Símstöðvar hafa ætíð heitið nafni staðar síns. Hefur öllum verið vitanlegt, að undir stöðina gæti nágrennið einnig fallið. Er nærtækt að benda á símstöðina í Reykjavík, sem þjónar m. a. Seltjarnarnesi og Kópavogi. Fyrir nokkrum árum hvarf Borgarnes úr símaskránni, en í staðinn kom Borgarbyggð. Þá var fjallað um það í Útvarpinu, að þetta væri villandi, enda næði símstöðin í Borgarnesi miklu víðar en sveitarfélagið Borgarbyggð, sem varð til við sameiningu nokkurra hreppa, og til óþurftar fyrir Borgarnes, sem þurrkaðist út úr símaskránni. Borgarnes komst aftur á sinn stað í henni eftir þessa ábendingu.
Efnisyfirlit er fremst í símaskránni, en ég held, að yfirleitt leiti menn þannig í henni, að þeir finna fyrst landshlutann og feta sig svo að símstöðinni. Þannig fór ég að, þegar ég fletti upp á Selfossi í nýju símaskránni. Ég fann Suðurland og rakst á Vestmannaeyjar, en næst á undan þeim var þá Laugarvatn. Selfoss reyndist vera 40 síðum framar, undir Árborg, sem er nafn nýs sveitarfélags í Flóanum. Þetta er ruglandi og líka rangt, því að símstöðin á Selfossi hefur talsvert annað umdæmi en sveitarfélagið Árborg. Stokkseyri er í sveitarfélaginu Árborg og lenda Flúðir á eftir Stokkseyri fyrir vikið.
Eitthvað líkt virðist víðar hafa gengið yfir, þar sem sveitarfélög hafa sameinast og hlotið nýtt nafn. Þannig er Sauðárkrókur ekki til sem símstöð né heldur Keflavík. Snæfellsbær er aðalyfirskrift símstöðvanna á Hellissandi og í Ólafsvík; þær koma að vísu í stafrófsröð stöðvarnafna landshlutans. Á Vestfjörðum kemur Bíldudalur á eftir Tálknafirði með aðalyfirskriftina Vesturbyggð, en ekki á undan Bolungarvík samkvæmt stafrófsröð símstöðvarnafna. Patreksfjörður kemur ekki á eftir Króksfjarðarnesi, heldur á eftir Bíldudal. Yfirskriftin Ísafjarðarbær yfir nöfnum símstöðvanna á Flateyri, Ísafirði, Suðureyri og Þingeyri er óþörf, enda koma þær í stafrófsröð óháð henni.
Yfirskriftin Dalvíkurbyggð er notuð fyrir símstöðina á Dalvík. Líkt því væri að hafa yfirskriftina Ólafsfjarðarbær, en hún er einfaldlega Ólafsfjörður. Þó að það komi ekki þessu máli beint við, má geta þess, að símstöðin Reykjahlíð er horfin úr símaskránni, en komin símstöðin Mývatn, en það er líka nafnið á veðurathugunarstöðinni í Neslöndum þar í sveit. Á Mývatnssíðu símaskrárinnar er ekki uppdráttur af Mývatni, heldur af þorpinu í Reykjahlíð, og þar er stöðin merkt.
Á Austurlandi reynist Eskifjörður ekki standa á milli Egilsstaða og Fáskrúðsfjarðar, heldur á eftir Fáskrúðsfirði, með aðalyfirskriftina Fjarðabyggð. Norðfjörður stendur ekki á milli Mjóafjarðar og Seyðisfjarðar, heldur á eftir Eskifirði, og Reyðarfjörður stendur ekki á eftir Mjóafirði, heldur á undan Hornafirði, en efst á síðunum, þar sem stendur nafn stöðvar, stendur ekki Hornafjörður, heldur Höfn. Höfn er gott nafn og til að nota í yfirskriftinni.
Í Reykjavíkurskránni stendur hvarvetna efst á síðu Reykjavík og nágrenni, en á síðum annarra símstöðva er nágrenni ekki bætt við nafn stöðvarinnar, enda má það vera vitanlegt, að til að mynda Akureyrarskráin nær yfir Akureyri og nágrenni.
Málið er, eins og nú má vera skýrt, að sama örnefni getur komið fram í nafni sveitarfélags og nafni símstöðvar, án þess að nafn sveitarfélagsins hafi orðið heiti símstöðvarinnar, og að umdæmi símstöðvar er gjarna víðara en staðurinn, sem hún er á og fær nafn af.
Morgunblaðinu 2. júní 1999 (Bréf til blaðsins)