Í október kom út Ársskýrsla Búreikningastofu landbúnaðarins 1969. Hefur það aldrei komið fyrir áður svo mér sé kunnugt að svo skammt hafi liðið frá þeim tíma sem búreikningarnir lýsa til þess að niðurstöður þeirra eru birtar almenningi. Það sem ekki er minna um vert er, að búreikningum hefur fjölgað mikið frá því sem lengst af var, og munu aldrei hafa verið fleiri búreikningar færðir hér á landi en þetta ár eða 174. Ársskýrslan nær þó aðeins til 129 reikninga, en þá hafa verið felld úr 10 félagsbú, 14 bú bænda sem höfðu meira en 100 þúsund krónur í tekjur utan bús, 15 bú bænda sem höfðu meir en 100 þúsund í tekjur af öðrum búgreinum en nautgriparækt og sauðfjárrækt og 6 reikningar sem ekki þóttu hæfir til úrvinnslu. Má segja að miklar framfarir hafi orðið í búreikningamálum landbúnaðarins síðustu árin. Er þá ekki aðeins um það að ræða, að útgáfa á niðurstöðum gengur greitt fyrir sig og þeir eru fleiri en áður, heldur fer nú fram fjölþættari úrvinnsla en áður var, og má þakka það nútíma reikningstækni. Ekki hafa þessar framfarir orðið fyrir ekki neitt. Fjárveitingar til Búreikningastofu landbúnaðarins voru áætlaðar á þessu ári hátt í tvær milljónir króna. Jafnar það sig með um 10 þúsund krónur á bú sem reikningar eru færðir fyrir.

Þegar ráðist var í það að bæta starfsskilyrði búreikningastarfseminnar eins myndarlega og gert hefur verið var það með þrennt í huga. Bændur áttu að fá sem nýjust gögn í hendurnar, búreikningarnir áttu að koma svo tímanlega og vera svo margir að við þá mætti styðjast við verðlagningu landbúnaðarafurða, og með starfseminni átti að afla gagna sem kæmu að haldi við leiðbeiningaþjónustu Búnaðarfélags Íslands. Ef hér væri aðeins um það að ræða að færa búreikninga fyrir einstaka bændur, væri um að ræða mjög dýra vinnu, 10.000 krónur á búreikning svara nefnilega til þess að hver bóndi sem færir búreikning notaði til færslu og uppgjörs klukkutíma hvern virkan dag árið um kring, ef hann færði sjálfur, og reikna ég honum þá kaup jafnhátt getu búreikningabúanna til að greiða laun, en hún reyndist 33 kr. á klukkustund á árinu. Yfirburðir þeirra vinnubragða, sem nú eru notuð, eru því ekki þeir að færslan verði ódýr, heldur fjölþætt úrvinnsla.

Eins og vill brenna við hvarvetna þar sem búreikningar eru haldnir eru búreikningabúin ekki rétt úrtak af öllum búum á landinu. Meðalbú á landinu er trúlega heldur minna en meðalbúreikningabú talið í ærgildum, þó að ekki skakki þar miklu, og heldur fleiri reikningar berast tiltölulega af Vestfjörðum og Austfjörðum en af Suðurlandi. Hvorugt getur þetta rýrt gildi niðurstaðnanna verulega. Ekki er sagt neitt um það í skýrslunni hversu margir búreikningabændanna búa með konu og hversu margir eru án heimilisaðstoðar, en telja má víst að fátt rýri tekjuöflun einstakra bænda eins mikið og kvenmannsleysið, enda þurfa þeir að bæta á sig inniverkum og verða að kaupa alla aðstoð úti við.

Árskýrslan greinir skilmerkilega frá heildarkostnaði og heildartekjum og skiptingu tekna og kostnaðar á einstaka liði. Þar kemur vel fram hversu umfangsmikill viðskiptabúskapur er rekinn hér á landi og hversu lítið er heimafengið af því sem til búskapar þarf. Velta upp á 616 þúsund skilar bóndanum, konu hans og börnum undir 16 ára aldri, ekki nema 171 þúsundi fyrir fyrirhöfnina og eigið fé í búskapnum. Hér munar alls ekki mest um vélarnar, því þær taka ekki nema liðlega 10% af veltunni. (Er þá ekki talinn sá kostnaður sem vélaumferð um túnin veldur með lélegri sprettu). Stærsti kostnaðarliðurinn er kjarnfóður á kúabúum og blönduðum búum, en áburður á sauðfjárbúum. Síðan skipta áburður og kjarnfóður um sæti. Í þriðja sæti er ýmis þjónusta á kúaabúum, þar með talinn flutningskostnaður, en á öðrum búum vélakostnaður. Þó að svo virðist sem ekki séu spöruð þau rekstrarföng sem talin eru hagkvæmust og afkastamest í nútíma búskap, er útkoman, þegar allur kostnaður hefur verið reiknaður, ekki eins góð og menn hafa gert sér vonir um að gæti orðið. Geta búanna til að greiða laun var að meðaltali 33 krónur á klukkustund eins og þegar hefur verið tekið fram, og hafa eigandanum þá verið reiknaðir 6,5% vextir af eigin fé. Ekki verður dreginn beint af skýrslunni lærdómur um það hvað veldur þessari dapurlegu staðreynd.

