Frumvarp til laga um almannatryggingar, sem nú liggur fyrir alþingi er í fyllsta samræmi við almenningsálitið. Hér er um að ræða framhald stefnu, sem tekin var upp á meginlandi Evrópu fyrir heilli öld. Lengi var um það deilt, hvort rétt væri að vinn að jöfnun lífsgæða á þennan hátt, en nú orðið greinir menn ekki á um stefnuna, að minnsta kosti greinir þjóðkjörna fulltrúa ekki á um hana, heldur er deilt um það, hvort nóg sé að gert og hvenær rétti tíminn sé til að halda lengra á sömu braut. Inntak þessarar stefnu er það, má segja að mönnum býðst fjárhagslegur stuðningur sökum aldurs, framfærslubyrðar, veikinda og annarra óhappa eða örorku án þess að þurfa að sanna það, að þeir séu þurfandi og eigi ekki fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Líklegt er, að með almannatryggingum hafi tekist að koma í veg fyrir, að margt fólk reki upp á sker, þó að ytri kringumstæður kunni að vera því mótdrægar um stundar sakir. Það lítur stundum út fyrir, að óhöppin elti sumt fólk uppi, og það má telja víst, að sú aðstoð, sem almannatryggingarnar bjóða, hafi forðað mörgum manninum út úr vítahring, þar sem óhapp eða slys býður upp á fátækt, fátæktin kallar á sjúkdóma og seinast lenda menn á opinberu framfæri. Þá er ekki víst, að menn rétti við úr því. Það má því segja, að almannatryggingarnar séu öðrum þræði til þess að koma í veg fyrir, að fólk verði utan garðs í landinu.

 

NÝ VIÐHORF TIL FÉLAGSMÁLA

Að öðru leyti er að gerast breyting í vinnubrögðum félagsmálafólks. Þannig líta menn svo á á framfarasinnaðri stofnun eins og á Skå við Stokkhólm, að því fólki, sem hefur lent í vandræðum, verði að sýna virðingu með því meðal annars að beita það ekki valdi. Það, sem þetta fólk vanti, sé meðal annars sjálfsvirðing, og hana fái það ekki nema aðrir láti það njóta jafnréttis.

Það, sem er nýjast uppi viðhorfum til félagsmála er þetta:

Það fólk, sem kemur til meðferðar félagsráðgjafa og geðlækna, ber oft óhollum þjóðfélagsháttum vitni. Þeir, sem líða fyrir þessa þjóðfélagshætti, eru miklu fleiri en þeir, sem komast á skrá félagsmálastofnana og geðlækna. Ef koma á í veg fyrir sívaxandi álag á félagsmálastofnanir og geðlækna, verður að draga úr því álagi, sem hvílir á ef til vill öllum þorra fólks. Þjóðfélagshættirnir verða að breytast í samræmi við það. Hér er verið að taka upp sömu vinnubrögð og nú sækja á í læknavísindum, sem sé að skera ekki aðeins fyrir rætur meinsins í eiginlegri merkingu heldur óeiginlegri líka. Til að draga úr dauðsföllum af lungnakrabba þarf að draga úr reykingum, til að draga úr ótímabærum dauðsföllum af kransæðastíflu þarf að draga úr reykingum, streitu og hreyfa sig meira.

Það er erfitt að gera skil í blaðagrein því sem það félagsmálafólk, sem setur markið hátt, telur, að standi til bóta í þjóðfélagsháttum ef stemma skal á að ósi. Þó má nefna þetta:

Fólk almennt og ekki aðeins vandræðafólk í meðferð þarfnast virðingar náunga síns og yfirvaldanna. Það á ekki að ráða málum þess að því forspurðu.

Til að ölast og viðhalda heillegum persónuleika þarf þorri fólks að alast upp í og lifa í heillegu mannfélagi, það er að segja í mannfélagi, þar sem menn hafa varanleg tengsl við fólk, sem það kynnist frá ýmsum hliðum, á heimili, í leik og starfi. Nútíma heimilishald býður ekki upp á þetta, og nútímasambýlishættir nágranna í borgum ekki heldur. Heimilin eru of fámenn og of einangruð til þess. Um leið og losnað hefur um varanleg kynni á breiðum grundvelli utan fjölskyldu og heimilis, hefur mætt meira á fjölskyldunum, sem nú orðið eru aðeins hjón, með eða án barna. Hjónaband er að vísu almennara en fyrr, en það er meðal annars fyrir það, að um annan náinn félagsskap er ekki að ræða lengur. Einangruð fjölskyldan getur verið hættuleg ómótuðum börnum og ofraun fullorðnum. Við upplausn nábýlis og einangrun fjölskyldunnar hefur daglegt líf orðið mjög fátæklegt fyrir marga. Það verður ekki bætt upp með ríkulegum tækjakaupum og vöruneyslu. Fábreytilegt daglegt umhverfi, eins og það hefur meðal annars mótast af skipulagi bæja, leggst á sinnið.

