Stjórnarfar á Norðurlöndum er víða um heim orðlagt fyrir það, að það sameini ráðdeild, almenn hagsæld og mannréttindi. Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland settu fyrir rúmum áratug á laggirnar sameiginlega stofnun í skipulagsfræðum, Nordplan, og áréttuðu með því stefnumörk sín í þessum efnum. Síðar varð‚ Ísland óbeint aðili að stofnuninni, þegar menningarmálaskrifstofu Norðurlanda var falin yfirumsjón með stofnuninni, og þaðan fær hún rekstrarfé, en Íslendingar leggja fé til skrifstofunnar með öðrum þjóðum Norðurlanda og eru með í ráðum við úthlutun. Meðal þess, sem Nordplan sér um, er framhaldsmenntun í skipulagsfræðum. Það nám sækir fólk með háskólamenntun af ýmsu tagi, flest milli þrítugs og fimmtugs og hefur þá margt áður unnið ábyrgðarmikil störf að skipulagsmálum ríkis og héraða. Arkitektar hafa verið fjölmennastir; úr ýmsum greinum þjóðfélagsvísinda annarra hafa margir komið til náms, en færri úr verkfræði eða náttúrufræði.

Nordplan hefur aðsetur á Skiphólma í Stokkhólmi. Nemendur, 50 á ári, dveljast þar tvær mánaðarlangar annir, í mars og nóvember, en þriðja mánuðinn taka þeir sameiginlega æfingaverkefni, fara þá í hérað eða landsvæði og gera úttekt á ástandinu og gangi mála. Ekki er boðið upp á kennslu í vinnubrögðum við skipulagningu – slíkt er kennt við einstaka háskóla landanna, heldur er leitast við að skýra eðli skipulagningar í víðri merkingu orðsins við ólíkar aðstæður, og ekki síður að þroska fólk í starfi með fólki úr öðrum starfsgreinum og úr öðrum þjóðfélögum með öðru vísi, en þó skylda þjóðmenningu. Stofnunin leitast við að velja að æfingarvettvangi svæði, þar sem eitthvað merkilegt er á döfinni á sviði skipulagsmála. Þannig varð Stafanger fyrir valinu fyrir fáum árum, þar sem voru að verða mikil umskipti vegna olíuvinnslu í Norðursjó. Árið 1977 varð Fjónn fyrir valinu. Þar beindist athyglin að sveitarstjórnarmálum með tilliti til valddreifingar. Menn vildu átta sig á þeim breytingum sem orðið höfðu við nýskipan héraðsstjórnar og nýja verkefnaskiptingu stjórnvalda samkvæmt lögum frá 1970. Í ár, 1979, er Norður-Noregur tekinn fyrir.

Á Íslandi 1978
Röðin kom að Íslandi árið 1978, og mun þar mestu hafa ráðið, að menn höfðu þær hugmyndir, að þar væri allt annað atvinnuástand en annars staðar á Norðurlöndum og uppgangur væri ekki síður í fámennari byggðarlögum en í fjölmenni. Mönnum lék forvitni á að kanna skipan sveitarstjórnar og eignarhald á atvinnutækjum og hvers virði fyrirkomulag þeirra mála væri. Leiðangrinum var valið að helsta leiðarmarki að kanna samhengi milli félagsskapar og lífskjara í víðum skilningi. Nemendur skiptu lið í mars og völdu sér afmörkuð athugunarefni. Fólkið var á Íslandi í júnímánuð, kom til Keflavíkur á sjómannadaginn og hvarf á braut viku eftir kosningar. Fyrstu vikuna var almenn kynning á landsmálum í Reykjavík. Á leið austur á land voru málefni Sunnlendinga kynnt. Eystra skiptist liðið á byggðarlögin frá Djúpavogi norður í Borgarfjörð, en kennaraliðið var út af fyrir sig og hlutaðist ekki til um vinnubrögð nemenda; fylgdist þó með. 17. Júní var haldið til Norðurlands og dvalist á Akureyri og við Eyjafjörð fram á Jónsmessu. Þaðan var haldið aftur til Reykjavíkur og notaður dagur í Austur-Húnavatnssýslu til kynningar á Blönduvirkjunarmálinu og á þorpunum tveimur, Blönduósi og Skagaströnd. Síðustu vikuna dvaldist fólkið í Reykjavík og samdi skýrslur um athugunarefni sín. Hafa þær verið endurbættar og eru nú fáanlegar hjá stofnuninni. Skrifa má eftir þeim til:


