Í lýðræði setur þjóðkjörið þing lög með atkvæðagreiðslu. Sérhver þingmaður á jafnstórt atkvæði í hverju máli og atkvæði verða ekki geymd til síðari nota.

Meirihluti atkvæða í einstökum málum hefur aðallega myndast með þrennu móti: Þingmenn hafa náð saman með því að ákveða úrræði á þann hátt, að þau næðu svo til til allra landsmanna. Með það í huga er skólaganga og heilsugæsla landsmanna skipulögð. Þeir hafa náð saman í gagnkvæmri tillitssemi: með flokksaðild óháð flokksmörkum í hollustu við kjördæmi og áætlunarbúskap fyrir kjörtímabilið um opinberar framkvæmdir á ýmsum sviðum. Í þriðja lagi hefur þingið falið sveitarfélögum ábyrgð mála; þannig hefur það létt ábyrgð af stjórnvöldum, en því hafa gjarna fylgt skilyrði um það hvernig sveitarfélögin skuli standa að málum.

Þannig hafa sveitarfélögin orðið stjórntæki ríkisins. Þegar svo er, flækir það mál fyrir þingi og stjórn, ef þau eru misjöfn að gerð og getu. Þess vegna hefur lengi verið viðleitni til að gera þau sem líkust. Íslensk sveitarfélög hljóta samt að verða ólík; aðstæður eru svo breytilegar. Þar má nefna Innnes og Vestfirði sem dæmi.

Forráðamenn byggðarlaga hafa náð saman um úrræði, aðallega með þrennu móti: Í samstæðu sveitarfélagi fæst samstaða fyrirhafnarlítið, en í sundurvirku sveitarfélagi getur gengið á ýmsu, stundum með aðgerðaleysi, enda stundum með óhóflegum kostnaði, ef til vill til að gera sem flestum til hæfis. Í sambandi hreppsfélaga (sýslufélagi) með eigin miðstöð varð samstaða um úrræði, þar sem hrepparnir utan miðstöðvarinnar voru samkynja. Annars staðar vildi verða samstaða um aðgerðarleysi.

Með markaðsatkvæðum fæst aðferð til að laða menn saman um úrræði óháð framangreindum aðferðum. Atkvæðaréttur þessi er þannig, að aðilar málsins hljót atkvæði sem fastan tekjustofn (t.d. eitt á dag). Ef maður lætur sig mál litlu varða býður hann fram fá atkvæði fyrir það. Hann sér sér hag í því að geyma atkvæðin til ráðstöfunar þegar fram koma mál, sem hann telur mikilvægari. Þegar slíkt mál kemur til atkvæða, getur hann lagt mismörg atkvæði fyrir afbrigði málsins. Af þeim sem standa á bak við atkvæði sigurafbrigðisins eru dregin atkvæði, ekki öll atkvæðin, sem þeir lögðu á sigurafbrigðið, heldur í hlutfalli við þá atkvæðatölu sem þarf til að vega á móti þeim sem voru á móti því. Þeir tapa málinu, verða því hlutfallslega betur búnir atkvæðum til nota síðar. Atkvæðabókhald sýnir árangur í málarekstri í ákvörðunum og í atkvæðasjóðsstöðu hvers og eins.

Stefnt er að tilraunum með markaðsatkvæði sem aðferð við skoðanakönnun til þess m.a. að kanna hvernig þau breyta notagildi framangreindra aðferða við mótun úrræða og skiptingu ábyrgðar.

Landabréfinu 9-10 (1992-93) 1 11.