Árið 1903 var boðið með lögum að kjósa um framboðslista til bæjarstjórnar hér á landi, en fram til þess greindi hver kjósandi í heyranda hljóði hverja hann kaus. Algengt var fram um 1920, að sami maður væri á fleiri en einum lista. Menn buðu sig ekki fram, heldur voru boðnir fram. Með framvexti stjórnmálaflokka dró úr því, að menn væru á fleiri en einum lista. Það var afnumið árið 1936 með lögum. Það var hins vegar fyrst árið 1962, að menn gátu neitað að skipa sæti á framboðslista.
Siglufjarðarbær varð til með lögum 1918, þegar Hvanneyrarhreppur í Eyjafjarðarsýslu var gerður að bæjarfélagi. Í ársbyrjun 1919 var kosið til bæjarstjórnar í fyrsta sinn.1) Tveir listar voru boðnir fram. Fyrr barst listi frá kaupmanna- og verslunarmannafélagi Siglufjarðar og síðar listi frá verkamannafélagi Siglufjarðar. Voru listarnir merktir A og B, í sömu röð. Sex menn voru á hvorum lista, eins og kjósa átti, en samkvæmt lögum sat bæjarfógeti í bæjarstjórn og var forseti hennar og framkvæmdastjóri (bæjarstjóri). Á A-lista voru tveir kaupmenn efstir, svo héraðslæknirinn, þá sóknarpresturinn, síðan verslunarstjóri og neðstur kennari. Á B-lista var sóknarpresturinn efstur, síðan verkstjóri, þá kaupmaður, þá annar verkstjóri og neðstir tveir trésmiðir. Sóknarpresturinn á Hvanneyri, Bjarni Þorsteinsson, var oddviti hreppsnefndar og hafði um alllangt skeið haft forystu í prestakallinu í andlegum sem veraldlegum efnum. Í kjörbókina er ekki skráð nein athugasemd við gerð listanna, svo sem það að sami maður sé á tveimur listum.
Atkvæði greiddu 197. A-listi hlaut 87 atkvæði, B-listi 90, en 20 seðlar voru ógildir. Fyrst úrskurðaði kjörstjórn hvorum lista þrjá menn. Síðan reiknaði hún út hverjir hefðu náð kosningu af hvorum lista (sbr. töflu 1). Efsta manni listans (seðilsins) var reiknað heilt atkvæði, 2. manni 5/6 úr atkvæði, 3. manni 4/6, 4. manni 3/6, 5. manni 2/6 og 6. manni 1/6 úr atkvæði. Sýnilegt er, að einhverjir kjósendur A-lista hafa flutt sr. Bjarna upp um sæti, öðru vísi hefði hann ekki getað fengið nema 133 1/2 atkvæði. Efsti maður á A-lista hefur hins vegar lækkað verulega með breyttri röðun.
Bjarni Þorsteinsson sóknarprestur | B | 136 2/6 | atkvæði |
Helgi Hafliðason kaupmaður | A | 70 1/6 | — |
Flóvent Jóhannsson verkstjóri | B | 64 3/6 | — |
Sigurður Kristjánsson kaupmaður | A | 59 5/6 | — |
Friðbjörn Níelsson kaupmaður | B | 57 | — |
Guðm. T. Hallgrímsson héraðslæknir | A | 53 2/6 | — |
Það er nú framandi fyrirkomulag, að sami maður skuli vera á tveimur framboðslistum. Athugum, hvort það þurfi að hafa verið siglfirðingum framandi árið 1919. Þeir voru þá óvanir listakosningum. Til fimm manna hreppsnefndar höfðu menn verið kosnir á þriggja ára fresti, tveir og þrír til skiptis. Framboð tíðkuðust ekki. Kosið var í heyranda hljóði. Hver kjósandi réð því hverja tvo eða þrjá hann nefndi, þegar röðin kom að honum, en hann raðaði þeim ekki. Má segja, að þeim sem báru fram B-listann hafi leyfst sams konar frjálsræði að velja menn, þótt þeir yrðu að vísu að raða þeim. Siglfirðingar höfðu því ekki reynt það sem síðar varð venja, að listar séu búnir til með því að menn dragist fyrst í dilka (gjarna flokka) og síðan sé raðað á lista úr hópi þeirra sem eru í sama dilki. - Alþingiskjördæmi siglfirðinga, Eyjafjarðarsýsla, kaus tvo. Þá var ekki komin á sú regla í tvímenningskjördæmum, sem síðar varð, að menn byðu sig fram tveir á lista með tveimur varamönnum. Vitaskuld gátu tveir og tveir úr hópi frambjóðenda kynnt sig sem samherja, en kjósendur þurftu ekki að láta það ráða hverja þeir veldu saman. Kosningin var leynileg.
