Pétur Pétursson og Jónas Elíasson hafa mikið undir í bók sinni Trú og vald í mannkynssögunni (2021). Þar nýtur menntunar þeirra, Pétur guðfræðingur og félagsfræðingur og Jónas verkfræðingur.  Saga þeirra hefst að fornu í Egyptalandi, ríki, sem reisir hag sinn á áveitum í Níl, en þá kemur sér betur að hafa sterka stjórn með ein lög og rétt og einn sið, sem er haldið uppi með eingyðistrú.

Þeir rekja sögu viðleitni til slíkrar stjórnar einvalds og eingyðis í þeim heimshluta. Hér nýtur sín verkfræði Jónasar og guðfræði Péturs (gamlatestamentið). Svo berst sagan til Evrópu, þar sem kirkjan undir stjórn í Róm vinnur um aldir að margþættri samræmingu laga. Eitt með öðru er það að færa refsingu úr höndum ættarinnar til ríkisins. Í því skyni voru vopn kölluð inn á Íslandi á 16. öld, eins og annars í ríki dana. Þá fékk ríkið einkarétt á ofbeldi með vopnavaldi. Íslendingar fengu reyndar að gjalda nýfengins vopnleysis og varnarleysis árið 1627 með ránum manna, sem gerðu út frá Alsír.

Í hinu nýja réttarfari einveldis konungs og kirkjuvalds var hefnd ekki ákveðin af skylduliði þess, sem átti sök, heldur samkvæmt almennum ákvæðum laga. Höfundar minna á ákvörðun alþingis um ein lög og einn sið (árið 999), og um það hafi munað verulega í réttarfari. Síðan kemur fram hjá þeim, hvernig kirkjan beitir sér fyrir almennum rétti og þá miklu frekar en konungur. Þá kom að því, að konungur tók sér einkarétt til ofbeldis, en höfðingjar voru afvopnaðir (seint á 16. öld). Þeir skýra samspil almenns réttarfars og kristni. Þeir telja helgi valdsins hafi haldist þrátt fyrir skýr ákvæði um aðgreiningu veraldlegs valds og trúarbragða og enda þótt þegar í tíð upplýsingar á 18. öld sé farið að tala um afhelgun valds.—Umfjöllun Jónasar og Péturs nær ekki til framrásar heimsvaldsins á líðandi stund.

 

Höfundarleit Njálu í nýju ljósi

Það kann að þykja óvænt, að höfundar tengja ritun Njálu því réttarfari, sem kemst á á Íslandi með atbeina kirkjunnar. Þeir benda á, að ritun Njálu sé mikið og dýrt verk, og telja, að tilgangurinn með sögunni sé að kenna með dæmum, hvernig illa fari, þegar lög eru óvirt til að útkljá deilumál, heldur ráði afl og geðþótti. Í því sambandi má benda á, að hingað kom fyrir nokkrum árum David Friedman, fjölmenntaður maður frá Kaliforníu, og flutti erindi um Njálu í Háskólanum. Friedman hélt því fram, að Njála væri dæmasafn um það, til hvers það leiði að óvirða lög, en hann setti ritun Njálu ekki í það samhengi, sem Jónas og Pétur gera, á það minntist hann ekki. Þeir segja, að leitin að höfundi Njálu verði leit að þeim, sem vildi flytja þann boðskap, sem að framan greinir, að best fari, að einn réttur ráði í landinu, og hafði efni á því, og það hafi verið kirkjan.

Það er sjaldan, að svo margbrotið og djúpstætt rit sé samið hér á landi.

Morgunblaðinu, 3. júní 2022