Sólfræðingar hafa merkt, að  sólin hefur verið daufari undanfarin ár. Þannig hefur sagan verið, að virkni sólar hefur sveiflast verulega. Það sýna þeir á línuritum, sem ná yfir árþúsundir.

            Síðast var sólin verulega dauf fyrir fjórum öldum. Af því leiddi í Evrópu litla ísöld (1645-1715), en hún dró á eftir sér kulda í ein 150 ár. Hér norður við heimskautsbaug mundu tímamörkin hafa verið önnur. Sólfræðingar kunna ekki að svara því, hvort nú fari í sama far og á 17. öld. Þeir telja kólnunina geta orðið allt að því eins mikla, en minnst verði hún, sem svarar til þeirrar hlýnunar, sem maðurinn kann að hafa valdið með umsvifum sínum undanfarnar tvær aldir.

            Málstaður sólfræðinganna er annar en málstaður loftslagsfræðinga, sem gera ráð fyrir hlýnun loftslags vegna umsvifa mannsins. Sameinuðu þjóðirnar ályktuðu samkvæmt því í París í desember 2015 og gerðu loftslagssamning. Sólfræðingar gera ekki sem slíkir ágreining um það, að maðurinn hafi áhrif á loftslagið. Ef hins vegar fer, sem þeir ætla, þarf að snúa alveg við blaðinu í loftslagsmálum. Í stað þeirra ráðstafana, sem nú er unnið að til að halda aftur af hlýnun jarðar og mikið er fjallað um, meðal annars í Bændablaðinu, þarf þveröfugar ráðstafanir, sem halda aftur af kólnun, sem daufari sól veldur.

Bændablaðinu 1. desember 2016: 53