Það mæltist almennt vel fyrir, eftir að samþykkt höfðu verið lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave, að forystumenn í stjórn og stjórnarandstöðu skyldu vilja ræða það sín á milli að taka málið saman upp við breta og hollendinga.

En hvað ætla menn að standa saman um? Málið er, að alþjóðasamfélagið (les Evrópska efnahagssvæðið) leyfir ríkjum ekki að semja um styrki til fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri, þar með talin fjármálaumsvif. Rekstur á Evrópska efnahagssvæðinu á að standa og falla í samkeppni. Hlutafélag hefur takmarkaða ábyrgð, enda heitir það blátt áfram takmarkað á ensku, fyrir skuldbindingum þess standa eignir þess og hlutafé og annað ekki. Þó var ábyrgðin víkkuð fyrir fjármálafyrirtæki, með kvöðum um tryggingasjóð fyrir innistæður, en ábyrgðin nær ekki lengra en sjóðurinn.

Hvers vegna þarf enn að benda á þetta? Aðeins ein valdstofnun hefur skilið þetta, svo kunnugt sé, nefnilega Seðlabankinn, sem benti á það í október 2008, að íslendingar mundu ekki greiða skuldir óreiðumanna. Raunar þarf ekki að vera um óreiðumenn að ræða?fyrirtæki geta komist í þrot, þótt ekki sé óreiðu um að kenna?heldur er einfaldlega um að ræða skipan efnahags, þar sem ríkinu er af festu haldið frá því að standa undir tapi í atvinnurekstri. Því til viðbótar er þess að geta, að það er meginregla, sem skyggir yfir annað á Evrópska efnahagssvæðinu, að ekki má greiða umfram ábyrgð, það brenglar nefnilega samkeppni. Þar sem um meginreglu er að ræða, er ekki ástæða til að taka hana fram í hverju einstöku tilviki.

Ef menn ætla nú?fyrir eða eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna?að sammælast um málstað Íslands gagnvart Hollandi og Bretlandi, er ekkert um að semja. Það leyfist ekki að reglum Evrópska efnahagssvæðisins að koma til móts við kröfuhafa með ábyrgð ríkis. Lög, sem gera það, eins og sett voru tvisvar á nýliðnu ári, líðast ekki á Evrópska efnahagssvæðinu. Eftir því er litið. Ef þau koma til framkvæmda, hlýtur það að verða kært til þeirra, sem eiga að líta eftir. Alþjóðlegur sáttasemjari, sem talað er um, að megi kalla til, getur látið íslendinga, breta, hollendinga, svía og AGS sætta sig við, að einstök ríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa ekkert með þetta að gera, nefnilega að semja sig frá reglum um þetta efni, í því fælust sættirnar.

Sú mikla fyrirhöfn, sem þing og stjórn hafa lagt á sig í þessu máli, er löglaust góðverk við breska og hollenska ríkið, sem tóku til sín kröfur sumra þeirra, sem áttu innistæður í Landsbankanum hf. Nú um stundir kallar umheimurinn meira á önnur góðverk.

Morgunblaðinu 27. janúar 2010 18