Næst var kosið til bæjarstjórnar árið 1920, þegar bæjarfulltrúum var fjölgað um tvo. Engir varamenn voru. Urðu kosningar því tíðar við afsögn eða brottflutning. Tveir voru kosnir 1921 og einn árið eftir. Næst breyttist bæjarstjórnin þannig, að þrír bæjarfulltrúar voru dregnir út. Var sr. Bjarni meðal þeirra. Í stað þeirra voru kosnir þrír fulltrúar í ársbyrjun 1923 til þriggja ára. Boðnir voru fram tveir listar. Var sr. Bjarni á öðrum þeirra og var kosinn, en úr því gaf hann ekki kost á sér í bæjarstjórn. Aftur var kosið 1923 (tveir menn), svo 1924 (tveir menn), 1925 (þrír menn), 1927, fyrst þrír menn og síðar einn, og 1929 (fjórir menn). Það var fyrst árið 1930 að tekið var upp það fyrirkomulag, sem síðan hefur verið við lýði, að kjósa fullskipaða bæjarstjórn í hvert sinn. Kosningin 1919 á Siglufirði var einsdæmi þar.
Sá var munur á framboði til sveitarstjórnar og til alþingis á þessum árum, að til alþingis bauð maður sig fram, en til sveitarstjórnar var listi borinn fram af meðmælendum, án þess að krafist væri samþykkis þeirra sem voru á listanum. Menn gátu raunar ekki skorast undan kjöri nema hafa áður setið í sveitarstjórn eða náð ákveðnum aldri. Samt gátu menn sýnilega fengið lausn að eigin ósk. Það var fyrst með lögum 1962, að krafist var samþykkis þeirra sem skipuðu framboðslista til sveitarstjórnar.
Ljóst er, að framboð af þessu tagi raskar þeirri hugmynd að menn skuli vera hollir aðeins einum málstað og einum samtökum, eins og er forsenda stjórnmálaflokka. Vitaskuld er ekki alltaf um það að ræða við kosningar, heldur getur verið, að aðeins sé ágreiningur um það hvaða menn með sama málstað séu heppilegastir saman.
Spyrja má hvað vakti fyrir mönnum með skipan sr. Bjarna á listana. Hvers vegna setti kaupmanna- og verslunarmannafélagið þennan mikilsvirta forystumann í 4. sæti? Var það bragð til að fá meirihluta í bæjarstjórn? Vildi verkamannafélagið ónýta það bragð með því að setja hann í efsta sæti sitt, svo að færri, sem vildu vera öruggir um kosningu sr. Bjarna, sæju ástæðu til að kjósa A-listann?
Þegar ég sagði frá þessum háttum siglfirðinga 70 árum síðar, þóttu þeir furðulegir. Athugun leiðir samt í ljós að slíkt var viðtekið í höfuðstað landsins og víðar á þessum árum og studdist við landslög. Reyndar áttu listakosningar ekki langa sögu. Í tilskipun um bæjarstjórn í Reykjavík frá 1872 er ekki gert ráð fyrir listakosningu. Árið 1903 voru kosnir sjö bæjarfulltrúar í Reykjavík.2) Á kjörskrá voru 884. Nefndu kjósendur í heyranda hljóði þá sem þeir kusu. Það er fyrst í lögum sem öðluðust gildi 1904, um leynilegar kosningar og hlutfallskosningar til bæjarstjórna, að kveðið er á um listakosningu. Þar er gert ráð fyrir að sami maður geti staðið á fleiri en einum lista með þessu ákvæði:3) "... nú er nafn á einhverjum lista þegar kosið á öðrum lista, og skal þá strika það út, og taka næsta nafn fyrir neðan."
