Ég er með þeim ósköpum gerður að þykja fiskur góður og líkar vel að fá hann í matinn flesta virka daga, og helzt enda ég kvöldmatinn með harðfiski. Það er líklega uppeldið sem ræður þessum smekk, með ýsu í hádegismat og óbarðan harðfisk sem sælgæti á kvöldin. Þess vegna féll mér að Ísland skyldi vera kynnt með mynd af ýsu í Morgunblaðinu í haust í greinargerð um „brauðstritið í fimm löndum“. Þar var borið saman verðlag í Reykjavík, Tórínó á Ítalíu, Zurich í Sviss, Iowa í Norður-Ameríku og Stokkhólmi. En innkaupin voru ekki að mínum smekk. Þar var engin ýsa, hvorki soðning né hert, og reyndar ekki nokkur fiskbiti. En kjötið? Jú, það var kjúklingur, spægipylsa og nautalundir.

 

Þetta minnti mig á það sem kom fyrir mig í haust á tungumálanámskeiði norður í landi með hópi útlendinga frá kornræktarlandi og þar af leiðandi svínalandi. Við brugðum okkur að fjárrétt sveitarinnar til að fylgjast með þegar fé úr heimalöndum var rekið til réttar. Um kvöldið var síðasti málsverður námskeiðsins og því vandað til matargerðar. Gestirnir urðu heldur undrandi þegar aðalrétturinn reyndist vera af svíni, en ekki lambi, eins og þeir bjuggust við eftir að hafa fylgzt með aðalbúfjártegund þessa grasræktarhéraðs um daginn. Þeim hefur líklega fundizt eins og Sunnlendingnum sem sagði við son sinn þegar hann hafði kynnt norðlenzkt konuefni sitt: Þú þurftir ekki að fara norður í land til að finna svona stúlku.

 

Það er mikið viðfangsefni hagfræðinnar að bera saman lífskjör. Með vísitölu framfærslukostnaðar eru borin saman lífskjör við breytilegt verðlag. Þar er vandinn sá að neyzla fólks breytist, svo að samanburðurinn raskast. Á þá að miða við upphaflega neyzlu eða breytta neyzlu? Það er ekki óskylt vandamál að bera saman kostnað við neyzlu í ólíkum löndum. Mér finnst eðlilegast, þar sem ég kem erlendis, að meta framfærslukostnaðinn miðað við staðhætti. Þess vegna varðar mig ekki um það í Stokkhólmi hvað ýsan og súpukjötið kynni að kosta, heldur eitthvað af því kjötmeti sem þar viðgengst. Framfærslukostnaður minn í Stokkhólmi yrði býsna mikill, ef ég ætti að neyta jafngóðrar ýsu og jafngóðs súpukjöts og í Reykjavík. (Það breytir ekki dæminu að bezta kjötsúpuuppskrift mín er raunar sænsk). Á sama hátt yrði framfærslukostnaður Kínverja í Reykjavík mikill, ef hann héldi neyzluvenjum lands síns.

 

En svona hefur blaðamaðurinn ekki hugsað. Ég spurði fólk hvers vegna hann hefði ekki haft nýjan fisk í innkaupakörfunni í Kringlunni. Jú, það taldi það eðlilegt, þar sem hann væri ekki á boðstólum í samanburðarlöndunum. En hvers vegna voru staðhættir samanburðarborganna látnir ráða meira en staðhættir hér? Það hlýtur að hafa verið íslenzk vanmetakennd sem réð því. Það sýnir vel hvað hún er römm að hún skuli koma fram á þessu sviði, þar eð efnaleg velgengni þjóðarinnar er háð því að aðrar þjóðir kunni að meta íslenzkt fæði.

 

Skyldi þá vera til einhver grundvöllur til að bera saman fæðiskostnað við ólíka staðhætti? Mætti ekki bera saman kostnað við hollt fæði? En er til einhver algildur mælikvarði á hollustufæði? Mér dettur í hug að miða við neyzluvenjur þess lands við Atlantshaf þar sem býr það fólk sem virðist vera heilbrigðast. Heilbrigði þjóða má meta með því að reikna hvað fólk lifir lengi. Samkvæmt því hafa Íslendingar fram undir þetta verið heilbrigðasta þjóðin við Atlantshaf, en við Kyrrahaf eru aðrar fiskætur örlítið langlífari, nefnilega Japanir. Þá yrði athugað hvað kostaði að lifa eins og Íslendingur sem neytir meira af fiski, kindakjöti, þ.á m. mör í slátri, mjólkurmat, kaffi og sykri en tiltölulega lítils af grænmeti, kornmat, ávöxtum og áfengi. (Enginn haldi að þessi hlutföll séu að mínum smekk eða ég telji þau hollari en annað.)

