Háskaleg hagkerfi. Tækifæri og takmarkanir umbóta. Þráinn Eggertsson 2007, Hið íslenska bókmenntafélag. Athugasemdir við tvö efni
Umsögnin er einskorðuð við umfjöllun um sjávarútveg við Ísland.
Fyrri hluti umsagnarinnar er um það, hvers vegna sjávarútvegur við Ísland stóð í stað öldum saman. Höfundur Háskalegra hagkerfa heldur því fram, að sjávarútvegur hefði getað eflst miklu fyrr en raun varð á, ef betur hefði verið að staðið. Treystir höfundur þar nokkuð á ritið Upp er boðið Ísaland. Einokunarverslun og íslenskt samfélag 1602-1787 (1986) eftir Gísla Gunnarssonar (frumgerð Monopoly trade and economic stagnation. Studies in the foreign trade of Iceland 1602-1787 (1983)). Höfundur tekur í þessu efni ekki tillit til gagnrýni á greiningu Gísla í Skírni og Sögu eins og hér verður skýrt.
Tvennt verður hér athugað, sem haldið er fram, að hafi spillt fyrir því, að íslenskur sjávarútvegur efldist. Annað er ákvæði með lagagildi frá 1490, sem bannaði þeim búðsetu, sem ekki átti búfé og eignir til þriggja hundraða að minnsta kosti. Sem dæmi til skýringar á því, hversu mikið verðmæti er um að ræða, er, að tvær mjólkurkýr og sex ær, loðnar og lembdar í fardögum, töldust þrjú hundruð. Ákvæðið takmarkaði því ekki rétt þess, sem sat sjávarjörð, þótt lítil væri, og studdist við sjávarfang, til að ráða fólk til sjósóknar og fiskverkunar. Þetta var skýrt í Sögu 1990.
Þá er því haldið fram, að það hafi spillt fyrir myndun þéttbýlis við sjávarsíðuna, að þeim, sem ekki stóð fyrir búi, var skylt að vera vistráðinn í sveit. Það er rangt. Ákvæðinu um vistráðningarskyldu var fullnægt, hvort sem vistin var í þéttbýli eða í sveit. Þetta var skýrt í Skírni 1986.
Síðari hluti þessarar umsagnar er um umfjöllun í niðurstöðu bókarinnar (bls. 239-251) um fiskveiðistjórn við Ísland á síðustu áratugum 20. aldar. Því er þar haldið fram, að íslensk fiskveiðistjórn fari að verða til fyrirmyndar. Vísað er til tveggja fiskihagfræðilegra greina um nýtingu almennings, eftir Gordon (1954) og Scott (1955). Má skilja, að um síðir, þegar bókin er samin, rísi íslensk fiskveiðistjórn á kenningu þeirra um takmarkað aðgengi að almenningi. Svo er ekki. Fiskveiðistjórn við Ísland hefur undanfarna áratugi verið aflastjórn, en Gordon og Scott kenndu sóknarstjórn til nýtingar á almenningi.
Það varð markmið stjórnvalda, þegar Ísland hafði fengið forræði fiskveiða við landið (innan 200 sjómílna) árið 1975, að stjórna svo, að afli yrði sem mestur til langframa. 30 árum síðar, þegar ritið kom út, var reyndin sú, að þorskafli var um helmingur þess, sem hann var fyrir 1975. Þorskur er hér tekinn sem dæmi, enda skilar hann mestu verðmæti allra fisktegunda og nokkuð stöðugu. Höfundur beinir kunnáttu sinni í stofnanafræði að fyrirkomulaginu við úthlutun fiskveiðiheimilda og framsal þeirra, en ekki að varanlegri aflarýrð. Kunnugt hefur verið um ýmsa menn í ábyrgðarstöðum, sem telja, að þar sé um kerfisgalla að ræða, allt frá málþingi Líffræðifélagsins í janúar 1984. Það er því veigamikið stofnanafræðilegt viðfangsefni, hvort varanleg aflarýrð sé að kenna kerfisgalla og, ef svo er, hvernig megi úr bæta.—Þess má að lokum geta, að þorskafli hefur haldist jafnrýr síðan 2005, árið, sem ensk frumgerð ritsins birtist.