Þegar dró að kjöri sex manna í stjórn Bændasamtakanna á búnaðarþingi 2013, gáfu átta kost á sér. Kosin var uppstillingarnefnd. Þegar til kom, stillti hún ekki upp, eins og ætlast er til af slíkri nefnd, heldur tilkynnti, að þeir átta væru í kjöri. Þingið ákvað gegn því, að allir væru í kjöri. Sex hinna átta fengu atkvæði þorra þingmanna, tveir hinna átta fengu allmörg atkvæði, en nokkrir færri atkvæði.

Enda þótt framkvæmdin hafi verið svona hnökruð, hefur niðurstaðan mælst vel fyrir, annað hefur ekki spurst. Engu að síður er ástæða til að glöggva sig á því, hver tilgangurinn er yfirleitt með uppstillingu. Hugsanlegt er, að þar vanti skilning, fyrst uppstillingarnefnd sinnti ekki því, sem hún var kosin til.

Uppstilling er til þess, að kosningin beinist að samvöldu liði. Ef hver kjósandi hugsar út af fyrir sig án uppstillingar, getur svo farið, að kosnir verði sex að norðan, enda þótt enginn hafi merkt við fleiri en tvo norðanmenn, sex fjárbændur, enda þótt enginn hafi merkt við fleiri en tvo fjárbændur, sex sjálfstæðismenn, enda þótt enginn hafi merkt við fleiri en þrjá þeirra, og sex karlmenn, enda þótt enginn hafi merkt við fleiri en fjóra þeirra. Þá kann að hafa verið einhugur um, að í stjórninni verði þrír, sem sitja þingið kjörnir af búgreinafélögum og þrír kjörnir af búnaðarsamböndum og allir greiði þannig atkvæði, en samt nái kjöri sex, sem sitja þingið kjörnir af búnaðarsamböndum.

Má vera, að með nefndaruppstillingu finnist mönnum, að ráð séu tekin af þeim. Þá gæti nefndin komið með aðra uppstillingu, en það er ekki víst, að það svaraði áliti sumra fundarmanna. Hvernig ætti fundurinn að vinna úr því, ef þriðja uppstillingin kæmi? Þeir, sem kunna raðval, sjá þar ráð, það er, að nefndin komi með allnokkrar uppstillingar, þar sem sömu—segjum 10-12 menn—eru sitt á hvað meðal hinna sex. Aðrir geta bætt við uppstillingum, það veldur ekki vandræðum í raðvali, aðferðin er þannig. Síðan raða þingmenn uppstillingunum. Þingmaður merkir 1 við þá uppstillingu, sem hann vill helst, 2 við þá næstu, o.s.frv. eins og hann kærir sig um. Við þann stigareikning, sem er í raðvali, kemur í ljós, hvaða uppstilling hefur mestan stuðning.

Það er ekki nauðsynlegt að setja nýja samþykkt um þessi vinnubrögð, þingið hefur vitaskuld rétt til að kanna afstöðu þingsins, áður en gengið er til atkvæða. Þegar niðurstaða raðvalsins er kunn, má ganga til bindandi atkvæðagreiðslu. Mér þykir líklegt, að menn mundu þá bera aðeins upp þá uppstillingu, sem kemur best út úr raðvalinu. 

Bændablaðinu 21. mars 2013