Margir koma að Geysi, en fáir nota tækifærið og fara upp að kirkjunni í Haukadal. Ég kom þar í fyrsta sinn í sumar og varð hugsað til þeirra tíma þegar þar var höfðingja- og menntasetur. Þar er staðarlegt og land fallega gróið, en gróðurfar ber þess merki að bærinn stendur hátt. Kirkjugarðurinn var fallega hirtur og leiði smekkleg.

Tvær sólskinssögur vildi ég segja af umhirðu kirkjugarða. Í annarri sókninni er ábyrgðinni jafnað á nokkur heimili árlega. Þau sjá sóma sinn í því að skila garðinum í góðri hirðu til þeirra sem viðtaka að ári. Heimilin kveðja sóknarmenn til starfa og kaffisamsæti er á staðnum á eftir.

Í sumar var ég staddur á öðrum kirkjustað í sveit. Sóknarnefnd hafði látið boð út ganga að þetta kvöld skyldi slá kirkjugarðinn og þrífa. Sóknin er fjölmenn og um 40 manns komu, nokkrir karlar með orf, sum vélnúin og önnur með ljá, en aðrir með heygaffal, hrífu eða klippur. Prestur situr staðinn og skruppu menn á heimili prestshjóna í kaffi og fundu þar næði fyrir orfagnýnum. – Þetta fannst fólki ánægjuleg stund.

Víða er umhirða kirkjugarða slæm. Má rifja upp orð Jónasar Hallgrímssonar um þá sem „telja sér lítinn yndisarð að annast blómgaðan jurtagarð.“ Dapurlegast er að sjá vanhirta kirkjugarða á fjölsóttum sögustöðum. Útlendingar sem fara um landið hafa unun af útsýninu þegar þeir líta sér fjær og þykir víða myndabragur á byggingum, en þeir undrast óhirðuna á kirkjugörðum í sveitum. Væri ekki ráð í ýmsum sóknum að taka sig á með samtökum eins og hér hefur verið lýst?

Víðförla 6 1986