Það voru nokkur tíðindi, þegar sjómenn bundust samtökum um að leggja skipum og neyða þannig Alþingi til að afnema sjóðakerfi sjávarútvegsins með, að mönnum skilst, einu pennastriki. Alþingi hefur lengi átt við að glíma að tryggja afkomu sjávarútvegsins í heild og einstakra greina hans og fyrirtækja,. og hefur verið lögð mikil vinna í að koma á þeirri skipan, sem gildandi er. Til þess að átta mig á þeim málum hafði ég samið greinagerð um þau efni og hafði hugsað mér að senda hana Ægi til birtingar við tækifæri. Úr því sem komið er, finnst mér liggja á að birta yfirlit um málið, enda hefur það aldrei verið gert af öðrum.

Ætíð hafa verið miklar sveiflur á afkomu sjávarútvegsins. Því hefur valdið misjafn afli, sjótjón og beinir skipsskaðar og verðsveiflur á afurðum. Frá fornu fari hafa menn ráðið sig í skiprúm upp á aflahlut. Slíkt fyrirkomulag dreifði aflabresti á fleiri en útvegsbóndann. Áhætta dreifðist einnig eftir öðrum samböndum, sem menn bjuggu við, eða menn hertu sultarólina, en margir studdust við annan búskap en sjávarbúskap. Þegar tækjakostur útgerðarinnar jókst og allur rekstur varð fjármagnaður, varð áhættan meiri. Að því leyti, sem útgerðin var fjármögnuð með lánsfé, varðaði það lánveitendur, að afkoma hennar væri svo trygg að hún gæti staðið við skuldbindingar sínar. Það mátti sjá til þess að nokkru leyti með sjóvátryggingum. Lög um bátaábyrgðarfélög voru sett 1938, og mæltu þau fyrir um, að allir minni bátar væru vátryggðir, en nokkur misbrestur hafði verið á því.

Um 1935 fóru sjómenn að semja um kauptryggingu við útvegsmenn. Jókst þannig áhætta útgerðarinnar af aflabresti. Á stríðsárunum og eftir þau varð vaxandi viðfangsefni stjórnvalda að bæta sjávarútveginum aflabrest og verðfall eða útgjaldaaukningu. Var það ekki síst fyrir það, að þá komst á sú regla, að kjarasamningar bundu útgjöld við framfærslukostnað almennings með kaupgjaldsvísitölu og tóku seint og lítið tillit til framfærslugetu útvegsins, en þeim fækkaði jafnt og þétt, sem báru beina ábyrgð á viðgangi einstakra útgerðarfyrirtækja. Ráðstafanir stjórnvalda voru oft gerðar frá ári til árs, og var gripið til ýmissa bragða og þau nefnd sínum nöfnum. Þrívegis var gerð stórtæk tilraun til að leysa þau mál með almennri hækkun á verði til útflytjenda sjávarafurða (gengislækkun 1950, 1960 og 1968), en eftir á hafa stjórnvöld gripið til tímabundinna ráða. Dæmi um slíkar óreglulegar ráðstafanir eru bátagjaldeyrir, togarastyrkir og útflutningssjóður á árunum milli 1950 og 60, togarastyrkir úr ríkissjóði eða atvinnubótasjóði á árunum milli 1960 og 70, verðuppbót á línufisk á sama tímabili og nú síðast niðurgreiðsla á verði olíu til fiskiskipa. Stöðugar breytingar á niðurgreiðslum á matvæli hafa fylgt afkomusveiflum sjávarútvegsins, enda hafa niðurgreiðslurnar haft áhrif á útgerðar- og fiskverkunarkostnað, þar sem matvælaverðlags gætti verulega í kaupgjaldsvísitölu.

Samfara óreglulegum kreppuráðstöfunum í þágu sjávarútvegsins alls eða einstakra greina hans hafa stjórnvöld mótað stöðugt og fleiri og almennari reglur með löggjöf til að leysa þann vanda, sem áður var mætt með sérstökum aðgerðum. Árið 1949 var lagt á útflutningsgjald til að afla fjár í hlutatryggingarsjóð (síðar aflatryggingarsjóð), en þannig var dregið úr áhættu einstakra báta af aflabresti og útgerðinni auðveldað að standa við skuldbindingar sínar, meðal annars um greiðslu sjómannshlutar. Ekki var hafður sérreikningur fyrir hvert skip, heldur hafður einn sjóður með tveimur deildum, annarri fyrir síldveiðibáta og hinni fyrir aðra báta, síðar (1962) fengu togarar aðild með sérstakan reikning og nú síðast (1971) var hætt að aðgreina síldveiðibáta frá öðrum bátum. Sérstakur sjóður jafnar milli deilda, ef deild þrýtur fé.

Síðan 1956 hefur ríkisvaldið haft milligöngu um greiðslu vátryggingargjalda fiskibáta, fyrsta árið með því, að ríkissjóður tók þau hálf á sig, síðan í nokkur ár með greiðslu úr útflutningssjóði, en tekna til hans var aflað með gjaldi á innflutning. Síðan 1961 hefur starfað Tryggingarsjóður fiskiskipa, og hafa iðgjöld verið greidd úr honum, en sjóðurinn fær tekjur með útflutningsgjaldi á sjávarafurðir. Bátseigendur hafa þó ekki fengið iðgjöldin greidd til fulls úr sjóðnum. Upphaflega var þetta eitt af mörgum ráðum til að bæta hag útgerðarinnar, en það auðveldaði um leið tryggingarfélögunum og einkum bátaábyrgðarfélögunum innheimtu iðgjalda, sem hafði gengið treglega.

Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins var stofnaður 1969 og lagt á útflutningsgjald honum til tekna. Hann kom í framhaldi af kreppuráðstöfunum 1967, þar sem greitt var úr ríkissjóði í sjóð, sem bætti verðfall af frystum fiskafurðum. Verðfalli skal síðan mæta reglulega með greiðslum úr verðjöfnunarsjóði, en honum berast auk útflutningsgjalds nokkrar tekjur, með því að tekinn er kúfurinn af verðhækkunum á útflutningsafurðum.

Það hafa verið venjuleg viðbrögð einstakra útgerðarfyrirtækja, þegar afkoma hefur versnað, að dreifa skuldbindingum á fleiri ár með því að taka fé að láni og fresta endurgreiðslu lána. Lítið eiginfjármagn í útgerð hér á landi stafar vafalaust að nokkru af sveiflum í afkomu og því, að lánastofnanir hafa haft það hlutverk að fleyta útgerðarfyrirtækjum áfram yfir öldudali. Oft hefur verið brugðist þannig við vondri afkoma að dreifa áhættunni til að mynda með þátttöku hrepps- eða bæjarfélags, kaupfélags eða fleiri einstaklinga í útgerðar- og fiskverkunarfyrirtækjum og með því að hafa á sömu hendi veiðar og verkun aflans.

Smám saman hafa þróast almennar reglur um lánsfé til sjávarútvegsins. Bankarnir hafa mótað reglur um rekstrarlán og afurðasölulán með nokkrum afskiptum ríkisvaldsins, en þó án löggjafar. Árið 1962 var farið að afla fjár til stofnlána sjávarútvegsins með útflutningsgjaldi á sjávarafurðir, og gildir það enn. Þannig verða lánin léttbærari fyrir þau fyrirtæki, sem þau bera, en afkoma annarra útgerðarfyrirtækja rýrnar að sama skapi. Stofnfjársjóður fiskiskipa tryggir hins vegar Fiskveiðasjóði vexti og afborgarnir af lánum til fiskiskipa. Hann er ólíkur öðrum sjóðum sjávarútvegsins að því leyti, að tekið er gjald af afla hvers skips og haldinn er sérstakur reikningur fyrir það.

Almennar ráðstafanir til að tryggja afkomu sjávarútvegsins hafa iðulega orðið til upp úr sérstökum kreppuráðstöfunum. Þannig var það með verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, eins og getið var að framan. Vátryggingariðgjöld fiskibáta voru fyrst greidd að hluta árið 1956, og var það eitt af mörgum bjargráðum ríkisins til handa sjávarútveginum í það skiptið. Afkoma reknetabáta var slæm 1957 og 8 og hallarekstur varð á togurum 1961, og varð það til lausnar í bæði skiptin að taka þær greinar með í hluta- og aflatryggingarsjóð. Svokallaður olíusjóður varð fyrst til með sérstöku gjaldi á loðnu, þegar gert var ráð fyrir, að loðnuveiðar mundu gefa góðan arð, en nýtur nú tekna af almennu útflutningsgjaldi.

Það hefur ekki síst verið vandamál æðstu stjórnenda landsins að tryggja afkomu sjávarútvegsins og glíma við þær sveiflur, sem á henni vilja verða. Til viðbótar við framangreindar lausnir er þess að geta, að ýmsir í hópi æðstu stjórnenda hafa talið, að það mundi auðvelda landstjórnina að þessu leyti, ef hér efldust nýjar atvinnugreinar, meðal annars orkufrek stóriðja.

Það sýnist ljóst, að þróun almennra reglna á þessu sviði er aðferð stjórnvalda til að gera úrlausnir á sveiflubundnum vandræðum sjávarútvegsins sem greiðlegastar fyrir sig og alla aðila. Þannig eiga málin að leysast nokkuð sjálfkrafa, en sú fyrirhöfn eyðist, sem er í því fólgin að afla þingmeirihluta fyrir lausnum á vanda takmarkaðra hagsmuna, t.d. einstakra skipa, verstöðva, landsvæða eða bátategunda eða sætta menn við aðrar úrlausnir, sem eru takmarkaðar við sérstakar kringumstæður og skírskota ekki beinlínis til almennra hagsmuna.

Með sjóðakerfi sjávarútvegsins hefur verið komið á formlega skuldbindandi reglum um samábyrgð. Nú er hundur í þjóðinni og hver höndin upp á móti annarri, og er því von, að vilji bresta þau bönd, sem tengdu hagsmuni saman. Þar við bætist, að oft verður reynslan til að kenna mönnum, að þeir hafa misjöfn not af samábyrgðinni, þó að menn hafi ætlað annað í upphafi eða ekki horft í það í þeim rausnarhug, sem vill magnast, þegar snögglega kreppir að hjá öðrum. Þegar frá líður, vill dvína sú rausnarlund, sem leiddi til samstöðu, en menn fara að reikna af meiri smámunasemi fyrir sjálfa sig, hvað fyrirkomulagið kostar og gefur. Trúlega er olíusjóður skýrasta dæmið um það.

Morgunblaðinu 7. nóvember 1975