Það er tilgangurinn með hlutfallskosningu fulltrúa, að sjónarmið kjósenda njóti hlutfallslegs styrks meðal fulltrúanna. Ef 40% kjósenda hafa sjónarmið, sem móta flokksstefnuskrána L og greiða L-frambjóðendum atkvæði, eiga þeir að verða 40% fulltrúa. Það þarf samt ekki að leiða til þess, að sjónarmið þeirra fái slíkan hlutfallslegan styrk. Staðan eftir kosningu getur orðið sú, að þau 60%, sem kusu annað, sameinist um að útiloka L-liðið frá áhrifum. Sumir kunna að hugga sig við, að það breytist við næstu kosningu.

Í Lýðræði með raðvali og sjóðvali er fjallað um hlutfallsleg tækifæri til áhrifa í kaflanum Sjóðval er hlutfallslegt val. Þá er fjallað um hlutfallskosningu, oftast í sambandi við raðval, á ýmsum stöðum í bókinni, sjá atriðaskrá. Í kaflanum Horft um öxl er fjallað um það, hvernig raðval og sjóðval varða röksemdir fyrir ýmiss konar skipan kjördæma (einmenningskjördæmi, stærri kjördæmi, landið allt eitt kjördæmi).