Margs konar hættur hafa alla tíð leynst í götu barna og unglinga til sveita. Lækir og ár, fen og mógrafir, gil og hamrar hafa víða verið varasöm. Skotvopn hafa valdið áverkum og jafnvel kostað líf. Ljáir og önnur eggjárn hafa verið skeinuhætt mörgu barninu. Þó að ljáir séu nú lítið notaðir hafa komið önnur verkfæri sum að sama skapi hættuleg sem þau eru stórvirk. Slys af völdum þeirra eru svo hryggilega að fólk vill sem minnst um þau ræða, t. a. m. hvaða áverkar leiddu til bana. Flestir þekkja slík afvik hjá sér nákomnu og nákunnugu fólki, einnig á heimilum með viðurkenndu ráðdeildarfólki.

Samtök bænda hafa beitt sér fyrir slysavörnum á þessu sviði. Lögfest var að hlífðargrindur skyldu fylgja nýjum dráttarvélum sem til landsins flyttust. En betur má ef duga skal. Á ferðum um landið í sumar bar iðulega fyrir augu menn á ferð á dráttarvél án hlífðargrinda og þá fór ekki hjá því að rifjuðust upp ýmsir voveiflegir atburðir tengdir slíkum akstri. Önnur slys henda einnig, t. a. m. tengd aflúrtaki. Færiböndin eru út af fyrir sig ekki eins hraðdrepandi og aflúrtak, en geta samt valdið slysum.

Hér má því betur ef duga skal. Lög um öryggiseftirlit nægja ekki. Ekki dugar heldur að banna unglingum með lögum að koma nærri ákveðnum vélum. Hér duga aðeins þau lög sem fólgin eru í hugarfari fólksins á hverjum bæ. Varúð má kenna. Reykjavíkurborg hefur kennt stálpuðum unglingum sem ætlað hafa í sveit á dráttarvélar. Enn brýnna væri að kenna börnum þær hættur sem fylgja hinum ýmsu tegundum véla, þó að þau vinni ekki með þeim. Væri ekki ráð að Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsamböndin tækju upp slíka kennslu og þá jafnt fyrir sveitabörn sem aðkomubörn.

Nauðsynleg hugarfarsbreyting í þessum efnum verður varla nema þessi slysavarnamál séu tekin fyrir í hverri sveit á skipulegan hátt. Mér kemur í hug að búnaðarfélag hverrar sveitar skipaði þriggja manna slysavarnasveit sem kynnti sér allar aðstæður á hverjum bæ og legði á ráðin um öruggari vélbúnað og vélanotkun. Hvernig væri að slík nefnd væri skipuð unglingi, húsfreyju og bónda? Ráðunautar búnaðarsambandanna og Búnaðarfélags Íslands mundu svo leiðbeina slysavarnasveitunum eftir því sem ástæða yrði til. Slíkt skipulegt starf mundi þegar til lengdar lætur innræta fólki varúð, varúðin yrði ríkjandi siðamat í stað þeirrar fífldirfsku sem einkennir margan landann og kemur fram þegar fólk lýsir því með stolti í eigin bíl að það kunni ekki á öryggisbeltin.

Frey 76 (1980) 694