Þegar kosið var til bæjarstjórnar í Reykjavík árið 1906 voru átta listar boðnir fram, sjö með sex nöfnum og einn með þremur, samtals 45 sæti, en nöfnin voru samt aðeins 12, þar sem flestir voru á fleiri listum. Þrír mannanna voru á sex listum. Þeir voru Jón Magnússon, Sighvatur Bjarnason og Kristján Jónsson, en af þeim náði Kristján einn kjöri. Jón Þorláksson var á fjórum listum og náði kjöri, Magnús Blöndal var á þremur listum og náði kjöri, Ásgeir Sigurðsson var á þremur listum og náði kjöri, Þorsteinn Þorsteinsson var á fjórum listum og náði kjöri, en Jón Þórðarson á fimm listum, Andrés Bjarnason á þremur listum og Þórður Thoroddsen á þremur listum náðu ekki kjöri. Þarna eru menn, sem báru þá eða síðar æðstu embætti, ráðherrar, alþingismenn, landsverkfræðingur, dómstjóri og læknir, en einnig bankastjóri og stöndugir kaupmenn. - Árið 1908 voru kosnir 15 í bæjarstjórn og komu fram 18 listar, en nöfnin eru ekki skráð í kjörbók.
Með lögum árið 1913 breyttist ákvæðið um sama mann á fleiri en einum lista. Varð það þannig:4)Hafi sami maður fengið atkvæði á fleiri en einum lista, sem til greina kemur eftir atkvæðamagni, þá skal leggja hinar lægri atkvæðatölur hans við atkvæðatölu þá, er hann hefir fengið á þeim lista, er hann hefur mest á, og telst sú samanlagða atkvæðatala honum þar að fullu, en nafn hans strikast út af hinum listunum. Þeir, sem hæstar hafa atkvæðatölur, eru kosnir svo margir af hverjum lista, sem honum ber samkvæmt því er áður greinir. Það var samkvæmt þessum lögum sem kosið var á Siglufirði 1919.
Í athugasemdum við lagafrumvarpið 1913 er tilefni þess skýrt og varðar aðaltilefnið ekki þetta mál, en síðan segir:5)Einnig hefur það vakið óánægju, að fulltrúaefni, sem standa á fleiri listum, hafa engin not atkvæða þeirra, sem listarnir fá, nema þeir sjeu settir svo framarlega á einhverjum lista, er fulltrúa á að fá, að þeir hefðu náð kosningu, jafnvel þótt þeir hefðu ekki verið settir jafnframt á aðra lista.
Þessu var vísað frá með svofelldum rökum:6)Það tjáir ekki að láta auka-atkvæði, sem fulltrúaefni kynnu að hafa fengið á listum, sem ekki eiga að fá neinn fulltrúa eftir atkvæðamagni sínu, koma til greina, þegar af þeirri ástæðu, að fulltrúarnir verða að teljast kosnir á þeim lista, sem þeir fá flest atkvæði á, og gæti þá svo farið, að þeir ættu að teljast kosnir á lista, sem engan fulltrúa á að fá, enda gæti það valdið hinum mesta glundroða, ef slíkir aukalistar, sem ekki hafa tiltölulegan atkvæðafjölda við að styðjast, ættu að geta gripið inn í atkvæðagreiðslu hinna kjörflokkanna og ruglað röð þeirra, ef til vill í þeim tilgangi að spilla fyrir kosning fulltrúa, er mikið álit hefði hjá stórum kjörflokki.
Árið 1914 átti að kjósa fimm í bæjarstjórn Reykjavíkur til sex ára. Komu fram sjö kjörlistar, fimm þeirra með fimm nöfnum og tveir með fjórum. Fimm þeirra, sem voru boðnir fram, voru á tveimur listum. Einn þeirra var í þriðja sæti á A-lista, sem fékk 264 atkvæði og tvo fulltrúa kjörna, og í þriðja sæti á C-lista, sem fékk 135 atkvæði og einn mann kjörinn. Atkvæði mannsins á C-lista (56 2/5) voru lögð við atkvæði hans á A-lista (152 1/5) og fékk hann þá samanlagt fleiri atkvæði en annar maður á A-lista og settist í bæjarstjórn.
Árið 1915 átti að kjósa fimm og komu fram fimm listar, þrír með fimm nöfnum og tveir með þremur nöfnum. Tveir menn voru á þremur listum og þrír menn á tveimur. Árið 1920 átti að kjósa sex í bæjarstjórn. Komu fram sex listar, þar sem einn maður var á fjórum listum, fjórir menn á þremur listum og þrír á tveimur listum. Þá voru dregnir til baka þrír listanna með því að allir meðmælendur þeirra nema einn tóku aftur meðmæli sín. Þetta atvik er til marks um litla samræmingu meðal þeirra sem völdu menn á lista.
