Í öndvegi: málstofa Reykjavíkurakademíunnar 25. febrúar 2016
Félagið Frjáls menning hélt ráðstefnu um sjálfstæði Íslands og þátttöku í efnahagsbandalögum 27. janúar 1962. Umræðurnar birtust á prenti. Þar kom ekki fram neitt almennt álit. Sumir gáfu sér, að Fríverslunarsamtökin EFTA, sem 7 OECD-ríki stofnuðu 1959, mundu brátt líða undir lok og að ekki yrði annar kostur til fríverslunar með iðnaðarvöru í Evrópu en Efnahagsbandalag Evrópu (EEC), sem tók til starfa 1. janúar 1958.
Það gerði Már Elísson, síðar fiskimálastjóri.
Þá gáfu sumir sér, að með aðild Íslands að Efnahagsbandalaginu verði öllum fyrirtækjum bandalagsins heimilaðar fiskveiðar á Íslandsmiðum.
Það gerði Már Elísson ekki, heldur taldi hann þurfa að fá undanþágur. Hverjar þær gætu orðið, yrði ekki sagt nema með því að láta á það reyna í sambandi við umsókn.
Fram kom, að hugur manna stóð til að leita ráða til að halda arði af sjávarútvegi í landinu, þrátt fyrir að öll fyrirtæki bandalagsins fengju heimild til veiða.
Þar kom fram það álit, að fórna mætti sjávarútvegi fyrir viðgang iðnaðar.
Það gerði Bjarni Bragi Jónsson, eins og þar sagði: „… taka með í reikninginn þær greinar, sem geta orðið til og vaxið, þ.e.a.s. vaxtarstefnan til afkastameiri greina og afkastameiri forma. Við verðum því fyrst og fremst að fara eftir því, hvaða skipulag geti gefið okkur skilyrði til að þróa þær greinar, sem eru lífvænlegastar. Sérstaklega vil ég vara við því í þessu sambandi að leggja of mikið upp úr sjávarútveginum. Í öðru sambandi vil ég leggja áherzlu á sérstöðu sjávarútvegsins. Allir fróðir menn á því sviði segja okkur, að sjávarútvegurinn sjálfur geti tæplega vaxið öllu meira, þangað til við komum að mörkum ræktunar, ef til vill í fjarlægri framtíð. Fiskvinnsla getur að sjálfsögðu aukizt nokkuð. Ef þetta er rétt ályktun, að sjávarútvegurinn sé ekki okkar aðalvaxtargrein, þá verður afstaða okkar til markaðsbandalaga miklu frekar að markast af því, hvort þau veita skilyrði til vaxtar í þeim lífvænlegu vaxtargreinum, heldur en hvort fæst dálítið meira eða minni framleiðni í sjávarútvegi eða eitthvað betra eða lakara verð fyrir þær vörur, sem þarna er um að ræða.“
Bjarni fjallaði síðar á fundinum um auðlindaskatt og sagði: „Efnahagsbandalagið á að geta skilið, að við eigum þessar auðlindir í þjóðarsameign og þurfum að halda því áfram, og við þurfum með einhverjum hætti að geta takmarkað ásóknina og skattlagt hæfilega þessa uppsprettu. Við höfum gert það með tollapólitíkinni í raun og veru. Þess vegna vil ég halda því fram, að ef við göngum í slíkt bandalag, sem ég tel að muni þá vera með aukaaðild, þá muni vera raunhæft að hækka nokkuð verðið á erlendum gjaldeyri til mótvægis við lækkun tollanna, en taka tilsvarandi hluta af gjaldeyriskaupum frá sjávarútvegi og fiskvinnslu og líta á þann skatt sem auðlindaskatt til þjóðarinnar.“ — Að hækka verð á erlendum gjaldeyri er oftast nefnt gengislækkun.
Í Fjármálatíðindum 1975 útfærði Bjarni málið með greininni „Auðlindaskattur, iðnþróun og efnahagsleg framtíð Íslands“. Þar kemur fram, að helstu ráðamenn efnahagsstjórnar landsins eru á sama máli og hann. Það var einmitt árið 1975, að íslendingar voru að því komnir að eignast forræði yfir svo til öllum fiskimiðum við landið. Því var eitt atriði í máli Bjarna orðið brýnt úrlausnarefni, það að hafa stjórn á nýtingu fiskimiðanna. Um það efni vísar hann til fræðigreina, sem urðu stofn umræðu um hagfræðilega fiskveiðistjórn; þær eru eftir bretana Gordon (1954) og Scott (1955).
Annað atriði í máli Bjarna 1975 var, að það væri réttlátt, að eigandi hinnar sameiginlegu auðlindar, eins og hann kvað þjóðina vera, tæki með valdi (ríkisins) gjald af þeim, sem hagnýttu sér hana.
Þriðja atriðið er það, sem felst í orðunum iðnþróun og efnahagsleg framtíð í greinarheiti Bjarna, að sjá til þess, að ríkidæmi sjávarins, sem væri takmarkað, spillti ekki fyrir starfsemi, sem getur vaxið. Það vildi hann gera með því, að ríkið taki hluta af gjaldeyrinum, sem sjávarútvegurinn aflar, og kallar það auðlindaskatt.