Slökkviliðið í Reykjavík lýsir nú áhyggjum af því, að í atvinnuhúsnæði búi víða fólk án þess að vera skráð. Ef eldur kemur upp, geti það verið hættulegt, þar sem slökkviliðið grunar þá ekki, að þar geti verið fólk. Hitt, að atvinnurekstur sé í íbúðarhúsnæði, mætti vera áhyggjuefni þeirra, sem eru í húsnæðisvandræðum. Talið er, að nýting íbúðarhúsnæðis hafi aukist mjög sem gisting. Sá atvinnurekstur, ferðaútvegurinn, hefur þá sérstöðu að greiða 7% af virðisauka, en annar atvinnuvegur, sem greiðir 25,5% virðisaukaskatt, leggur ekki undir sig íbúðarhúsnæði.
Það væri ávinningur fyrir þá, sem leita eftir húsnæði, að vera ekki á þennan hátt í samkeppni við ívilnaðan atvinnuveg. Þar gæti munað um að hafa jafnháan virðisaukaskatt á ferðaútveg og aðra atvinnuvegi. Ef tekjuöflun ríkisins ætti að haldast óbreytt, mundi skatturinn lækka almennt. Fróðlegt væri að fá hugmynd um, hvernig öðrum atvinnuvegum vegnaði með 7% skatt af virðisauka í stað 25,5%. Skyldu þeir þá komast á skrið?
Morgunblaðinu 3. október 2013 (Velvakandi)