 

Það er einkennilegt með „þessa þjóð" sem er háð því að aðrar þjóðir kunni vel að meta íslenzkar afurðir, að það er eins og fólk vilji ekki vita hvað íslenzk fæða hefur reynzt vel. Fyrir nokkrum árum tók Ólafur Sigurðsson, matvælafræðingur við matvælatæknideild Iðntæknistofnunar, að kynna almenningi nýjustu kenningar um áhrif fituneyzlu á blóðrásina með blaðaskrifum, m.a. hér í Lesbókinni. Hann hafði kynnzt þessum málum sem aðstoðarmaður Sigmundar Guðbjarnasonar prófessors og lífefnafræðings sem rannsakaði sérstaklega áhrif lýsis á æðakerfið.

 

Í stuttu máli sagt standa mál nú þannig samkvæmt því sem Ólafur greindi frá, að fiskifita er talin hafa heppileg áhrif á blóðrásina, búfjárfita er talin meinlaus, en ýmsar tegundir jurtafitu varasamar, og færi það nokkuð eftir matreiðslunni. Menn tóku lítið eftir þessum skrifum Ólafs. Ég minntist á þau við starfsmann á sömu stofnun. „Já, hvað heldurðu að honum sé borgað fyrir það í Bændahöllinni?" Mér þótti ekki líklegt að hann væri á snærum bænda og hélt að það varðaði sjávarútveginn meira, að heimurinn vissi þetta, en bændurna. Svo gerðist það í haust að til landsins kom víðkunnur norskur búfjárfræðingur sem hefur á efri árum snúið sér að því að kynbæta alilax. Hann flutti opinberan fyrirlestur og kom fram í sjónvarpi, en fjallaði meira um hollustu fiskifitunnar en sérsvið sitt og taldi það málstað hagkvæman fiskveldinu, þar sem fólk gæti bætt blóðrásina með því að neyta alilax. Þá fyrst vakti málíð verðskuldaða athygli, þótt útlendingurinn væri sízt meiri sérfræðingur á sviði næringar en Íslendingurinn sem fyrst kynnti það.

 

Lesbók Morgunblaðsins 13. janúar 1990 3

Ég er með þeim ósköpum gerður að þykja fiskur góður og líkar vel að fá hann í matinn flesta virka daga, og helzt enda ég kvöldmatinn með harðfiski. Það er líklega uppeldið sem ræður þessum smekk, með ýsu í hádegismat og óbarðan harðfisk sem sælgæti á kvöldin. Þess vegna féll mér að Ísland skyldi vera kynnt með mynd af ýsu í Morgunblaðinu í haust í greinargerð um „brauðstritið í fimm löndum“. Þar var borið saman verðlag í Reykjavík, Tórínó á Ítalíu, Zurich í Sviss, Iowa í Norður-Ameríku og Stokkhólmi. En innkaupin voru ekki að mínum smekk. Þar var engin ýsa, hvorki soðning né hert, og reyndar ekki nokkur fiskbiti. En kjötið? Jú, það var kjúklingur, spægipylsa og nautalundir.

Þetta minnti mig á það sem kom fyrir mig í haust á tungumálanámskeiði norður í landi með hópi útlendinga frá kornræktarlandi og þar af leiðandi svínalandi. Við brugðum okkur að fjárrétt sveitarinnar til að fylgjast með þegar fé úr heimalöndum var rekið til réttar. Um kvöldið var síðasti málsverður námskeiðsins og því vandað til matargerðar. Gestirnir urðu heldur undrandi þegar aðalrétturinn reyndist vera af svíni, en ekki lambi, eins og þeir bjuggust við eftir að hafa fylgzt með aðalbúfjártegund þessa grasræktarhéraðs um daginn. Þeim hefur líklega fundizt eins og Sunnlendingnum sem sagði við son sinn þegar hann hafði kynnt norðlenzkt konuefni sitt: Þú þurftir ekki að fara norður í land til að finna svona stúlku.

