Í bernsku var sungið yfir mér í eldhúsinu á morgnana:

Hafragrautur einasta yndi mitt er.

Hæ, lýsi, lýsi, hæ, lýsi, lýsi,

rúgbrauð og smér.

Enn lifi ég samkvæmt því. Fyrir nokkrum árum fór ég til erlendrar stórborgar til nokkurra mánaða dvalar. Þangað kominn, fór ég á stúfana að sjá mér fyrir lýsi. Mér var sagt, að þar væri lýsi ekki daglegt brauð og fengist ekki í matvöruverslunum, heldur aðeins í lyfjabúðum, og héti þorsklifrarolía. Í lyfjabúðum reyndist allt lýsi þrotið. Þá hafði nýlega borist út um heiminn sú vitneskja, að blóð inúíta rynni sérlega vel í æðum af lýsisdrykkju. Þar í borg var tekið mark á fréttinni, og þeir, sem höfðu áhyggjur af, að æðar þeirra gætu stíflast, hófu að taka inn lýsi, svo að það þraut í landinu.

Fiskur og fiskfita virðast vera að komast í mikil met til hollustu. Þar er talað um neyslu, sem er minni en algeng er hér á landi. Furðumargir íslendingar virðast fælast fisk í matinn. Í mötuneytum vinnustaða er áberandi færra fólk þá daga, sem vitað er, að fiskur er á borðum, en þegar kjöts er von. Merkilegt er, hvað kjúklingaát er orðið mikið hér á landi og meira en í löndum, sem ekki eiga kost á nýmeti úr sjó.

Í bernsku heyrði ég talað um fjölskyldu, þar sem aldrei var fiskur á borðum, heldur kjöt. Þetta fannst mér furðulegt og raunar siðlaust. Síðar varð húsbóndinn uppvís að því að draga sér fé, og þótti mér, barninu, það táknrænt fyrir afleiðingar slíks heimilishalds.

Áður en kæliskápar urðu algengir á heimilum, neytti þjóðin mikið matar, sem spillst hafði í geymslu. Fyrir 60 árum fór mikils metinn læknir til Vesturheims og kom til baka með þann boðskap, að fiskur og kjöt væri heilsuspillandi. Það var ekki spurningin um vonda geymslu eða einhliða neyslu, nei, einnig nýr fiskur og kjöt taldist heilsuspillandi. Allmargir tóku mark á lækninum og stofnuðu með sér samtök, sem nú eru hálfrar aldar gömul.

Samtökin komu upp heilsuhæli í Hveragerði. Þar hefur soðinn fiskur aldrei verið á borðum í 30 ár, ekki frekar en hvert annað eitur, en hangikjöt mun hafa verið borið fram á jólum. Kallast þetta náttúrulækningar, eins og fiskur og kjöt séu ekki af náttúrunni.

Heilbrigðisyfirvöld viðurkenna heilsuhælið með því að leggja því til fé eins og sjúkrahúsi. Er það mest notað af fólki, sem þarf sjúkraþjálfun og vatnsböð og leirböð. Einnig mun ýmsum talið hollt að breyta til um fæði um stundarsakir. Ekki er vitað um nokkurn starfandi lækni, sem varar við fiski og kjöti almennt, eins og náttúrulækningamenn gera.

Oft hefur verið litið á þennan félagsskap í andstöðu við bændur í landinu sem kjötframleiðendur, en sjaldan er minnst á andstöðu hans við fiskframleiðendur. Kjötframleiðendur eru háðir neyslu íslendinga, en yfirleitt hefur verið talið, að fiskframleiðendur væru óháðir fiskneyslu íslendinga. Á heimsmarkaði gegnir öðru máli. Þjóðverjum var í sumar skotinn skelkur í bringu með sjónvarpskynningu á menguðum fiski úr Norðursjó, og gætti þess með verulega lækkuðu fiskverði um tíma, einnig á íslenskum fiski (ómenguðum). Íslenskir fiskseljendur og íslendingar mega teljast heppnir, meðan ekki er gerður sjónvarpsþáttur og sendur út um lönd um þær kenningar náttúrulækningafélagsmanna á Íslandi, að ómengaður fiskur sé heilsuspillandi, og um óbeina viðurkenningu stjórnvalda á þeirri kenningu, sem fæst með styrkveitingu til heilsuhælis þeirra.

Svo eru þeir, sem ekki neyta þess, sem blóð hefur runnið í (fisks og kjöts), af því að þeir vilja ekki deyða líf í eigin þágu. Þá þarf ekki að vera spurning um óhollustu fæðunnar, heldur samkennd með lífi, sem ég virði. Ég forðast slíkar hugsanir, meðan ég neyti matar míns. Rannsóknir munu sýna, að plöntur hafa einnig samkennd með aðstandendum sínum, t.d. húsmóður, sem hirðir stofublóm af alúð. Ég drep skordýr, sem koma í hús mitt, en ekki alveg samviskulaust. Íslendingur hefur efni á því að nærast sæmilega án kjöts eða fisks, en þjóðin færi á vonarvöl, ef slíkt viðhorf yrði almennt í heiminum. Af hverju ættu íslendingar að lifa, ef enginn vill kaupa fisk?

Er ég að mála skrattann á vegginn? Íslendingar sátu í alþjóðlegu ráði, sem stofnað var til að vinna að skynsamlegri nýtingu hvala. Fyrr en nokkurn varði, var ráðið orðið skipað að meirihluta fulltrúum ríkja, sem höfðu ekki áhuga á nýtingu hvala, heldur voru beinlínis á móti henni. Íslendingar höfðu grandalausir tekið þátt í því að bæta í ráðið fulltrúum, sem voru þangað komnir til að vinna gegn eiginlegum tilgangi ráðsins. Íslendingar gera ekki ráð fyrir því fyrr en um seinan, að aðrar þjóðir vinni gegn hagsmunum þeirra vitandi vits.

Lesbók Morgunblaðsins 23. október 1987 3