– rætt við Björn Stefánsson, deildarstjóra, um uppbyggingu byggðarlaga á Íslandi

 

„Þær miklu ábyrgðir og skuldbindingar, sem íslensk hrepps– og bæjarfélög ganga í fyrir atvinnureksturinn á viðkomandi stað, eru mjög einkennandi í uppbyggingu byggðalaga á Íslandi,“ segir Björn Stefánsson, deildarstjóri, sem í tvö ár hefur notið Vísindastyrks við rannsóknir á íslenskum byggðarlögum frá hagrænu og félagslegu sjónarmiði. „Allt þetta hefur þróast svo, þar sem íslensk sveitarfélög við sjávarsíðuna – þar sem eru fleiri en 300 íbúar í sjávarplássi og fleiri en 200 utan þess – eru hér aðeins Vopnafjarðarhreppur og Ölfushreppur með Þorlákshöfn.“

– Vegna mikils óstöðugleika í sjávarútveginum, heldur Björn áfram, hafa oft á tíðum komið upp árekstrar milli getu einstakra atvinnufyrirtækja og þeirra skuldbindinga, sem þau hafa orðið að takast á herðar. Til þess að draga úr þessu misræmi hafa íbúar byggðarlaganna gripið til þess ráðs að taka á sig í auknum mæli sameiginlega ábyrgð á atvinnurekstrinum og nota þá hreppsfélagið til þess. Þar sem sveitarfélagið er samkynja atvinnulega eru þessar skuldbindingar í þágu allra íbúanna og því hefur jafnan legið ljóst fyrir, að þarna er aðeins verið að taka úr einum vasanum og flytja í annan. Þannig hafa hreppsfélögin verið notuð til að efla atvinnulífið á staðnum, þar sem fólkið er í beinni línu við það stjórntæki, sem til þarf.

Þessi þróun hefur á engan máta orðið til vegna einhverrar ákveðinnar opinberrar stefnu, t.d. ríkisstjórnar, heldur hefur þetta aðeins verið besta lausnin á knýjandi nauðsynjamáli hvers tíma á hverjum stað. Keðjan hefur teygst áfram og svo lokast hringinn í kringum landið. Hér virðist skipta litlu máli, hvernig fylgi stjórnmálaflokkanna er á hverjum stað. Til dæmis styðja sjálfstæðismenn á Stokkseyri þátttöku hreppsins sem aðaleiganda í útgerðar– og fiskverkunarhlutafélagi, þó það kunni að vera, að slíkt sé ekki beint á stefnuskrá flokksins. Hér hefur nauðsyn ráðið.

Hins vegar virðist draga úr því, að komið sé á fót hreinum hrepps– og bæjarfyrirtækjum í útgerð og fiskverkun.

– Hvernig er þessum málum háttað með öðrum þjóðum?

 

MIÐSTJÓRNARVALD og SJÁLFSSTJÓRN

– Í breska stjórnkerfinu til dæmis er miðstjórnarvaldið svo mikið, að einstök sveitarfélög mega sig lítt hræra til atvinnureksturs. Í hæsta lagi mega þau kannski eiga vatnsveituna. Hjá okkur er takmörkunin eiginlega öfug, því það er í reynd fátt, sem sveitarfélög hér á landi ekki geta gert. Í elleftu grein sveitarstjórnarlaga okkar segir reyndar, að án samþykkis ráðuneytis megi einstök sveitarfélög ekki leggja út í iðnað, verslun eða útgerð. Að því er kunnugir segja mér, hefur það þó aðeins einu sinn gerst að sveitarfélag sækti um leyfi til útgerðar. – Það var Reykjavíkurborg í stríðslok. Þau skörpu skil, sem hér eru milli hreppa og kaupstaða og fjárhagslegt sjálfsforræði þeirra hafa orðið þeim drjúg lyftistöng. Við skulum taka sem dæmi, að útvega þurfi bát til einhvers staðar. Það er jú alltaf að gerast hér hjá okkur. Allir íbúar staðarins eru mjög háðir því að það takist að útvega þetta tæki til að tryggja hráefni. jafnvel kaupmaðurinn sem aldrei kemur kannski nálægt fiskinum, og kona hans, sem þó ef til vill vinnur í frystihúsinu, eiga einnig sitt undir því að báturinn komi. Þannig eru þær skuldbindingar, sem til þarf, augljósir hagsmunir allra íbúanna og þeir þurfa ekki að leita til bændanna frammi í sveitinni til að nota hreppsfélagið, því bændurnir eru í öðrum hreppi.

