts um 500 000 kr. á ári. Hann varð tveimur og hálfri milljón króna efnaðri í greiðslumarki, en gekk á innistæðu um jafnmikla fjárhæð. Hann gerði því ekki annað en millifæra krónur í banka og krónur í greiðslumarki, sem sýnilega er gjaldmiðill hans, en kaup á öðrum gjaldmiðli, til að mynda jenum, getur hann vitaskuld ekki dregið frá til skatts. Að fimm árum liðnum hefur hann dregið tvær og hálfa milljón frá skattskyldum tekjum vegna kaupa á greiðslumarki, en þá reynist gengi greiðslumarks óbreytt, þannig að þeir 10 000 lítrar, sem hann bætti við greiðslumarkið fimm árum áður, eru áfram virði tveggja og hálfrar milljónar króna.

Það er ekki gott að sjá, með hvaða rökum viðskipti með greiðslumark, sem sýnilega er gjaldmiðill, eru skattlögð, fyrst önnur viðskipti með gjaldmiðla eru ekki skattlögð.

Bændablaðinu 29. apríl 2003 30