Þegar Íslendingar fara til framandi þjóða þykir þeim varið í að kynnast þjóðum þar sem merkilegur menningararfur lifir, en lífskjör og verkmenning lofar góðu um framtíðina. Hins vegar er dapurlegt að kynnast afsiðun þjóðanna. Líkt mun útlendingum sem hingað koma vera farið. Þeim þykir varið í myndarskapinn sem þeir sjá víða í mannvirkjum og framkomu og þeir fagna fjölskrúðugu menningarstarfi.

Dagsdaglega hrærist þjóðin í togstreitu milli þeirrar menningar sem hún hefur sjálf mótað og annars sem hvolfist yfir án þess að mótast nokkuð af íslenskri menningu.

Ég vil benda hér á ýmislegt sem ég veit að mörgum erlendum ferðamanni muni þykja fara betur og ferðamálafólk hefur í hendi sinni.

Ég kom að Geysi með útlendinga af Kili í fögru veðri með viðkomu við Gullfoss. Við söluskálann fylltust eyrun af háværum unglingalögum. Þetta reyndist vera unglingarás ríkisútvarpsins og var heldur ónotaleg andstæða við fagra og mikilfenglega náttúruna.

Á gististað í búsældarlegri sveit áttu tveir ferðahópar að setjast að kvöldverði. Starfsstúlkan spurði þá veitingastjórann: „Á ég að setja Shadows á," og svo var gert. Tveimur kvöldum síðar komum við á annan gististað í fagurri sveit. Þar voru leikin létt klassísk lög við kvöldverð, en við morgunverð lög Gísla Helgasonar og söngur Ása í Bæ. Ég fordæmi ekki Shadows við öll tækifæri, en ljúfara var að heyra þá Vestmanneyingana um morguninn.

Íslendingum þykir vænt um það á ferðum sínum þegar útlendingar sýna áhuga og tillitssemi við sérkenni þjóðarinnar, t.a.m. íslenskar nafnvenjur. Útlendingar á ferð hér meta á sama hátt nokkurs kunnáttu Íslendinga í málum þeirra, svo sem að tala skandínavísku við norrænt fólk og þýsku við Þjóðverja. Slík tillitssemi örvar áhuga þeirra á íslenskum málum. Handa slíku fólki ætti ekki að semja leiðarlýsingu á ensku. Með tölvuskráningu er orðið miklu auðveldara að koma leiðarlýsingu og bréfum á þokkalegt mál. Þá ætti ekki að merkja á ensku hópferðabíla annarra en enskumælandi hópa.

Leiðsögn er vandasöm. Leiðsögumenn vita að skrum um land og þjóð mælist illa fyrir, en með þeim flestum vakir sú tilfinning að það sem vel er um land og þjóð megi styrkjast og það sem þjóðinni er til vansa skyggi ekki þar á. Vítavert er að fákunnandi leiðsögumenn búi til bábiljur um þjóðina. Ég kom að Peningagjá með amerískt fólk. Bílstjórinn spurði hvort ég ætlaði ekki að segja frá því að það ætti óskastund þegar það kastaði pening í gjána. Hann hafði heyrt leiðsögumann kynna gjána þannig. Annar sagði mér að það fylgdi sögunni að maður ætti að kasta peningnum aftur fyrir sig!

Það vissi ég áður af reynslu að langferðabílstjórar eru traustir menn sem láta sér annt um farþegana, en þeir reynast oft sannkallað leiðarljós leiðsögumanna, enda hafa þeir lært margt á ferðum sínum með öllum leiðsögumönnum.

Flugleiðir bera farþegum sínum í millilandaflugi íslenska fiskrétti, og er það vel þegið. Íslenskir veitingamenn geta vitaskuld matbúið þannig að útlendingar fái mat eins og heima hjá sér, en það þykir skemmtileg tilbreyting í því að fá mat úr íslensku hráefni, eins og það er best. Kjúklingur í nesti á Landmannaleið er að vísu boðleg næring, en þegar nestið kemur frá veitingastað í góðsveit á Suðurlandi væri meiri landkynning fólgin í því að bjóða rétti úr kindakjöti, silungi eða laxi með íslensku grænmeti. A sumum gististöðum er sýnd mikil kunnátta í að matreiða úr kindakjöti, bæði heita rétti og álegg og annað á kalt borð, en lítið er varið í að bjóða Dönum og Þjóðverjum kjötrétti af svíni og fuglum sem eru hversdagsmatur þeirra heima og betur gerðir þar.

Flestir erlendir ferðamenn koma hingað til að kynnast náttúrufari, en þeir fá um leið nokkra hugmynd um þjóðmenningu og margt vekur þar aðdáun. Þeir mega fljótt skilja að tungan er lifandi menningararfur, en fátt annað lifir af fornri menningu.

Eitt sinn dvaldist ég vetrarlangt í landi þar sem ég kunni ekki mál landsmanna. Það var í Ísrael. Tvö hebresk orð hljómuðu oftast: sjalom og toff. Með sjalom heilsuðust menn og kvöddust, en það þýðir hér sé friður, friður veri með þér, en toff mátti oft heyra þegar leið á samtal og þýðir gott, gott og vel, jæja, þá það, og ýmislegt fleira.

Útlendingur sem hér dvelst um stundarsakir og kann ekki íslenzku heyrir klingja í eyrum í samtölum ók-ei, eins og ég heyrði toff hjá Ísraelsmönnum, og hæ og bæ, þar sem ég heyrði sjalom í Ísrael. Hvað skyldi hann halda um afstöðu þjóðarinnar til þjóðtungunnar, þegar hann heyrir að upphaf, endir og ályktun samtals felst í slíkum orðum?

Lesbók Morgunblaðsins 18. október 1986 3