Árið 1916 var í fyrsta sinn kosið um lista til alþingis. Það bar svo að, að með stjórnskipunarlögum 19. júní 1915 var afnumið konungkjör sex þingmanna efri deildar, en ákveðið að í efri deild skyldu sitja 14 og 26 í neðri deild, 34 kosnir óhlutbundnum kosningum í kjördæmum, en sex hlutbundnum kosningum um landið allt í einu lagi. Í lögunum var tekið fram að sami maður megi ekki vera á fleiri listum og að samþykki þurfi að fylgja framboði.
Landslistakosningarnar fóru fram í ágúst. Kusu aðeins 24,3% af kjörskrá. Þetta er eina tækifærið sem siglfirðingar höfðu haft til að kjósa um lista, áður en þeir kusu bæjarstjórn 1919. Kjördæmakjör fór fram í október. Kusu þá 52,6% af kjörskrá.
Í kjördæmunum var víðast aðeins einn alþingismaður í kjördæmi og hvergi fleiri en tveir. Þetta breyttist árið 1920, þegar þingmönnum Reykjavíkur var fjölgað í fjóra. Þar var þetta ákveðið:7) "Nú hefir maður skriflega leyft nafn sitt á fleirum listum en einum, og skal þá nema nafnið burt af öllum listum." Þetta ákvæði hefur gilt síðan.
Ákvæðið í lögum um sveitarstjórnarkosningar, sem heimilaði að sami maður væri á fleiri en einum lista, var afnumið árið 1936. Í greinargerð með frumvarpinu, sem flutt var fyrst árið 1935 og aftur árið eftir, og í umræðum á þingi, er hvergi vikið að því hvort sami maður megi vera á tveimur listum. Það viðhorf sem þar varð ofan á var að koma á hlutfallskosningum. Þóttu þær hafa þann kost, að þeir, sem kosningu hljóta, væru fulltrúar ábyrgra samtaka. Þetta sjónarmið kom best fram í máli fulltrúa Alþýðuflokksins sem átti aðild að ríkisstjórn og vildi meira að segja lögbjóða listaframboð í samræmi við það, en þingið féllst ekki á það.
Breytingin árið 1930, þegar sett var í lög að kjósa alla sveitarstjórnina til fjögurra ára í stað þess að kjósa hana til sex ára í þrennu lagi, styrkti það sjónarmið að viðhafa beri hlutfallskosningu fulltrúa ábyrgra samtaka í stað þess að kjósa óháða menn.
Heimildir um framboð í bæjarstjórnarkosningum umræddan tíma, frá 1904 til 1934, kjörbækur og staðarblöð, eru misgóðar. Bæjarfélögin voru fyrst fjögur, Reykjavík, Ísafjörður, Akureyri og Seyðisfjörður, en síðar bættust við Hafnarfjörður, Siglufjörður, Norðfjörður og Vestmannaeyjar. Á Ísafirði er ekkert dæmi um sama mann á fleiri listum. Þar eru flokkadrættir greinilegir og oftast aðeins tveir listar í boði.8) Á Seyðisfirði voru kosnir tveir menn í einu árlega frá 1905 til 1919 á tveimur eða þremur listum.9) Var algengt að sami maður væri á tveimur eða fleiri listum og voru þá stundum höfð endaskipti á listunum. Dæmi um það er kosningin 1917. Þá komu fram þrír listar eða eins og segir í kjörbókinni:
A...consul Stefán Th. Jónsson..........102.....verslunarstjóri Benedikt JónassonB...Benedikt verslunarstjóri Jónasson...4.....Stefán Th. consul JónssonC...Karl Finnbogason skólastjóri......121.....Benedikt Jónasson verslunarstjóri
Á 4 C-lista-seðlum var Benedikt útstrikaður og á 6 A-listaseðlum var Benedikt útstrikaður.Kosnir 1. á C-lista Karl með 121 atkvæði og 1. á B-lista Benedikt sem einnig var neðri maður á hinum listunum, með 110 1/2 atkvæði. 1. maður á A-lista fékk 104.
Úr því voru oftast kosnir þrír árlega fram til 1929, og er aðeins eitt dæmi um blöndu af þessu tagi.
Á Akureyri10) voru fáein dæmi um blöndu framan af. Sem dæmi má nefna, að árið 1909, þegar kjósa átti tvo, komu fram þrír listar, A-listi Oddeyrarbúa með Sigtryggi Jóhannessyni kaupmanni og Anton Jónssyni, B-listi, sem félagið Skjaldborg studdi, með Stefáni Stefánssyni og Ottó Tulinius, og C-listi, sem verkamannafélagið studdi, með Kristjáni Sigurðssyni verslunarstjóra og Sigtryggi Jóhannessyni kaupmanni.