Nordplan
Skeppsholmen
s-111 49 Stockholm

 

Verkefni hópanna

Þannig var skipt liði, að eitt gengið fjallaði sérstaklega um héraðsstjórn; annað um samvinnufélög, það þriðja helgaði sig málefnum ungmenna; það fjórða vildi átta sig á því, hvers virði almenn tengsl meðal fólks væru og hafði fyrst lítið sjávarþorp til athugunar og síðan Akureyri til samanburðar: fimmta gengið kynnti sér hvernig stjórnað væri nýtingu auðlinda landsins; sjötta gengið vildi gera sér grein fyrir því, hvað Íslendingar vildu virða með lífi sínu, félagsskap og athöfnum, og svo var einu gengi ætlað að lýsa gerð þjóðfélagsins í stórum dráttum og hvernig áhrifamáttur dreifðist um það. Í nóvember var fjallað um skýrslurnar endurbættar og þær hafðar til hliðsjónar, þegar fjallað var um önnur mál. Í marsmánuði 1978 hafði nokkrum tíma verið varið til að undirbúa leiðangurinn og að þjálfa fólk til samstarfs með svokölluðu hópefli. Þá var einnig kynnt saga skipulagsmála og tök stjórnvalda á Norðurlöndum á atvinnumálum og ýmsum öðrum skipulagsviðfangsefnum tímabilið eftir stríð. Í nóvember voru efnistökin dýpkuð, ef svo má segja. Mikið var fjallað um það, sem kallað var öngþveiti í skipulagningu þjóðfélagsins. Var það ríkt í huga nemenda og raunar kennara einnig, að stétt þeirra réði ekki við viðfangsefni sín og að ekki stefndi í átt til þess farsældarríkis, sem menn höfðu til skamms tíma þóst vera á leið mót með skipulegum tökum. Síðustu námsvikunni um haustið var varið til að skyggnast fram í tímann og fjall um horfur og vonarlönd framtíðarinnar, eins og birst hefur í ýmsum ritum síðustu árin. Einnig var horft til framandi þjóðfélaga nútímans til að losa um alla vanahugsun.

Sá, sem hér segir frá, var í kennaraliði stofnunarinnar þetta árið, og voru þá starfandi 5 prófessorar með býsna ólíkar forsendur í menntun og starfi. Merkilegt var að kynnast, hvað þjóðfélög Norðurlanda er um margt ólík, þó að annað mætti ætla. Til að mynda er hugsunarháttur Norðmanna og Svía, að því er varðar skipulag þjóðfélagsins, í ýmsu ólíkur. Svíar hafa um aldir unað sterku stjórnarfari og vænta enn góðs af því á tímum lýðræðis. Þó hefur ótvírætt orðið þar hugarfarsbreyting síðan fyrir 15 árum, þegar efnt var til stofnunar Nordplan og stofnuninni valið aðsetur í höfuðborg þess ríkis, sem þóttist framsæknast í skipulagsmálum í þágu alþýðu manna, því nú er eins og menn viti ekki vel, hvers biðja ber. Þessa gætir þó að sjálfssögðu lítið í orðum stjórnmálamanna. Þeir rækja eftir sem áður fornt hlutverk og segja: Komið til mín . . . – Norðmenn kunna vissulega vel að meta trausta stjórn, en það er eins og viðmiðun þeirra sé önnur en Svía. Þeir leyfa sér frekar að hafa einstök og um leið ólík byggðarlög að sjónarhóli í ráðum sínum og vænta þess, að það leiði til þjóðarheilla, þegar öll góð ráð koma saman. Svo er annað mál og merkilegt rannsóknarefni, að hvaða leyti ólíkur hugsunarháttur mótar í reynd athafnir og skipulag.