Sömu einkenna gætir í strjálbýli. Þar er á vissan hátt meira í húfi að menn einangrist ekki frá nágrönnum sínum, þar sem möguleikar til umgengni við fólk eru minni vegna fámennis og mikilla fjarlægða.

Þó að félagsvísindin geti þannig greint ástandið og sagt til að nokkru um það, hvers maðurinn þarf sem einstaklingur og félagsvera, er ekki eins gott að kveða úr um það, hvað gera skuli. Það er til dæmis ekki hægt að segja einfaldlega við fólk, að það megi ekki einangra sig um of á heimilinu og að því beri að stofna til og halda við varanlegum kynnum á breiðum grundvelli. Reynslan kennir það, að fólk, sem ekki á erindi að reka hvort við annað, forðast heldur samskipti sín á milli, en samskipti ganga því greiðar sem brýn erindi eru fleiri. Menn segja því, að lausnin hljóti að vera sú að fela samtökum þess fólks, sem telja verður að eigi nánasta samleið völd og verkefni við hæfi. Menn reka sig hins vegar fljótt á það, að það er ekki auðvelt að byggja upp slík samtök fólks af þeirri stærð, sem leyfir almenn varanleg kynni þátttakenda, ef fólkið hefur, jafnvel fyrir nýorðnar skipulagsbreytingar, fjarlægst hvað annað.

Það er mjög uppörvandi að fylgjast með þrautseigju og bjartsýni yngri félagvísindamanna í Noregi á þessu sviði svo stuttu eftir að svo mörg traust sveitarfélög þar í landi hafa verið rifin upp með rótum. Það er greinilegt, að hin pólitísku ungmennafélög þar í landi hafa tekið málstað þennan á sína arma. Í Svíþjóð hafa líka orðið furðu mikil umskipti á stuttum tíma. Fyrir fáum árum fóru þeir menn hjá sér, sem vildu flytja það mál að almenningur þyrfti að eiga tiltölulega mjög lítil (fámenn) samtök, m. ö. o. sveitarfélög. Nú er það á stefnuskrá allra sænskra stjórnmálaflokka nema sósíaldemókrata að vinna að því að koma upp hverfisstjórnum í borgum og hreppsnefndum í héruðunum.

Þó að ég sé búsettur í Reykjavík og fái því sjálfur að kynnast einkennum nútíma borgarlífs, hef ég um tuttugu ára skeið fylgst nokkuð náið með þjófélagsháttum til sveita og síðan 1963 öðrum þræði við rannsóknir. Mér hefur orðið það ljósara og ljósara, að félagsleg og þar með andleg velferð fólks í strjálbýli er mikið komin undir því, að sá félagsskapur, sem hver maður þar er sjálfkrafa í, hreppsfélögin, starfi sem best og hafi verkefni, sem laði menn saman og styrki kynnin. Ég hélt um tíma, að það væri eðlileg þróun, að sýslurnar leystu smám saman hreppana af hólmi. Nú hef ég sannfærst um það, það eitt er eðlileg þróun, sem er fólkinu til farsældar. Sveitafólkið má ekki missa félagsskapinn, má ekki einangrast á fámennum heimilum og þarf þess vegna hreppsfélögin til að tengja heimilin saman. Um leið og leitar er að fullnægjandi félagsformi í þéttbýli, þarf að efla starfsemi hreppanna meðal annars með þeim skipulagsbreytingum, sem íbúar þeirra telja sér henta. Það reynist hins vegar erfitt að byggja upp, þegar einu sinni hefur verið rifið niður.

Ég hef bent á það, að almannatryggingar hafa öðrum þræði þau áhrif, að þær koma í veg fyrir ýmis félagsleg vandamál. Kröfuhart fólk, sem starfar að félagsmálum, vill nú, að þjóðfélagshættir séu mótaðir þannig, að sem fæstir lendi í vandræðum. Þess er ekki að vænta, að yfirvöld félagsmála taki upp þá stefnu fyrr en almenningsálitið hefur snúist nokkuð á þá sveifina, ekki síst þar sem þá kann að þurfa að snúa við blaði, og hef ég þá sérstaklega í huga sveitarstjórnarmálin.

 

HREPPASJÚKRASAMLÖGIN

Í frumvarpi til laga um almannatryggingar er lagt til að sjúkrasamlög hreppanna verði lögð niður, en við þeim taki sjúkrasamlög fyrir sýslufélögin, en þó ráði ráðherra skipan þeirra mála. Er sagt í greinargerð, aðhreppasamlögin séu of lítil og þurfi að dreifa áhættunni. Auk þess verði stjórn þeirra betri þannig.

