Fjórir buðu sig fram, þegar forseti Íslands var kosinn árið 1996. Ólafur R. Grímsson var kosinn með 41,4% gildra atkvæða, en Ástþór Magnússon fékk 2,7%, Guðrún Agnarsdóttir 26,4% og Pétur Hafstein 29,5%. Nokkrum dögum fyrir kjördag könnuðu Íslenskar markaðsrannsóknir—Gallup hug kjósenda. Athugað var, hvern líklegast var, að fólk mundi kjósa. Af 606 atkvæðum fékk Ástþór 19 (3,1%), Guðrún 174 (28,7%), Ólafur 229 (37,8%) og Pétur 184 (30,4%). Ennfremur var athugað, hvern fólk mæti sennilega næstan. Með því er ekki vitað jafnmikið og við raðval, þegar fólki býðst að raða öllum, en athugunin var samt notuð til að áætla, hvernig raðval hefði farið. Voru þá þeir, sem ekki var skipað í fyrsta og annað sæti, látnir skipa saman þriðja og fjórða sæti við stigareikninginn, og þegar aðeins var svarað um fyrsta sæti, fengu hinir frambjóðendurnir saman annað, þriðja og fjórða sæti. Þannig urðu stig Ástþórs 458, Guðrúnar 1 188,5, Ólafs 1 038 og Péturs 951,5. Guðrún fékk flest stig, vegna þess að þeir, sem kusu Ólaf eða Pétur helst, töldu yfirleitt Guðrúnu koma næst til greina, en þeir, sem kusu Guðrúnu helst, skiptu sér nokkuð jafnt að telja Ólaf og Pétur koma næst til greina. Ef kosið hefði verið til úrslita í annarri umferð milli þeirra tveggja, sem flestir kusu helst, hefði það orðið milli Ólafs og Péturs og Ólafur unnið.

<< Til baka