 

Ólíkar aðstæður

Fleira er framandi Íslendingi á Norðurlöndum en það, hvað Svíum er tamt að beita reglum undanbragaðlaust. Kom það t.d. fram á þeim 5-6 námsdögum, sem varið var til dvalar í Finnlandi. Í Helsingfors kom á fund Nordplan-gestanna ungur kandídat frá háskólanum í Tammerfors. Hann vann ásamt kandídötum úr ýmsum greinum þjóðfélagsvísinda við nokkra af háskólum landsins að því að leita ráða til að fá fólk í sveitum landsins til að mynda með sér félagsskap og beita afli samtaka sinna íþágu sveitarinnar. Nefndi hann dæmi um sveitarfélag með um 5 þúsund íbúa. Þar höfðu þessir ungu kandídatar farið út í fjórar sveitir byggðalagsins, þar sem áttu heima 200-500 manns í hverri sveit og fengið fólkið til að velja sér forystu í þágu eigin mála, en áður var þar enginn staðbundinn félagsskapur. Þetta hafði gefist vel og borist spurnir um það til annarra héraða og örvað fólk til að gera eins. Ég hafði ekki komið inn í skóga- og vatnahéruð Finnlands og fannst, þegar ég heyrði um þetta samtakaleysi fólksins eins og ég hyrfi inn í myrkviði miðalda. Nordplan-fólkið hafði á Íslandi kynnt sér málefni þriggja sveita á Suðurlandi og hafði komið í Litlu-Sandvík í Flóa, að Árnesi og að Skógum. Ég leyfði mér því að setja upp fyrir nemendur það dæmi, að ungir kandídatar frá Háskóla Íslands færu austur í Sandvík, í Árnes og að Skógum, kölluðu sveitarfólk á fund sinn og hvettu það til að mynda með sér samtök. Það myndi þykja heldur broslegt uppátæki að ætla nú að fara að kynna Flóamönnum, Hreppamönnum og Eyfellingum hugmyndir um gagnsemi félagsskapar eins og eitthvert nýmæli – þeir hefðu komið hundrað árum of seint. Starfsmaður Skipulagsstofnunar sænska ríkisins í Stokkhólmi, sem þarna var meðal nemenda, sagðist nú ekki geta séð, að ástandið á landsbyggðinni væri hótinu skárra en í Finnlandi; þar væri sama myrkrið og drunginn í félagsmálum.

 

Glöggt er gests augað

Skýrslur þær, sem nemendur sömdu, þóttu taka fram skýrslum undangenginna árganga í því, hvað þar komu vel fram aðalatrið þeirra mála, sem gengin höfðu til umfjöllunar. Nemendur létu af því, hve nauðsynleg vitneskja hefði verið aðgengileg: þeir hefðu hlýtt á greinargóð erindi og átt viðtöl við viðræðugóða forsvaramenn byggðarlaga og verið svarað greiðlega. Skýrslurnar voru ekki samdar með það í huga, að þær ættu erindi við Íslending; þær voru samdar til æfingar og til notkunar á Norðurlöndum. Forvitnilegt getur samt verið fyrir Íslendinga að kynna sér, hvaða skilning gestirnir lögðu í athuganir sínar.

Auk þeirrar kennslu, sem hér hefur verið sagt frá, fer fram hjá Nordplan, vísindaleg þjálfun fólks, sem stefnir að doktorsprófi í skipulagsfræðum. Ekki hefur enn nokkur Íslendingur sótt það nám. (10 hafa hins vegar sótt hið almenna framhaldsnám). Það er sótt af fólki víða um Norðurlönd. Stunda menn það mest heima fyrir, en koma saman ásamt kennurum stofnunarinnar 5-6 sinnum á ári þrjá daga í senn í ýmsum háskólaborgum og er þá fjallað um þau mál sem staðarmenn kunna best skil á. Í þriðja lagi fara fram rannsóknir í nafni stofnunarinnar. Sá þáttur starfsins hefur þó verið vanræktur, en nú er ætlunin að efla hann verulega, ef norræna menningarmálastofnunin fellst á það og útvegar fé eins og til þarf.

Sveitarstjórnarmálum 39 (1979) 221-3