Það er mikið viðfangsefni hagfræðinnar að bera saman lífskjör. Með vísitölu framfærslukostnaðar eru borin saman lífskjör við breytilegt verðlag. Þar er vandinn sá að neyzla fólks breytist, svo að samanburðurinn raskast. Á þá að miða við upphaflega neyzlu eða breytta neyzlu? Það er ekki óskylt vandamál að bera saman kostnað við neyzlu í ólíkum löndum. Mér finnst eðlilegast, þar sem ég kem erlendis, að meta framfærslukostnaðinn miðað við staðhætti. Þess vegna varðar mig ekki um það í Stokkhólmi hvað ýsan og súpukjötið kynni að kosta, heldur eitthvað af því kjötmeti sem þar viðgengst. Framfærslukostnaður minn í Stokkhólmi yrði býsna mikill, ef ég ætti að neyta jafngóðrar ýsu og jafngóðs súpukjöts og í Reykjavík. (Það breytir ekki dæminu að bezta kjötsúpuuppskrift mín er raunar sænsk). Á sama hátt yrði framfærslukostnaður Kínverja í Reykjavík mikill, ef hann héldi neyzluvenjum lands síns.

En svona hefur blaðamaðurinn ekki hugsað. Ég spurði fólk hvers vegna hann hefði ekki haft nýjan fisk í innkaupakörfunni í Kringlunni. Jú, það taldi það eðlilegt, þar sem hann væri ekki á boðstólum í samanburðarlöndunum. En hvers vegna voru staðhættir samanburðarborganna látnir ráða meira en staðhættir hér? Það hlýtur að hafa verið íslenzk vanmetakennd sem réð því. Það sýnir vel hvað hún er römm að hún skuli koma fram á þessu sviði, þar eð efnaleg velgengni þjóðarinnar er háð því að aðrar þjóðir kunni að meta íslenzkt fæði.

Skyldi þá vera til einhver grundvöllur til að bera saman fæðiskostnað við ólíka staðhætti? Mætti ekki bera saman kostnað við hollt fæði? En er til einhver algildur mælikvarði á hollustufæði? Mér dettur í hug að miða við neyzluvenjur þess lands við Atlantshaf þar sem býr það fólk sem virðist vera heilbrigðast. Heilbrigði þjóða má meta með því að reikna hvað fólk lifir lengi. Samkvæmt því hafa Íslendingar fram undir þetta verið heilbrigðasta þjóðin við Atlantshaf, en við Kyrrahaf eru aðrar fiskætur örlítið langlífari, nefnilega Japanir. Þá yrði athugað hvað kostaði að lifa eins og Íslendingur sem neytir meira af fiski, kindakjöti, þ.á m. mör í slátri, mjólkurmat, kaffi og sykri en tiltölulega lítils af grænmeti, kornmat, ávöxtum og áfengi. (Enginn haldi að þessi hlutföll séu að mínum smekk eða ég telji þau hollari en annað.)

Það er einkennilegt með „þessa þjóð" sem er háð því að aðrar þjóðir kunni vel að meta íslenzkar afurðir, að það er eins og fólk vilji ekki vita hvað íslenzk fæða hefur reynzt vel. Fyrir nokkrum árum tók Ólafur Sigurðsson, matvælafræðingur við matvælatæknideild Iðntæknistofnunar, að kynna almenningi nýjustu kenningar um áhrif fituneyzlu á blóðrásina með blaðaskrifum, m.a. hér í Lesbókinni. Hann hafði kynnzt þessum málum sem aðstoðarmaður Sigmundar Guðbjarnasonar prófessors og lífefnafræðings sem rannsakaði sérstaklega áhrif lýsis á æðakerfið.

Í stuttu máli sagt standa mál nú þannig samkvæmt því sem Ólafur greindi frá, að fiskifita er talin hafa heppileg áhrif á blóðrásina, búfjárfita er talin meinlaus, en ýmsar tegundir jurtafitu varasamar, og færi það nokkuð eftir matreiðslunni. Menn tóku lítið eftir þessum skrifum Ólafs. Ég minntist á þau við starfsmann á sömu stofnun. „Já, hvað heldurðu að honum sé borgað fyrir það í Bændahöllinni?" Mér þótti ekki líklegt að hann væri á snærum bænda og hélt að það varðaði sjávarútveginn meira, að heimurinn vissi þetta, en bændurna. Svo gerðist það í haust að til landsins kom víðkunnur norskur búfjárfræðingur sem hefur á efri árum snúið sér að því að kynbæta alilax. Hann flutti opinberan fyrirlestur og kom fram í sjónvarpi, en fjallaði meira um hollustu fiskifitunnar en sérsvið sitt og taldi það málstað hagkvæman fiskveldinu, þar sem fólk gæti bætt blóðrásina með því að neyta alilax. Þá fyrst vakti málíð verðskuldaða athygli, þótt útlendingurinn væri sízt meiri sérfræðingur á sviði næringar en Íslendingurinn sem fyrst kynnti það.

Lesbók Morgunblaðsins 13. janúar 1990 3