Ég minntist á það hér í vor, að það væri þrúgandi í jarðarförum, að gestir tækju ekki þátt í athöfninni með eigin barka og vörum. Ýmsir þökkuðu mér þessa ábendingu eða réttara sagt ýmsar, því að þar var enginn kynbróðir minn.

Það var ánægjulegt að standa á hafnarbakkanum í Reykjavík 17. júní og virða fyrir sér Gauksstaðaskipið endursmíðað og áhöfn þess. Þar voru fluttar ræður og sungið á sviði. Þegar kór söng "Hafið bláa hafið", var kjörið tækifæri til að efna til almenns söngs, en það var ekki gert, enda þótt tónlistarmaðurinn og æskulýðsleiðtoginn Valgeir Guðjónsson stæði að athöfninni. Einn utan kórsins söng þó með, svo ég yrði var við, stúlka á skipinu. Þjóðin virðist vera jafnþrúguð í gleði og sorg og þó einkum karlþjóðin.

Morgunblaðinu 27. júlí 1991 (Velvakandi)