Síðan 1968 hafa hérasamlög haft sjúkrahústryggingar á hendi í stað hreppasamlaganna. Þar var vissulega um mestu áhættuna að ræða, enda hefur reynslan orðið sú síðan, að skuldbindingar sjúkrasamlaganna hafa ekki orðið nokkru þeirra um megn, er mér sagt á Tryggingastofnun ríkisins. Áður var áhættan jöfnuð milli ára með því að veita því sjúkrasamlagi, sem ekki gat staðið við skuldbindingar sínar, lán en lánið greiddi það síðan með því að hækka iðgjöldin. Rétt er að veita því athygli, að þjónusta sjúkrasamlaganna er að mestu hin sama, hvar sem er á landinu. Ég hef það einnig fyrir satt, að menn fái fullkomna afgreiðslu jafnt í litlum sem stórum samlögum. Þó hef ég trú á því, að þjónustan kunni að sínu leyti að vera betri í fámennum samlögum á þann hátt, að afgreiðslumaðurinn, gjaldkerinn, sem er öðrum kunnugri tryggingalöggjöf, þekkir kringumstæður skjólstæðinga sinna og getur því bent þeim á þá möguleika, sem tryggingarkerfið býður.

Maður nokkur kunnugur sjúkrasamlögum víða um land tjáir mér þá skoðun sína, að rekstrarkostnaður litlu sjúkrasamlaganna sé trúlega minni en stóru samlaganna, enda taki ekki allir gjaldkerar þeirra 5% af heildartekjum samlagsins til sín, eins og heimilað er. Þeir þurfi litlu til að kosta, þurfi til dæmis enga sérstaka skrifstofu. Hitt má líka benda á, því að það skýrir lágan rekstrarkostnað fámennra sjúkrasamlaga, að á svæðum þeirra er víðast örðugt um atvinnu, þannig að þar er frekar en í þéttbýli, þar sem fleiri kostir bjóðast, hægt að fá til starfsins greinda menn gegn hóflegri þóknun, t.d. í sveitum bændur, sem eru að koma fótum undir bú sitt og vantar aukagetu meðan búið er lítið eða rosknir bændur, sem eru að draga saman seglin og láta búið í hendur yngri manna.

Það er aðeins eitt atriði, sem ég hef fundið, að kvarta má yfir varðandi hreppasamlögin, en það er, að sum þeirra senda reikninga sína seint inn til Tryggingastofnunar ríkisins, en Tryggingastofnunin fer með eftirlit þeirra. Héraðssamlögin eiga að sjá um innheimtu reikninganna, og hefur innheimtan farið batnandi síðan það lag komst á og héraðssamlögin festust í sessi, og nú eru það aðeins mjög fá samlög, sem eru slóðar á þessu sviði. Þessu er auðvelt að kippa í lag með því t.d. að gera það að skilyrði fyrir greiðslu framlags ríkisins til sjúkrasamlagsins, að reikningar hafi borist.

Þegar ég heyrði, að flutt væri tillaga um að leggja niður hreppasamlögin, gerði ég ráð fyrir því, að þau hefðu ekki valdið hlutverki sínu á einhvern hátt og því yrði erfitt að mæla þeirri breytingu í mót. Ég hugsaði sem svo, að rétt væri að vinna að því að binda það í lögum, að hreppsfélögin hefðu umboð sýslusamlaganna, sæju um innheimtu og afgreiðslu. Nú þykist ég hafa komist að því, að það er lítið út á hreppasamlögin að setja nema síður sé, og það sem er aðfinnsluvert á að vera hægt að leiðrétta með því að gera reglubundin reikningsskil að skilyrði fyrir framlagi ríkisins.

Þó að menn séu ekki sammála því að halda uppi sjúkrasamlögum í hreppunum, verður ekki séð, að nein góð ástæða sé til að ákveða það í lögum á þessu þingi að leggja þau niður án þess að vita nokkuð, hvaða skoðun fólk á í sveitum og þorpum landsins hefur á málinu. Það er að minnsta kosti ekki svo brýnt að koma breytingunni á strax. Mér sýnist sanngjarnt, að breytingunni sé frestað, og hún verði ekki gerð nema fólkið í viðkomandi héruðum hafi fallist á hana og óskað eftir henni. Slík vinnubrögð væru í samræmi við nútíma viðhorf til réttar fólks til áhrifa á þau mál, sem það varðar. Yfirvöldum félagsmála ber að ganga fram fyrir skjöldu að halda fram þeim rétti.

Morgunblaðinu 3. apríl 1971