Þegar ég var að læra til rannsókna fyrir réttum aldarfjórðungi, valdi ég mér að æfingarverkefni samvinnu nágranna við búskap. Slík mál voru þá mjög til umræðu á Norðurlöndum. Vel virtur íslenskur embættismaður sagði þá við mig, að ég yrði að fara til Ísraels og kynna mér skipulag búskapar þar og sérstaklega samyrkjubú og samvinnuþorp. Ég hafði ekki mikla trú á, að þar væri að finna það, sem hagnýta mætti hér á landi, en mér fannst samt freistandi að fara í slíka ævintýraför, sem hún hlyti að verða, og var auðvelt að koma henni á með fyrirgreiðslu stjórnvalda í Ísrael.

Þar var ég vetrarlangt og kynntist tveimur þjóðum. Önnur þjóðin voru þeir gyðingar, sem stjórnuðu landinu og mest bar á í vísindastofnunum og í þjóðlífinu yfirleitt. Hin þjóðin voru arabar í bæjum og þorpum Galíleu. Margir þeirra voru kristnir. Þeir voru eins og hersetnir, en áttu leynileg kynni við frændur sína handan landamæranna í Jórdaníu, sem höfðu hrakist þangað, þegar Ísraelsríki var stofnað.

Þarna var líka þriðja þjóðin, ef svo má segja, en henni kynntist ég ekki. Það voru gyðingar, sem átt höfðu heima í arabalöndum, þar til Ísraelsríki var stofnað, og fluttust hundruðum þúsunda saman til fyrirheitna landsins, flestir frá Írak, Jemen og Norður-Afríku. Sögðu Ísraelsmenn, að yfirvöld þessara arabaríkja hefðu hvatt mjög til þess, að þeir flyttust til Ísraels.

Gyðingar frá arabalöndunum voru alls ekki samstiga gyðingum frá Evrópulöndum, flestum frá Austur-Evrópu, og enn síður gyðingum, sem komið höfðu úr góðum efnum í Norður-Ameríku. Þeir voru fráhverfir hinum ráðandi flokki jafnaðarmanna undir forystu Davíðs ben-Gúríons. Síst var þá að finna á samyrkjubúum. Þeir juku mjög kyn sitt, og sáu Evrópugyðingar fram á að komast fljótlega í minnihluta.

Síðan þetta var, hef ég ekki fylgst meira með málum í Ísrael en hver annar útvarps- og blaðalesandi hér á landi. Þegar ég heyri um þá hörku, sem orðin er á milli araba og gyðinga í landinu, verður mér hugsað til gyðinganna frá arabalöndunum. Nú hljóta þeir að vera meirihluti þegna Ísraelsríkis. Ég hef aldrei heyrt þess getið, að þeir ættu kost á að snúa aftur til síns fyrra lands, og því síður sá fjöldi, sem er fæddur í Ísrael af gyðingum frá arabalöndum. Þetta fólk hefur alist upp við stöðugar hótanir arabaríkjanna um að afmá Ísraelsríki. Viðbúið er, að fólk í slíkri aðstöðu fylgi gjarna þeim leiðtogum, sem óbilgjarnastir eru við Palestínumenn, mönnum eins og Begin og Shamir. Óbreyttir Ísraelsmenn ættaðir úr Austur-Evrópu eru öðru vísi settir. Þeir eru betur menntaðir á heimsvísu og eiga flestir frændgarð í Vesturheimi, þar sem gyðingar eru nú fjölmennastir, og Bandaríkin hafa verið þeim mörgum opið land.

Maður hlýtur að finna til með Palestínumönnum. Landið var tekið af þeim. Fram hjá því verður ekki gengið. Ísraelsríki var stofnað um það leyti, sem kirjálar voru hraktir úr löndum sínum til Finnlands og Sovétríkin eignuðu sér land þeirra, og milljónir þjóðverja voru hraktar vestur þaðan, sem nú eru lönd Sovétríkjanna og Póllands, þangað sem stofnað hafði verið ríki Vestur-Þýskalands. Alllengi kvað mikið að þessum flóttamönnum í Vestur-Þýskalandi. Þeir sættu sig ekki við missi lands síns, en nú heyrist lítið frá þeim.

Í Finnlandi og Vestur-Þýskalandi voru flóttamennirnir í umhverfi, sem var þeim ekki framandi. Þjóðtungurnar voru sameiginlegar (kirjálska er að vísu mállýska), og þeir fengu fljótt full þegnréttindi í nýja landinu. Vesturveldin sættu sig við hin nýju landamæri Austur-Evrópu og við hrakning kirjála og þjóðverja að austan, og reynt var að gera flóttamönnunum aðlögunina sem bærilegasta.

Öðru vísi var farið að í Miðjarðarhafsbotnum. Þá fjóra áratugi, sem Ísraelsríki hefur staðið, hafa arabaríkin sameinast um að neita samskiptum við það, en um leið hafa þau verið samtaka um að láta Palestínumenn ekki fá almenn þegnréttindi, jafnvel þótt þeir hafi fengið vinnu utan flóttamannabúðanna. Þessa mætti minnast, þegar fréttir berast af átökum í Ísrael.

Það þarf ekki að vera af rótgrónum fjandskap við gyðinga, að ýmsum þyki þau rök, sem stofnun Ísraelsríkis var studd, ekki gild. En hvað sem því líður, eru nú í Ísraelsríki milljónir gyðinga, sem engu réðu um stofnun ríkisins, því að þeir eru yngri en svo, og mikill hluti þeirra, sennilega meirihluti, ættaður úr ríkjum araba og eiga ekki afturkvæmt.

Lesbók Morgunblaðsins 25. júní 1988