Ef aftur á móti Skagafjörður væri allur eitt sveitarfélag að sænskri eða norskri mynd, þyrftu íbúar Sauðárkróks að leita til bændanna frammi í firðinum og úti í Fljótum til að geta skuldbundið hreppsfélagið. Og það má alltaf búast við, að þeir sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta beiti sér gegn málinu. Eflaust skilja bændurnir frammi í firðinum þarfir Sauðkræklinga fyrir nýjan bát en þeir hafa líka sín sérstæðu hagsmunamál. „Hafið þið ekki heyrt um kalið hjá okkur?“ Hofsósbúar myndu ef til vill segja sem svo: „Ja, okkur vantar líka bát og við viljum hafa full samræmi í þessum efnum.“ Hvað skyldu svo Fljótamenn segja? Strax þarna geta rekist á hagsmunir, sem erfitt kann að reynast að samræma. Ég býst við því, að lausnin yrði oft sú, að ekkert yrði gert. Það er reynslan frá sjávarsíðunni í Noregi, þar sem fleiri byggðarlög eru í einum hreppi.

– Sameining sveitarfélaganna á þá kannski ekki upp á pallborðið hjá þér?

– Ég tel það hagkvæmast fyrir atvinnulega uppbyggingu landsbyggðarinnar, að þéttbýlið á hverjum stað sé sérstakt sveitarfélag með fáum undantekningum þó. Að flækja saman í eitt sveitarfélag fólki, sem ekki á augljósa samleið í atvinnumálum, tel ég óheppilegt. Það sem skiptir sköpum í atvinnulegu tilliti hefur reynslan sýnt að er möguleiki fólksins á hverjum stað til að taka á sig þær skuldbindingar, sem því er hagur að, án þess að eiga eitthvað undir öðrum, sem þá ekki eiga með því samstæða hagsmuni.

Og ég tel – ætti kannski frekar að spyrja í svona blaðaviðtali. Er það ekki ein meginástæða þess, hve íslensku sjávarplássin réttu ótrúleg fljótt úr kútnum eftir aflabrest og gjaldeyristap, að á hverjum stað hafði fólkið sitt eigið stjórntæki, sem það gat notað til að rétta við atvinnulíf sitt?

 

SÖGUR TIL SAMANBURÐAR

Mig langar til að leggja enn frekari áherslu á það, sem ég hef kastað hér fram með því að segja þér tvær sögur til samanburðar:

Hverfum nú til Stöðvarfjarðar á því herrans ári 1945. Þar rær hver á sinni trillu og menn salta aflann sjálfir. Engir stærri bátar eru til. Hvert heimili sér sínum fyrir atvinnu. Það er að mestu einkamál hvers og eins, þó hann leggi niður útgerð og flytjist burt.

En á sínum tíma kemur svo frystihúsið í Stöðvarfjörð – að vísu er hreppurinn ekki aðaleigandi, en það lendir mjög á hreppnum aðtryggja rekstur hússins, einkum með því, að útvega báta til að sjá húsinu fyrir hráefni. Nú stendur allt og fellur með frystihúsinu. Því er annað óhugsandi en hreppsfélagið taki á sig þá ábyrgð, sem þarf til að húsið gangi vel. Þetta er tiltölulega einfalt allt saman, því Stöðfirðingar eiga það ekki við nágrannabyggðarlögin, hvernig þeir nota hreppsfélagið.

Komdu svo með mér í sjávarpláss á Nýfundnalandi árið  1968. – Á Nýfundnalandi ríkir miðstjórnaraflið í sveitarstjórnarmálum. – Í þessu þorpi er atvinnulífið nú sem værum við á Stöðvarfirði 1945.

Þetta ástand er síður en svo fólkinu í plássinu að kenna. En það hefur hvorki fjármálavald né sveitarstjórnarvald til að rífa plássið sitt áfram – fólkið skortir sjálfsforræði. Miðstjórnarvaldið er í höfuðborginni og bankar landsins og sjóðir eru lokaðir þessu litla plássi á ströndinni. En þangað liggur vegur, sem í engu gefur eftir Keflavíkurveginum okkar!

