Það er tilgangurinn með hlutfallskosningu fulltrúa, að sjónarmið kjósenda njóti hlutfallslegs styrks meðal fulltrúanna. Ef 40% kjós-enda hafa sjónarmið, sem móta flokksstefnuskrána L og greiða L–frambjóðendum atkvæði, eiga þeir að verða 40% fulltrúa. Það þarf samt ekki að að leiða til þess, að sjónarmið þeirra fái slíkan hlutfallslegan styrk. Staðan eftir kosningu getur orðið sú, að þau 60%, sem kusu annað, sameinist um að útiloka L–liðið frá áhrifum. Sumir kunna að hugga sig við, að það breytist við næstu kosningu.
Við sjóðval getur enginn hópur ríkt til lengdar. Ef einhverjir ætluðu sér það, mundu þeir smám saman rýra atkvæðasjóð sinn, en þeir, sem þeir ríkja yfir, halda atkvæðum sínum og hljóta því að komast í aðstöðu til að ákveða niðurstöðu atkvæðagreiðslna. Það þarf ekki reynslu til að álykta svo. Þar að auki, og það skiptir meira máli, hefur reynslan sýnt það, þótt hún sé ekki víðtæk, að fylkingar haldast ekki við sjóðval. Ef tvö andstæð sjónarmið koma fram í upphafi máls, munu báðar fylkingar telja sér henta að móta fleiri afbrigði málsins, afbrigði, sem fjarlægjast smám saman það, sem menn kjósa helst. Það gera menn í von um, þótt andstæðingarnir séu kappsfullir, að þeir bjóði til vara atkvæði fyrir afbrigði, sem þeim falla ekki fullkomlega, og bjóði sjálfir reyting af atkvæðum fyrir þau. Atkvæðagreiðsluaðferðin hvetur fólk til að móta fleiri afbrigði og gera tillögu um þau.
Sjóðval er hlutfallslegt val. Það leiðir nefnilega til þess, að kjósendur fái að njóta réttar síns hlutfallslega, þegar til lengdar lætur. Þegar sjóðval hefur skotið rótum, breytir það gildi aðferða við hlutfallskosningu til að tryggja hlutfallsleg áhrif. Við sjóðval er hægurinn á að skilja á milli kjörs fulltrúa og úthlutunar atkvæða í sjóð þeirra. Þegar sjóðval tíðkast, verður tilgangurinn með kjöri fulltrúa að tryggja, að sjónarmið, sem njóta viss stuðnings, komi fram og geti mótað útfærslu mála. Til að það gerist, skiptir ekki miklu máli, hvort fjórir eða fimm eru á fundi til að halda fram sama máli, ólíkt því, sem er við ríkjandi aðstæður, að það getur ráðið því, hverjir mynda meirihluta, hvort flokkur á fjóra eða fimm fulltrúa og hverjir eru í áhrifalausum minnihlutanum.
Reynslan ein getur sýnt, hversu oft muni þykja ástæða til að ljúka máli með sjóðvali. Eins og nú háttar, er það svo í býsna mörgum málum, að atkvæðagreiðsla er til að staðfesta niðurstöðu af samkomulagi. Þegar menn vita, að bera má mál undir sjóðsatkvæði, breytast ástæður til samkomulagsþreifinga, og eðlilegra verður að móta fleiri afbrigði.
Til þess að tryggja minnihluta fulltrúanna, að mál verði ekki útilokað frá sjóðvali, má setja ákvæði um það, hversu marga (eða fáa) fulltrúa þurfi til að ákveða, að mál verði borið undir sjóðsatkvæði.
Þá er það sérstakt mál, hverjir fara með sjóðsatkvæði, hvort það til að mynda eru einungis fulltrúarnir, sem fá þá atkvæði í sjóði í hlutfalli við kjörfylgi, eða aðrir.
Í þessu sambandi varðar nokkru, hvort niðurstaða sjóðvals er bindandi. Ef niðurstaðan er ekki bindandi, verða þeir, sem ákveða málið, að rökstyðja afstöðu sína með tilliti til niðurstöðunnar, hvort sem þeir fylgja henni eða ekki.