Sigfríður Björnsdóttir sagði frá söng Fílharmoníu í Landakotskirkju í kviksjá Útvarpsins á fimmtudagskvöld (19. þ. m.). Hún vakti fyrst upp gamla spurningu um það, hvort tónlist væri mannbætandi. Henni þótti dável sungið og endaði mál sitt á því að telja, að söngurinn, sem hún hafði heyrt, hlyti að vera mannbætandi, ef tónlist væri það yfirleitt.

Söngurinn var endurtekinn þá um kvöldið. Ég brá mér þangað. 16 tónverk voru flutt. Eftir annað lagið var klappað og síðan eftir hvert lag. 8. lagið var sálmur í þremur erindum, og var almenningi sagt að taka undir í þriðju vísu. Var svo gert og klappað á eftir. Almenningi var einnig sagt að taka undir í 15. lagi, sem var tvö erindi. Var það gert, og enn klöppuðu gestir.

Það var keppst svo við að klappa, að ég var jafnharðan rifinn upp úr þeirri ánægju, sem lagið hafði veitt. Það er líklega slík ánægjutilfinning, sem fær menn til að halda, að tónlist sé mannbætandi, en ég fékk sem sagt aldrei næði til að láta tónlistina bæta mig.

Það átti að vera svo frjálslegt að leyfa að klappa fyrir listamönnum í kirkjum. Nú virtist það orðin regla samkvæmt skyldu að klappa fyrir hvert lag - fólk vill líklega ekki láta söngvarana halda annað en þeir standi sig vel - og jafnvel kækur, þegar menn klappa fyrir sjálfum sér. Ég kysi heldur, að áheyrendur hugsuðu mest um eigin ánægju og leyfðu tilfinningum, sem sjaldan fá að bæra á sér, að koma fram og vera ótruflaðar.

Morgunblaðinu 28. desember 1991 (Velvakandi)