Í blaðinu á fimmtudaginn var (25. júlí) hvetur blaðamaðurinn M. Þorv. veitingamenn til að bjóða fólki sem er á ferð um landið einfaldari mat á lægra verði en nú tíðkast („Á ferð um landið í sumri og sól").

Ég veit um ýmsa staði, þar sem það er nú þegar gert, en þá er því ekki mikið hampað, og þarf helzt kunnuga menn til að finna slíka veitingastaði. Þá er þess að gæta, að menn bjóða veitingar til þess að hafa ofan af fyrir sér. Veitingamaðurinn getur ekki lagt mikið á það, sem er einfalt í matreiðslu og framleiðslu. Svo held ég, að margir íslenzkir ferðamenn vilji berast á á mannamóti, þegar þeir eru á ferð með maka og börnum. Neyzla matar á veitingastöðum er nefnilega ekki aðeins sp urning um næringu og gott bragð, heldur líka tjáning um lífsstíl. Það takmarkar eftirspurn eftir einföldum mat. Staðlaðir sumarréttir sambands veitinga- og gistihúsa eru mikilvægt framlag í þágu hófsamari gesta.

Nú veit það hver maður, að hráefniskostnaður er lítill hluti af því verði, sem gesturinn greiðir veitingamanninum fyrir góðan málsverð, enda kemur það fram í annarri grein í sama blaði (Erna Hauksdóttir, „Er matur á Íslandi dýr? "), sem hvers konar ríkjasamanburður staðfestir, að fólk á Íslandi er yfirleitt dýrt og lítið um ódýrt fólk, sem flutt er inn til þjónustustarfa í löndum, sem líkjast Íslandi mest um almenna velferð. Þó verður því ekki á móti borið, að sumt hráefni er hér dýrara en í heimalöndum gestanna. En fólk er ekki aðeins dýrt hér, það er líka dýrmætt. Þeir sem svo líta á, telja ekki eftir það sem kostar að tryggja lífsöryggi þjóðarinnar með fjölbreyttum landbúnaði.

Við sem ferðumst um landið með erlenda hópa verðum fljótt vör við, að það heillar þá mest hvernig skiptast á auðnir og blómlegar byggðir. Annað heillar þá, en það er að kynnast innfæddum, þessu dýra og dýrmæta fólki, í daglegu amstri og venjulegu umhverfi. Slíkir gestir skilja auðveldlega, að þjóð, svo langt frá öðrum, vilji kosta nokkru til til að tryggja lífsöryggi sitt með sem fjölbreyttustum eigin matvælum. Ég vænti þess, að veitingamenn og gestgjafar geri sér ljóst, að þar þarf ekkert að afsaka, og ekki heldur þótt starfsfólk þeirra ætli sér hlut á borð við aðra landsmenn.

Morgunblaðinu (Velvakandi) 7. ágúst 1991