Þú bentir mér fyrstur á það, að með veiði mætti bæta lífsskilyrði svo, að veiði ykist enn frekar síðar meir. Mér er það enn sterkt í minni, þegar þú bentir mér á þetta fyrir 18 árum, þar sem við hittumst í leikhúsi í Björgvin, þótt ég gerði mér ekki þá þegar grein fyrir því, hversu skilningur og skilningsskortur í þessu efni gæti orðið örlagaríkur fyrir íslendinga.

Þetta er vissulega sjálfsagt mál í allri fóðurfræði. Afurðir aukast nefnilega með því að takmarka ásetning við fæðuskilyrði. Þess vegna er svo til öllum lömbum og folöldum fargað, til þess að tiltæk næring (fóður og beit) nýtist sem mest til vaxtar, en sem minnst fari í arðlaust viðhaldsfóður. Af sömu ástæðum skilar það mestu nautakjöti að láta naut ekki verða gömul.

Hér á landi þykja orð þín um nýtingu sjávarfiska merkari en orð annarra hagfræðinga. Ég hef fylgst með því, hvort þú snerir þessum mikilvæga skilningi að þeim, sem ráða nýtingu sjávar við Ísland. Það er fyrst í viðtali við þig í Morgunblaðinu (Í verinu) 13. apríl síðastliðinn, að ég sé slík orð falla, og þá vil ég fá meira að heyra.

Ég vísa fyrst til orða þinna um þorskinn við Nýfundnaland. Þú segir, að vel geti verið, að þar hafi verið svo lök lífsskilyrði, að engin ástæða hafi verið til að hlífast við veiðar hans. Þessi ályktun þín er andstæð túlkun Jakobs Jakobssonar forstjóra Hafrannsóknastofnunar í Morgunblaðinu 2. mars síðastliðinn. Þar fullyrðir hann, að samverkandi áhrif umhverfis og harðrar veiðisóknar eigi stærstan þátt í hruni þorskstofna við austurströnd Kanada.

Oft má skýra mál betur með tveimur orsökum en einni. Það á þó ekki við, ef orsakirnar geta ekki farið saman. Orsakirnar, sem Jakob skýrir ástand þorsksins við Nýfundnaland með, geta ekki átt við samtímis. Ef nýta á takmarkaða næringu hafsins sem best, á ekki að hlífast við veiði, meðan næringarskorts gætir. Það er fyrst, þegar þorskurinn fær að njóta sín vegna nægrar næringar, að veiði er sýnilega nægilega mikil. Þá eru einstaklingarnir, sem keppa um fæðið, ekki of margir. Tvöföld skýring Jakobs er því rökleysa samkvæmt almennum líffræðilegum skilningi og fram koma í ábendingum þínum, en fiskifræðin er vitaskuld líffræðigrein.

Nú spyr ég: Hefurðu orðið var við, að skilningur Jakobs á lífsskilyrðum þorsks við Ísland sé meiri en skilningur hans á lífsskilyrðum þorsks við Nýfundnaland? Ég skora á þig að tilgreina dæmi um það, ef þú veist það, en mér kæmi vissulega á óvart, ef þú getur rökstutt það með tilvísun í greinargerðir hans og Hafrannsóknarstofnunar, að frekar sé ástæða til að taka mark á orðum hans um það, hvernig best sé að hátta þorskveiðum við Ísland en við Nýfundnaland.

Morgunblaðinu 19. maí 1994 (Bréf til blaðsins)