Fullgilding Rómarsáttmálans frá 1957 um Efnahagsbandalag Evrópu er nú mál málanna í samskiptum ríkja Vestur-, Mið- og Suður-Evrópu. Samkvæmt honum ráða hin einföldu lögmál markaðsins ríkjum, líkt og var fyrir 1914 eða 1930. Það er þó ólíkt að nú eru viðskipti miklu öflugri þáttur í kjörum almennings en var, áður en sérhæfing og verkaskipting ásamt samgöngu- og samskiptatækni þróaðist á núverandi stig.
Til þess að tryggja að hin einföldu og auðskiljanlegu öfl markaðsins verði ekki sniðgengin afsala ríki bandalagsins sér forræði yfir veigamiklum málum. Ljóst er þó að margvísleg tilefni verða áfram til ágreinings milli ríkja og meira mun reyna á sanngirni meðal þjóða með auknum samskiptum. Reynslan er þar ekki á einn veg. Sumir telja brestina sem komnir eru í júgóslavneska sambandsríkið boða það hvernig fari þegar sundurleitar þjóðir lúti sterkri yfirstjórn eins og Rómarsáttmálinn mótar. Í Sviss hefur sambúð þjóða hins vegar verið farsæl, en Svisslendingar eru öðrum tortryggnari á að afsala sér yfirstjórn í hendur ríkjabandalaga, og fréttist ekki annað en þeir vænti þess að háþróuðum iðnaði þeirra verði vel borgið án aðildar að Rómarsáttmálanum.
Þótt þorri ríkja Vestur- og Suður-Evrópu hafi þannig fengið sameiginlegan grundvöll fyrir viðskipti sín í milli, hefur ekki fundist ráð til að treysta grundvöll frumþarfa mannsins í heimshlutanum, sem er hreint loft, hreint vatn og frjór jarðvegur. Þau mál eru að taka við sem vandasömustu viðfangsefnin og ágreiningsefnin í stað tolla og viðskiptahafta.
Mikil umskipti virðast nú vera í afstöðu meginlandsþjóða til íslendinga. Meðan forn germönsk menning var mikils metin meðal menntamanna á 19. öld og fram eftir þessari öld var litið upp til íslendinga sem hinna fremstu arftaka þessarar menningar. Er talið að það hafi ráðið miklu um þá athygli sem íslenskir rithöfundar svo sem Gunnar Gunnarsson og Jón Sveinsson (Nonni) nutu erlendis. Nú sýnist hins vegar sem viðhorf hafi breyst og að afstaða til íslendinga sé eins og þeir sem byggja afkomu sína á nýtingu lífrænna endurnýjanlegra auðlinda og búa fjarri valdstöðvum (nú sjónvarpsstöðvum) hafa oft þurft að sæta. Þegar almenningur og stjórnvöld í Vestur-Þýskalandi lætur skipulögðum samtökum líðast að ofsækja fólk og fyrirtæki fyrir að stunda heiðarleg viðskipti með íslenskar afurðir hefur mikið breyst frá því að íslendingar nutu sérstakrar virðingar meðal þýsks almennings og menntamanna.
Fyrir réttum tveimur áratugum greip um sig sú tilfinning meðal ungs fólks í Vestur-Evrópu, aðallega háskólafólks, að nú skyldi allt verða sem nýtt. Þessi tilfinningaalda náði síðar til Íslands og einkenndi hreyfingu vinstrimanna um skeið, en fékk skýra umgjörð í Bandalagi jafnaðarmanna. Ýmsir virðast nú hugsa til þess, þegar Rómarsáttmálinn kemur til fullrar framkvæmdar með sömu tilfinningu, og vilja þá sem von er að íslendingar fái að vera þar með. Þeir sem ekki hrífast með setja það meðal annars fyrir sig að með aðild að Rómarsáttmálanum mundu íslendingar ekki mega halda evrópskum fiskiskipum utan íslenskra fiskislóða, þar sem ekki er leyft að mismuna sjávarútvegsfyrirtækjum bandalagsríkja við veitingu veiðileyfa. Þess vegna yrði að afnema fiskveiðilandhelgina gagnvart skipum aðildarríkja. Við þessu þykjast menn sjá ráð, en það er að íslenska ríkið selji veiðileyfi, með þeim rökum að fiskislóðir við Ísland séu sameign íslensku þjóðarinnar. Ef erlend útgerðarfyrirtæki bjóði betur í fiskveiðiheimildir en íslensk, falli ávinningurinn í hlut íslenska ríkisins og sé gott eitt um það að segja.
Mér er sem ég sjái fulltrúa Stóra-Bretlands, Frakklands og Spánar, sem gæta hagsmuna enskra, franskra og spænskra sjávarútvegshéraða og fyrirtækja, fallast á að íslenska ríkið taki af fyrirtækjunum gjald fyrir veiðar á fiskislóðum sem sótt var á af enskum, skoskum, þýskum, frönskum og hollenskum skipum um aldir, en íslendingar hafa lengst nýtt. „Sagnfræðingar þessara þjóða munu auðveldlega rifja upp þá tíma þegar fiskislóðirnar við Ísland voru nýttar sameiginlega af ýmsum þjóðum og þarf ekki mikla hugvitsemi til að velja málstaðnum að kjörorði að fiskislóðir Evrópu séu sameign Evrópuþjóða. Það mun almenningi stórþjóðanna sem nú hefur gerst andsnúinn málstað Íslands vel líka.
Ólíklegt er að íslendingar mundu geta fundið vörn í málinu ef þeir hefðu bundist ákvæðum Rómarsáttmálans með aðild að honum.
Morgunblaðinu 29. júní 1989