 

SAMTÖK OG SÉRSTAÐA
– En geta ekki íslensk sveitarfélög átt einshvers konar samvinnu?

– Íslensk sveitarfélög eiga nú þegar með sér margháttaða samvinnu. Ég hef mikið velt því fyrir mér, hvernig koma má þeirri samvinnu í skipulegra form og hún má verða án þess að nokkru sé spillt í atvinnumálum eða dregið sé úr þeirri þjónustu, sem menn nú geta fengið heima hjá sér.

Annars er ástæða til að minna á þá skipulagslegu möguleika, sem reynslan hefur kennt okkur að eru til, til að gera smáar einingar efnahagslega hagkvæmar. Við höfum langa og góða reynslu í þeim efnum bæði í sjávarútvegi og landbúnaði.
Í þeim atvinnugreinum eins og í iðnaði getur tiltölulega lítil framleiðsla oft gengið með góðum árangri – í landbúnaði eins og tveggja manna fyrirtæki og við hraðfrystingu á fiski frystihúss með nokkra tugi mann í vinnu. – Hins vegar standa slík fyrirtæki illa að vígi á öðrum sviðum. Til þess að bæta úr því hafa hér á landi verið stofnuð landssamtök, sem annast sölu á afurðum og veita tæknilega þjónustu.

Ég er að bíða eftir því, að öll litlu iðnaðarfyrirtækin, sem við höfum um allt landið – og þá skulum við hafa í huga, að iðnaðurinn er sú atvinnugrein sem er talin hafa best vaxtarskilyrði – sameinist skipulagslega og komi sér upp heildarsölu– og útflutningssamtökum. Ég á fastlega von á því, að iðnaðurinn þurfi á sams konar fyrirgreiðslu sveitarfélaganna að halda og sjávarútvegurinn hefur fengið ef hann á að verða sæmilega stór í þorpum og kaupstöðvum. Þá sýnist mér ekki líklegt, að það yrði til dæmis iðnaði á Blönduósi til framdráttar, ef Blönduós væri hreppsfélag með sveitunum, sem þangað sækja verslun. Það yrði þá að eiga það undir bændum í Vatnsdal og Svínadal, hvort hreppurinn mætti taka á sig skuldbindingar vegna uppbyggingar iðnaðar á Blönduósi.

– Og skólamálin?

– Á barnaskólastiginu er um talsverða samvinnu að ræða milli sveitahreppa og á unglinga– og gagnfræðastiginu einnig milli fámennari þorpa. Oft virðast menn hafa fundið þar heppilegar lausnir á þessum málum eins og þau eru búin í hendur á fólki af yfirvöldum fræðslumála.

Hins vegar reynist skólaakstur víða dýr og hann hefur lítið uppeldisgildi. Langvarandi heimavist í stórum skólum er ekki heppileg fyrir mörg börn og hún er mikið álag á kennaralið og auk þess dýr.

Hér sýnist mér að þurfi – á líkan hátt og reynt hefur verið í sjávarútvegi og landbúnaði – að finna það skipulag á kennslunni, sem hentar í fámenni í stað þess að reyna að draga saman nógu mörg börn, svo sem nú er gert, til að hægt sé að halda sem líkustu kennslufyrirkomulagi og tíðkast í Reykjavík.

Á síðustu árum hafa kennslufræðingar víða um heim komið fram með nýjar kennsluaðferðir, sem gætu komið að góðum notum í fámenninu hér. Þá væri hægt að draga úr þeim árekstrum, sem víða verða á landsbyggðinni um staðarval fyrir skóla. – Í stað þess að draga börnin saman á einn stað, mætti kennslan koma til barnanna. – Eins og málum er nú háttað, mætti ætla, að hér á landi væru engar póstsamgöngur, ekkert útvarp og því síður sjónvarp!

Miðstjórnarvaldið er sterkt í skólamálum okkar. Vissulega þurfa skólahéruð landsins sameiginlega stofnun til að leysa verkefni fyrir sig, en við höfum vanrækt að þróa og koma á framfæri kennsluaðferðum sem henta skólahéruðum landsbyggðarinnar. Skipulag allt, þarf að sveigja eftir landsháttum en ekki beygja fólkið eftir skipulaginu.

Morgunblaðinu 15. nóvember 1970 [viðtal]