Hugsum okkur félag, sem á að kjósa tvo fulltrúa. Undanfarið hafa tveir gamalreyndir verið fulltrúar félagsins. Nú finnst öllum endurnýjun brýn, en samt skuli annar þeirra halda áfram. Skoðanir eru skiptar, hvor það eigi að vera. Fimm nýir koma til greina. Ef greidd eru atkvæði með því, að fólk skrifar tvö nöfn á venjulegan hátt og allir skrifa einn gamlan og einn nýjan, getur niðurstaðan orðið sú, að báðir öldungarnir verði kosnir, af því að at-kvæðin dreifast meira á þá nýju, og þó vildi það enginn.

Með raðvali má tryggja endurnýjun í samræmi við greinda skoðun félagsmanna, þ.e.a.s. að kosinn verði nýliði ásamt reyndum fulltrúa. Það gerist með því að kjósa um tvenndir, þar sem annar er gamall (G) og hinn nýr (N). Í þessu dæmi með 2 gamla og fimm nýja geta tvenndirnar orðið 10: N1G1, N1G2, N2G1, N2G2, N3G1, N3G2, N4G1, N4G2, N5G1 og N5G2. Kjósendur matsraða tvenndunum. Tvennd, sem kjósandi raðar efst, fær 9 stig (hún er að dómi hans betri en 9 tvenndir), næstefsta tvenndin fær 8 stig og svo framvegis.

Tvenndir geta vel orðið margar. Um enn fleira er að velja, ef kjósa á fleiri en tvo. Það er framkvæmdaratriði að takmarka fjölda kosta með því til að mynda að setja skilyrði fyrir því, að kostur (tvennd, þrenning eða fjölmennara gengi) standi til boða.

Það, sem hér hefur verið bent á vegna kosningar gamals og nýs, á einnig við, ef tryggja skal við kosningu tveggja, að annar verði karlmaður og hinn kvenmaður.