Fjárhagsáætlun félagsskapar, svo sem hreppa og ríkis, er venjulegt mál, en gnæfir gjarna yfir önnur venjuleg mál. Í fljótu bragði gæti því virst sem ekki eigi við að tengja saman með sjóðvali svo misstór mál, þar sem hlutföll atkvæða yrðu mjög ólík. Athugum það nánar.

Við gerð fjárhagsáætlunar togast stöðugt á tilfinningar fyrir álögum á fólk og fyrirtæki vegna tekjuöflunar og fyrir fullnægingu þarfa með útgjöldum. Þá er um leið togstreita innbyrðis vegna tekjustofna sem og milli ólíkra þátta útgjalda. Reyndar er sjóðval líka stöðug togstreita. Hér verður því lýst, hvernig gerð fjárhagsáætlunar getur farið fram með sjóðvali:

  1. Fjárhagsnefnd mótar hugmynd um fjárhagsáætlun.
  2. Fjárhagsnefnd kynnir hugmyndina þeim, sem fara með sjóðsatkvæði í málinu.
  3. Þátttakendur fá tækifæri til að gera tillögur til breytingar.
  4. Þeir fá til þess ákveðinn frest, áður en sjóðvalið hefst.
  5. Að frestinum liðnum eru fram komnar tillögur kynntar.
  6. Fjárhagsnefnd velur fyrstu breytingartillöguna til að bera undir sjóðsatkvæði og bætir fleiri afbrigðum við málið, ef ástæða þykir til.
  7. Breytingartillögur mega halda áfram að berast, eftir að sjóðval hefst.
  8. Fjárhagsnefnd ber breytingartillögurnar undir sjóðsatkvæði, hverja á fætur annarri. Hún getur gert eitt mál úr tveimur eða fleiri tillögum, sem verða þá bornar upp í einu.
  9. Taka má mál upp aftur, ef forsendur þess þykja hafa breyst. Atkvæði, sem fórnað var fyrir málið, ganga þá til baka til þeirra, sem hlut áttu að.

Fyrsta atkvæðagreiðslan gæti verið um fjögur afbrigði: afbrigðið A, sem var fram komin breytingartillaga, afbrigðið B, að engu verði breytt í þessu efni, og afbrigðin C og D, sem fjárhagsnefnd bætir við. Síðan eru breytingartillögurnar bornar upp hver á fætur annarri. Á meðan berast fleiri tillögur, og eru þær kynntar þátttakendum. Svo kann að fara, þegar nokkrar tillögur hafa verið samþykktar, að einhverjum þyki öðru vísi horfa með fyrsta málið, sem borið var undir atkvæði. Hugsum okkur, að þar hafi aukið fé verið fært til einhverrar starfsemi, en með þeim breytingartillögum, sem síðar voru samþykktar, horfir það öðru vísi við. Þá er réttmætt, að þeir, sem áttu þátt í samþykkt breytingarinnar og misstu þess vegna atkvæði, fái þau aftur í sjóð sinn.

Með þessu móti verður gerð fjárhagsáætlunar röð af stórum og smáum málum, en alltaf gefst færi á að líta á málið í heild, þegar tekin er afstaða til einstakra tillagna.

<< Til baka