Hvar skyldi vera þróttmestur búskapur í Austur-Húnavatnssýslu? Mönnum koma líklega fyrst í hug víðlendir dalir og flatlendar sveitir í miðju héraði, svo sem Vatnsdalur, Svínadalur, Þing og Ásar. En svo er ekki. Það er nyrst við hafið, á Skaga, fyrir utan Skagaströnd.
Þar hét til skamms tíma Skagahreppur, en hann var sameinaður Vindhælishreppi, sem var fyrir innan Skagaströnd, og heitir það allt Skagabyggð. Ég hafði áður sem gestur nokkur kynni af lífi þar, en nú orðið hef ég aðeins veður af því.
Auk þess að stunduð er þróttmikil búfjárrækt og nýting hlunninda hafa menn verið vakandi fyrir því, að fólkið, ekki síst barnafólkið, eigi samfélags að njóta þrátt fyrir fásinnið við ysta haf. Samfélag er eins og vöðvi; vöðvi eflist við notkun.
Íbúar Skagabyggðar eru taldir um 90. Skagabyggð og Skagaströnd, með um 450 íbúa, vilja fá að ráða sinni tilveru eins og sveitarfélög, sem fjölmennari eru, en andmæla lögum, sem skylda til sameiningar.
Þegar litið er á sveitarstjórnarlög, sést, að komin eru skýr ákvæði um samstarf sveitarfélaga. Í ljósi þessara skýru ákvæða og reynslu, er mér ekki ljóst, hvað vakir fyrir mönnum að leggja til lög, sem knýja til sameiningar. Markmið sveitarstjórnarlaga ætti að vera sú skipan, sem leiðir til farsæls mannlífs. Svo að ég taki dæmi af Suðurlandi, þar sem ég hef lengi fylgst með. Ég sá í blaðaviðtali í fyrra, að talsmaður Hrunamannahrepps kvaðst við sameiningu vænta meira afls við ríkisvaldið. Til hvers á að nota það afl? Ég skil ekki, að menn búi til betra mannlíf en nú er í Hrunamannahreppi og hefur verið lengi.
Bændablaðinu, 24. október 2019