Árið 1918 átti enn að kjósa tvo. Þá eru þrír listar boðnir fram, tveir þeirra studdir af mönnum með yfirlýstan ágreining um mál, en engu að síður er sami maður á báðum listunum. Á A-lista voru Sveinn Sigurjónsson (kallaður kaupmaður í kjörbókinni 1919) og Erlingur Friðjónsson trésmiður, á B-lista Erlingur Friðjónsson trésmiður og Júlíus Árnason og á C-lista Stefán Stefánsson og Sigtryggur Jónsson. Fyrstu listarnir tveir voru Verkamannafélagslistar. "A-listann munu þeir fjelagsmenn Verkamannafjelagsins styðja, sem voru mótfallnir því um daginn, að Verkamannafjelag Akureyrar gengi í "Alþýðusamband Íslands" og gerðist þannig landspólitískt, en urðu ofurliði bornir. C-listann styðja auðvitað menn utan Verkamannafjelagsins."
Bæði 1930 og 1934, þegar fullskipuð bæjarstjórn var kosin af flokkslistum, voru brögð í tafli. Var það ma. leikið að setja á eiginn lista mann, sem var kominn fram á öðrum lista, svo ofarlega, að hann hefði þannig fengið svo mörg atkvæði umfram félaga sinn ofar á listanum, að hann hefði fellt hann, en ekki svo ofarlega að hann hefði náð kosningu á seinni listanum. Þannig hefðu andstæðingarnir ráðið því hverjir náðu kjöri á listanum. Við þessu var brugðist með því að afturkalla listann og leggja fram nýjan með tvífarann neðar. Ekki áttu allir listarnir upptök að slíkum leik, en allir drógust inn í hann fyrra eða síðara árið.
Heimildir um Hafnarfjörð, sem varð bæjarfélag 1908, eru fyrst til 1930.11) Er þar ekki dæmi um blandaðan lista. Í Vestmannaeyjum var bæjarstjórn fyrst kosin 1919. Þar voru listar nokkuð blandaðir fyrstu fimm árin. Hafði það áhrif á niðurstöðu í eitt skipti, en síðan voru blandaðir listar aðeins einu sinni.12) Á Norðfirði var fyrst kosin bæjarstjórn 1929. Þar voru aldrei blandaðir listar.13)
Það kom varla fyrir, að fólk á hreinum kvennalista eða lista jafnaðarmanna, sem ýmis dæmi voru um, væri á blönduðum lista, nema þar sem andstæðingar höfðu endaskipti á fámennum lista, enda greindi það sig frá öðrum listum með skilgreindum hugmyndagrundvelli í andstöðu við hina listana sem kalla má lista góðborgara og ekki áttu skilgreindan hugmyndagrundvöll.
Heimildir
Kjörbækur voru kannaðar í vörslu bæjarfélaga, í Reykjavík kjörstjórnarskjöl í skjalasafni borgarinnar. Staðarblöð eru samtímaheimildir.
1 Kjörbók er heimild um kosningar 1919-34.
2 Kjörstjórnarskjöl (kjörbók) eru heimild um kosningar 1903-1934.
3 Stjórnartíðindi 1903 A, bls. 228.
4 Stjórnartíðindi 1913 A, bls. 25.
5 Alþingistíðindi 1913 A, bls. 101.
6 Sama, bls. 104.
7 Stjórnartíðindi 1920 A, bls. 25.
8 Kjörbók.
9 Blaðið Austri 1905-17. Kjörbók 1917-34.
10 Blöðin Norðurland 1904-17, Norðri 1909, Íslendingur 1916-34 og Dagur 1921-34. - Samkvæmt blöðunum eru nöfn með eða án starfsheitis.
11 Kjörbók.
12 Haraldur Guðnason, Við Ægisdyr. Saga Vestmannaeyjabæjar (án útg.st. 1982). Blaðið Skeggi 1920. Kjörstjórnarskjöl 1921 og 1925. Blaðið Víðir 1930 og 1934.
13 Bjarni Þórðarson, Sveitarstjórnarkosningar á Nesi í Norðfirði 1913-1978 og sveitarstjórnarmannatal (án útg.st. 1979).
Nýrri sögu 8 (1996): 91-95