Á landi

Víða um heim hefur verið stundaður áætlunarbúskapur. Stóru ríkin fjögur á Norðurlöndum komu fyrir um fjörutíu árum á fót stofnun áætlunarbúskaparmála, Nordplan, með aðsetur í Stokkhólmi. Þá hafði ríkt áætlunarbúskapartrú, sem fólst í því, að ríki setti sér markmið um ákveðna stærð og gerð málaflokks. Þannig fóru íslendingar að 1944 með áætlun um kaup svo og svo margra togara og fiskibáta með atbeina ríkisins. Þá þurfti það ekki að vera svo vitlaust til að rétta af truflun heimsstyrjaldarinnnar á atvinnuvegina, enda þóttust menn hafa yfirsýn yfir þjóðarbúið til að gera það.

Að Nordplan voru ráðnir menn í stöðu prófessora, enda hafði stofnunin stöðu háskóla. Síðar fór stofnunin undir menningarmálaskrifstofu Norðurlandaráðs, og þá varð Ísland aðili að henni. Fljótt fór svo, að starf stofnunarinnar fólst í því að kenna það, að áætlunarbúskapur, eins og menn höfðu ætlað sér, færi illa, enda svo margir lausir endar um viðgang samfélagsins, að ekki yrði við ráðið. Í staðinn varð þar viðfangsefnið að kenna að meta forsendur skipulags og móta þær þannig, að viðgangur samfélagsins yrði til heilla, þó að framtíðargerðin væri ekki ákveðin. Segja má, að það sjónarmið hafi orðið ríkjandi. Menn þykjast nefnilega ekki hafa yfirsýn né tök, til að áætlunarbúskapur verði með viti. Sá skilningur er einnig hér á landi, að þjóðarbúið sé svo margslungið, að ekki sé vit í að setja slíkar áætlanir.

 

Á sjó

Um höfin gegnir öðru máli en löndin. Þar ríkir áætlunarbúskapartrú. Þess vegna er það nú svo hér á landi, að ríkið stefnir að því, að svo og svo mörg kíló af þorski verði hér við land, og er sett tala ár fyrir ár. Vitaskuld eru engin efni til slíkrar áætlunar. Óvissa er um það, sem varðar mestu, næringarástandið. Menn vita ekki, hversu margir þorskar geta átt viðunandi líf hér við land á þessari stundu og enn síður eftir eitt ár, tvö ár, þrjú ár eða 10 ár. (Reyndar er þorskurinn nú vannærður, það er að segja, þorskarnir eru of margir miðað við fæðuskilyrði, verða því léttir og því ekki gott hráefni). Þrátt fyrir þetta setja menn markmið um þorskkíló ár fyrir ár. Það er áætlunarbúskapur laus við vit.

Vitið er hins vegar það að fara eins að og á landi, að tryggja eðlilegan viðgang. Þá verður að gæta þess að láta þorskana vera ekki svo marga, að þá skorti fæðu. Líffræðingar geta fylgst með því og bent á ráð til þess. Þessu hafa mikils metnir menn haldið skilmerkilega fram á ýmsum vetttvangi, Jón Jónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, Kristján Þórarinsson, starfsmaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna, og Jón Kristjánsson, sem starfar sjálfstætt og nýtur þess.

Morgunblaðinu 11. október 2007 39