Ég þakka þér skilmerkilega greinargerð hér í blaðinu 8. júní um það, hverju umhverfissveiflur ráða um viðgang fiskistofna. Þar rökstyður þú frekar það, sem ég hafði eftir þér um örlög þorsksins við Nýfundnaland. Ég benti á, að rök þín væru andstæð rökum forstjóra Hafrannsóknastofnunar og skoraði á þig að tilgreina dæmi, ef þú vissir, þar sem fram kæmi af hálfu Hafrannsóknastofnunar sami skilningur og þú lýstir. Þar sem þú víkur ekki orði að Hafrannsóknastofnun í svari þínu, vil ég með aðeins einni tilvitnun, sem varðar kjarna málsins, vekja frekar athygli á því, hversu ólíkt þú ályktar.

Þú segir: „Allur varanlegur afli byggist á því að grisja fiskistofna hæfilega, m.a. út frá fæðuframboði og afráni eldri fiska á ungviði.” Ég veit ekkert dæmi þess, að Hafrannsóknastofnun hafi metið, hvað sé hæfileg grisjun eða metið reglur um möskvastærð með tilliti til þess. Veist þú nokkurt dæmi þess? Fiskveiðiráðgjöf, sem sniðgengur þennan kjarna málsins, getur ekki verið mikils virði.

Morgunblaðinu 25. júní 1994 (Bréf til blaðsins).