Samtal um fjárlagatillögur

Eins og nú er komið samkvæmt lögum 1997, leggur kirkjuráð fjárlagatillögur fyrir fjárlaganefnd Alþingis, en kynnir þær kirkjuþingi, sem kemur saman í október. Kirkjuþing ræður þeim hins vegar ekki, heldur kirkjuráð. Ráðið hlýtur samt að miða tillögur sínar við vilja kirkjuþingsmanna og hefur til þess margs konar tækifæri, enda kýs kirkjuþing fjóra af fimm kirkjuráðsmönnum. Tillögur kirkjuráðs verða vitaskuld misjafnlega þóknanlegar einstökum kirkjuþingsmönnum. Mér er þó ekki kunnugt um verulega óánægju þeirra með tillögur kirkjuráðs, en bendi hér engu að síður á aðferð, sjóðval, til að kanna afstöðu kirkjuþingsmanna, sem kynni að henta kirkjuráði, þegar það mótar fjárlagatillögur sínar.

Með sjóðvali geta þátttakendur sýnt mismunandi kappsemi í málafylgju, eins og hér segir:

Hver þátttakandi (kjósandi) fær atkvæði til umráða. Þau eru lögð í reikning hans, í sjóð hans, jafnmörg vegna hvers máls, sem tekið er fyrir til afgreiðslu.

Kjósandinn veðjar mismörgum atkvæðum í máli, mörgum í máli, sem hann telur mikilvægt, engu í máli, sem hann lætur sig engu varða, hvernig fer.

Í einstöku máli geta verið fleiri eða færri afbrigði. Kjósandinn raðar þeim í samræmi við áhuga sinn. Hann metur fyrst, hversu mörgum atkvæðum hann vill veðja á það afbrigði, sem hann kýs helst. Síðan býður hann atkvæði á afbrigðin í lækkandi röð niður í ekkert atkvæði á sísta afbrigðið.

Það afbrigði, sem flestum atkvæðum er veðjað á, er valið.

Af þeim, sem stóðu að sigrinum, eru dregin jafnmörg atkvæði og andstæðingar þess afbrigðis veðjuðu. Mál, sem allir fagna, kostar því ekki neitt atkvæði.

Þeir, sem vinna, greiða einungis fyrir það, sem þeir veðjuðu á vinningsafbrigðið. Það er því ekki til neins að leggja saman það, sem kjósandinn hefur veðjað á einstök afbrigði, til að athuga, hvort það sé meira en atkvæðatalan í sjóði hans.

 

Einfalt dæmi til skýringar

Tveir kostir eru í málinu, A og B. Veðjað er 20 atkvæðum á A og 10 á B. Draga skal 10 atkvæði af þeim, sem veðjuðu á A. Af atkvæðunum 20 á A hafði Hallgerður veðjað 6. Af henni eru dregin 6x10/20=3 atkvæði. - Lengra mál er að skýra, hvernig reiknað er, þegar afbrigði málsins eru fleiri en tvö, enda þótt það sé einföld stærðfræði, og verða áhugasamir að snúa sér til höfundarins vegna þess, en til er reikniforrit til þess.

Ef kirkjuráð vildi kanna viðhorf kirkjuþingsmanna til fjármála með sjóðvali, sýnist henta, að kirkjuráð semdi uppkast að fjárlagatillögum og sendi það kirkjuþingsmönnum og gæfi þeim kost á að gera tillögur til breytingar. Mætti hafa ákveðinn frest, áður en sjóðvalið hæfist, en tillögur mættu berast áfram. Að frestinum liðnum yrðu fram komnar tillögur kynntar kirkjuþingsmönnum og ein þeirra borin undir þá. Þingmenn fengju við hvert mál, sem borið er undir þá, 10 atkvæði í sjóð sinn, en þó 40 atkvæði í upphafi leiksins; það er til þess, að þeir, sem legðu kapp á fyrsta málið, geti beitt sér, eins og aðferðin er ætluð til.

Leikurinn, sem nú hefst, er eins konar samtal. Kirkjuráð getur bætt afbrigðum við, þegar breytingartillaga er borin upp. Fyrsta atkvæðagreiðslan gæti verið um fjögur afbrigði: afbrigðið A, sem var fram komin breytingartillaga, afbrigðið B, að engu verði breytt í þessu efni, og afbrigðin C og D, sem kirkjuráð bætir við. Atkvæði kjósanda nokkurs í þessu fyrsta máli gætu verið þannig:

A 10
B 15
C
D 5

Hugsum okkur, að flestum atkvæðum reynist veðjað á A, þ. e. a. s. að breytingartillagan yrði samþykkt. Þó að kjósandinn hafi ekki kosið A helst, átti hann þátt í því með 10 atkvæðum sínum, að C og D var hafnað fyrir A. Það reiknast kosta hann 2 atkvæði.

Síðan eru breytingartillögurnar bornar upp hver á fætur annarri. Á meðan berast fleiri tillögur, og eru þær kynntar kirkjuþingsmönnum.. Svo kann að fara, þegar nokkrar tillögur hafa verið samþykktar, að þá þyki einhverjum, að öðru vísi horfi með fyrsta málið, sem borið var undir atkvæði. Hugsum okkur, að þar hafi aukið fé verið fært til einhverrar starfsemi, en með þeim breytingartillögum, sem síðar voru samþykktar, þyki einum þingmanni eða fleirum það horfa öðru vísi við. Þá er réttmætt, að þeir, sem áttu þátt í samþykkt breytingarinnar og voru þess vegna dregnir um atkvæði, fái þau aftur í sjóð sinn. Áðurnefndur kjósandi hefur nú 24 atkvæði í sjóði og ver þeim þannig:

A
B 20
C
D 5

Svona má halda áfram, eins lengi og ástæða þykir til og tíminn leyfir. Atbeini hvers og eins kæmi fram með því að birta atkvæðatölur eftir á. Kirkjuráð hefði það svo á valdi sínu að taka tillit til könnunarinnar, þegar það að lokum setur saman fjárlagatillögur sínar.

Kirkjuritinu 69 (2002) 3 39-40