Flutningur Arnars Jónssonar í Útvarpinu á Sjálfstæðu fólki var list. Halldór Laxness skýrði tilurð sögunnar í Úngur eg var 1976. Umræðan um bókina núna í sambandi við útvarpsflutninginn hefur ekki tekið tillit til skýringar hans. Í grein í Morgunblaðinu 1987 reyndi ég að hreyfa við bókmenntafræðingum að vinna úr skýringu Halldórs, sbr. Bókmenntasögur mínar 2012.

Sigurjón Björnsson sálfræðingur samdi bók um leið Gunnars Gunnarssonar til skáldskapar í samráði við hann. Enn er ástæða til að semja bók um tilurð skáldsögunnar Sjálfstætt fólk og yfirleitt um leið Halldórs til skáldskapar, í ljósi þess sem fram kemur í Úngur eg var og í Í túninu heima (1975).
Skyldi annars vera til sá listamaður, sem lyftir Dalalífi Guðrúnar frá Lundi með lestri sínum líkt og Arnar lyfti Sjálfstæðu fólki?

Morgunblaðinu (Velvakandi), 31. október 2020