Árið 1900 birtist fyrirlestur Páls Briems amtmanns um kosningar. Hann byggði mál sitt á aldarfjórðungs reynslu íslendinga við kosningu löggjafarþings og hraðri útbreiðslu kosningarréttar í Vestur–Evrópu og vísaði til lærðra manna (Hare, Andræ, D‘Hondt og Cassel). Sá, sem hefði þekkt til raðvals og sjóðvals, hefði getað kynnt honum og áheyrendum hans ýmislegt til frekari umhugsunar.
Páll taldi óheppilegt að skipta landinu í kjördæmi, í fyrsta lagi vegna þess, að það bæli skoðun kjósenda, sem vilja hafa víðari sýn en kjördæmið, það er að segja sýn til landsins alls, og í öðru lagi, þar sem um var að ræða einmenningskjördæmi, bældi það minnihlutasjónarmið á þann hátt, að sjónarmið, sem margir aðhylltust, en væru samt í minnihluta í öllum kjördæmum, kynnu að verða án fulltrúa á þingi.
Benda hefði mátt áheyrendum á, að með raðvali fulltrúaþings megi bjóða fram heil gengi fulltrúa, sem fullnægi misjafnlega vel þröngum og víðum sjónarmiðum, og í gengjunum geti hinir ýmsu minnihlutar átt sína menn (sjá grein II.C.2, Raðval stjórnar).
Páll taldi brýnt, að fulltrúafundur væri skipaður í hlutfalli við skiptingu kjósenda, með hlutfallskjöri. Fundarmenn hefðu getað fengið að vita, að meðal fulltrúa, sem taka þátt í sjóðvali, verða áhrif á niðurstöðu mála hlutfallsleg til lengdar, sjá greinina hér á undan.
Fyrir hundrað árum hefði það líklega mælt gegn raðvali og sjóðvali, að stigaútreikningur við raðval og atkvæðareikningur við sjóðval yrði ærið fyrirhafnarsamur. Nú gegnir öðru máli, þegar tölvur, sem auðvelda slíkan reikning, eru almenningseign.