Í 14. tbl. 1984 skýrði undirritaður í grein Áhrif beitarþunga á arðsemi á Auðkúluheiði  með dæmum, sem sýndu m.a. hvernig arður á á eykst, þegar fækkað er í hjörðinni, hversu mikið arður hjarðarinnar minnkar við að fækka á fjalli um einn tíunda og einn fimmta og hvernig það fer eftir því hversu þröngt hefur verið í landi, og hvort áburður borgi sig. Dæmin voru samkvæmt tilraunum á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Í ofangreindri grein í Frey kom fram, að málinu væri langt frá því að vera lokið, sams konar mat vantaði vegna beitartilrauna í Kelduhverfi, í Álftaveri, í Kálfholti í Holtum, í Sölvholti í Flóa, á Hvanneyri og á Hesti í Andakíl og á Eyvindardal. Til þess eru gögn, en samt var verkinu hætt í fyrravor.

Beitarrannsóknir hafa verið umfangsmesta rannsóknarverkefni á sviði landbúnaðar hér á landi og meira að segja talið, að um væri að ræða umfangsmestu beitarrannsóknir í  heiminum. Þess vegna er brýn ástæða til að gera lesendum Freys grein fyrir því, hvernig dregist hefur árum saman að fjalla um beit sem hagrænt og félagslegt fyrirbæri. Ég kem þar sjálfur nokkuð við sögu, svo að lesendum kann að sýnast greinargerðin fullpersónuleg, en ef lesið er til enda, vænti ég þess að skiljist, að kjarni málsins er óháður persónum.

Það er vissulega vel til fundið, að stofnað var til umfangsmikilla rannsókna á hagabeit hér á landi, enda hefur fátt verið eins mikið tilefni til vandlætingar með þjóðinni og sauðfjárbeit. Menn hafa deilt mikið um það, hvað hafi spillt landi allt frá upphafi byggðar og hvernig megi bæta úr og nýta landið hæfilega. Vísindaleg rannsókn á beit hlaut að vera vænleg leið til að útkljá slíkar deilur.

Haustið 1973, þegar verið var að leggja drög að rannsóknarverkefninu, var ég staddur í Noregi við fræðistörf og skrifaði aðstoðarmanni landbúnaðarráðherra, sem vann að málinu, og vakti athygli á, að á beitarmálum væru hagrænar og félagslegar hliðar, sem ég væri búinn undir að sinna og vildi gefa mig að. Boði mínu var ekki sinnt. Enn var ég í Noregi í fræðilegum erindum árið 1976 og skrifaði forstjóra Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, en stofnunin hafði þá tekið beitarverkefnið að sér, og óskaði eftir starfi við stofnunina og benti þar sérstaklega á beitarmálin sem verkefni. Forstjórinn kvaðst vilja leggja til við stjórn stofnunarinnar, að ég yrði ráðinn, en skrifaði mér skömmu síðar, að stjórnin hefði ekki talið fært að fylgja því eftir.

Næst sneri ég mér til stofnunarinnar í starfsleit sumarið 1982 og varð þá úr, að ég yrði þar í hálfu starfi um óákveðinn tíma frá desember og stóð það til vors 1984. Aðalviðfangsefni mitt var beitarverkefnið, þótt ég sinnti öðrum verkum á sérsviði mínu, þjóðfélagsmálum. Þá var ég látinn hætta í miðjun klíðum, en stjórn stofnunarinnar lét þess getið síðar um sumarið, að æskilegt væri, að ég héldi verkinu áfram síðar, ef fé fengist til þess. Mér er enn ekki kunnugt um, að ákveðið hafi verið með framhaldið.

Þegar svo var komið í fyrravor, leitaði ég til manns, sem mér þykir gott að ræða við, þegar mér líkar heimurinn illa. Hann sér málin undir sjónarhorni alda, en ekki ára, og þá verða erfiðleikar, fálm og vitleysa að dægurmálum, sem líða hjá. Hann kvaðst líta svo á, að það væri ekkert sérstakt með þetta beitarrannsóknarverkefni, hvernig að væri staðið. Svona hefði það alltaf verið hér, að menn færu af stað fullir áhuga, en áhuginn dvínaði fljótt og áður en verkefninu væri lokið og niðurstöður kunnar, væri komið nýtt mál á dagskrá, sem tæki hug manna og þannig væri skilið við fyrra verkefni.

Það er alvarlegt mál, ef rétt er lýst sem ætla má, og hefði mátt ætlast til annars af þeim greindu og gegnu mönnum, sem stjórna rannsóknarmálum, og  víst væri óskandi, að menn tækju skynsamlegar á málum, án þess að þyrfti að gera opinbert mál úr, en samkvæmt því, sem þessi lífsreyndi maður hafði um málið að segja, er hér um eins konar þjóðarlöst að ræða og því rétt að gera þjóðinni grein fyrir.

Það er engin afsökun fyrir því stjórnleysi, sem hér hefur komið fram, að fjárhagur leyfði ekki að halda áfram, þar sem málið komst þegar  á dagskrá haustið 1973 með áðurnefndu bréfi til aðstoðarmanns landbúnaðarráðherra. Kostnaður við hagræna og félagslega úttekt á verkefninu er ekki nema brot af heildarkostnaði, en án þeirrar úttektar er því ekki svarað, sem fólk vill helst vita.

Vel má vera, að menn hafi takmarkaðan skilning á því, hvernig beitarmálið er í senn hagrænt og félagslegt mál og að það sé á færi sérfræðinga á þessum sviðum að álykta um það, svo að almenningur og stjórnvöld geti haft gagn af.

Úttektin á hinni hagrænu hlið beitarverkefnisins stóð þannig í fyrravor, þegar verkið var lagt til hliðar, að til viðbótar við það, sem sagði frá í greininni í Frey um Auðkúluheiði, lágu fyrir útreikningar varðandi tilraunir á öðrum stöðum og línurit byggð á þeim, en ekki var það langt komið, að farið væri að búa reikningslegar niðurstöður í aðgengilegri mynd. Ekkert hafði þá verið unnið úr tilraunum með blandaða beit.

Þetta varðar tekjuhliðina, eins og hún snýr að þeim sem nýta sumarlöndin, oft sameiginlega. Fyrir liggja hugmyndir um það, hvernig meta megi kostnaðarhliðina, eins og hún snýr að framleiðendum (bændum) sem einstaklingum, en því hefur ekki verið sinnt frekar. Sömuleiðis hafa verið bollalagðar aðferðir til að auðvelda upprekstrarfélögum að ná samkomulagi um nýtingu lands. Er þar um að ræða aðrar reglur um atkvæðagreiðslu en menn hafa átt að venjast. Til eru álitleg félög til að reyna hinar nýju reglur í og fá þannig tækifæri til að rannsaka gildi þeirra.

Beitarmál eru þjóðfélagsmál. Rannsókn á þeim verður ekki viðhlítandi nema beitt sé sérfræði í málum landbúnaðar og þjóðfélags, hagrænum og félagslegum.

Frey 81 (1985) 472-3