Á atkvæðagreiðslu og kosningu er margvíslegt fyrirkomulag. Fyrirkomulagið getur ráðið niðurstöðu. Eðlilegt þykir, að meirihlutinn ráði. Í einfaldri kosningu um þrjá frambjóðendur kann samt að fara svo, að enginn njóti stuðnings meirihlutans. Þá kunna reglurnar að vera þær, að sá, sem fær flest atkvæði, sé kjörinn. Samt má vera, ef frambjóðandinn A fær 45% atkvæða, frambjóðandinn B 30% og frambjóðandinn C 25%, að meirihlutinn vilji A síst. Sums staðar er kosið aftur, ef enginn fær 50%, um þá tvo, sem fengu mest fylgi. En er það sanngjörn regla?

Í dæminu að framan hefði þannig átt að kjósa um A og B, en C hefði orðið úr leik. En ef allir, sem studdu A, tóku C framyfir B, hefði C unnið í kosningu um þá tvo. Sömuleiðis, ef allir, sem studdu B, tóku C framyfir A, hefði C unnið, ef kosið hefði verið um A og C. Þannig hefði getað farið, að C hefði „átt“ að vinna, en reglurnar hefðu dæmt C úr leik.

Því er haldið fram, að með kosningu í tveimur umferðum vinnist það, að meirihluti standi á bak við þann, sem sigrar. Fjórir buðu sig fram við kjör forseta Íslands 1980. Forseti var kjörinn með þriðjungi atkvæða. Úrslitin sögðu að sjálfsögðu ekki, að tveir þriðju kjósenda væru á móti forsetanum. Kosningin sýndi hver var fremstur—meðal jafningja hefur ef til vill mátt segja. Er nokkuð að því? Ef kosning er endurtekin, kann það hins vegar að skerpa andstöðu við þann, sem vinnur, og leiða til þess, að nærri því helmingur kjósenda hafi lýst andstöðu við forsetann.

Þegar kosið er í tveimur umferðum, getur farið svo í fyrstu umferð, að kjósendur kjósi ekki þann, sem þeim finnst mest varið í, heldur þann, sem þeir vilja tryggja, að komist í aðra umferð. Þannig fá menn ekki að tjá sig frjálst. Reyndar er það svo, þegar kosið er í einni umferð, að oft þykir ástæða til þess að vara fólk við því að tjá með atkvæði sínu, hvern frambjóðendanna það kýs helst, og gripið til þeirrar röksemdar fyrir stuðningi við annan frambjóðanda að vara við því að kasta atkvæði á vonlausa frambjóðendur.

Til undirbúnings kosningu forseta Íslands 1996 fór hópur kvenna haustið áður að leita að vænlegum kvenmanni sem frambjóðanda. Til þess að tryggja kjör kvenmanns skyldi forðast, að fleiri en einn kvenmaður byði sig fram. Sama hefði átt við, ef einhverjir hefðu viljað tryggja, að karlmaður yrði kosinn. Þeir hefðu talið það best tryggt með því, að aðeins einn karlmaður væri í kjöri. Þetta sýnir, að núgildandi fyrirkomulag kann að leiða til þess, að þröngur hópur manna getur takmarkað tækifæri almennings til þess að ráða kosningu, áður en fólk gengur að kjörborðinu. Við raðval spillir það ekki því markmiði, að kvenmaður nái kjöri, að tveir eða þrír kvenmenn bjóði sig fram, og sömuleiðis mundi það ekki spilla fyrir því, að karlmaður næði kjöri, að tveir eða þrír karlmenn byðu sig fram. Kjósandi, sem vill, að kvenmaður nái kjöri, raðar kvenmönnunum á undan karlmönnunum.

Þetta eru hugsuð dæmi um raðval. Lítum á raunveruleg dæmi. Þar var raðval ekki viðhaft, en samt eru þau til skilningsauka.

<< Til baka