Aftast í skýrslunni er fróðlegur útreikningur á framleiðslukostnaði á heyi. Þar er mönnum sá vandi á höndum að verðleggja rétt vinnu og vexti af eign sem þarf til heyskapar. Á þessu hefur fundist allgóð lausn, nefnilega sú að reiknað er hvernig framleiðslukostnaðurinn breytist með vinnulaunum á klukkustund og vöxtum af eign. Það er svo misjafnt hvað rétt er að verðleggja vinnu manna við heyskap á. Ef verið er að leita að sanngjörnu heyverði, þannig, að bændur hafi í tekjur af heyskap álíka mikið á vinnustund og tilgreindar stéttir hafa í tímavinnu, má einfaldlega setja taxta þessara stétta inn í dæmið. Ef verið er að reikna hvort það borgi sig fyrir tiltekinn bónda að stunda heyskap í stað þess að kaupa hey, má reikna framleiðslukostnaðinn með því að áætla hvað bóndinn fengi mikið í annari vinnu og bera útkomuna saman við verð á heyi. Það vekur athygli að í töflu þeirri sem sýnir framleiðslukostnað við breytileg vinnulaun á klukkustund, er aldrei farið niður í þau laun sem menn hafa á búreikningabúum að meðaltali, hvað þá lægra, heldur er lægsta talan miðuð við 40 kr. á klst. Mér sýnist þetta lýsa nokkurri feimni við dapurlega staðreynd. Í þessu felst að sjálfsögðu enginn dómur að slík laun séu sanngjörn. Eins er það einkennilegt að ekki er farið lengra niður með vexti en í 3%, þó að vitað sé að verðrýrnun gjaldmiðilsins greiði vextina fyrir menn þó að farið sé upp í 10%. Raunverulegir vextir munu því oft og tíðum vera nærri 0. Með þessu er ekki heldur verið að segja að vaxtagreiðslur geti ekki verið mörgum þungbærar, ef greiðslugetan er lítil. Án verðrýrnunar gjald-miðilsins yrðu vaxtagreiðslur og afborganir mönnum enn þungbærari, að öðru óbreyttu.

Talsverð fyrirhöfn hefur verið lögð í að reikna út hvernig vinna við búin breytist með árstíðum, við kúabú, sauðfjárbú og blönduð bú, og einnig eftir bústærð. Er allt þetta mjög fróðlegt, kannski ekki svo mjög fyrir bændur, sem munu þykjast hafa vitað þetta margt áður, heldur fyrir aðra sem vilja hlutast til um landbúnaðarmál. Þarna sést mjög greinilega hvað árstíðamunur á vinnu er miklu meiri við sauðfjárrækt en við nautgriparækt. Á síðustu árum hafa hagfræðingar í auknum mæli velt því fyrir sér að hve miklu leyti „framfaraskíman sé skröksaga ein.“ Menn hafa þóst sjá það, að vinnuálag hefur aukist undanfarna áratugi í þeim löndum þar sem efnahagslegur vöxtur hefur þó verið hvað mestur, eða að minnsta kosti ekki minnkað. Þá telja menn með að ferðir á vinnustað hafi lengst, dauður tími vegna árstíðasveiflna hefur mikið til horfið og menn leggja meira á sig utan vinnutíma til að fylgjast með í starfsgrein sinni. Mér kemur þetta í hug þegar ég sé að sauðfjárbændur hafa svo til jafnmikið fyrir vinnu sína á klukkustund og kúabændur, en fjárbændur hafa talsvert minna upp úr sér samanlagt. Árstíðasveiflan við fjárbúskapinn stöðvar þá af, þannig að þeir og þeirra lið skila minni vinnu árið um kring, en þó meira á mánuði þegar mest er, á vorin. Hvort þetta fer saman með að færra sé á heimili á fjárbúunum er ekki vitað. Árstíðasveiflan á vinnuþörfinni er eitthvert merkasta einkenni búskaparins.

Súlurit 3.3, 3.5 og 3.7 sýna hvernig vinnutími á grip breytist með gripafjölda. Þar kemur fram hin alþekkta reynsla, að vinnumagn á grip minnkar með vaxandi gripafjölda. Það er þó fullmikið sagt að kalla súluritin áhrif bústærðar, fjárfjölda og kúafjölda á vinnumagn eins og stendur í skýrslunum. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að neita því, að vinnumagn breytist með bústærð og fyrir áhrif bústærðar, en súluritin sýna meira en þessi áhrif. Ef það er satt, sem sagt er, að þeir búreikningabændur, sem hafa stærst búin, hafi líka bestan tíma til að tala við gesti, þykir mér rétt að spyrja sig hvort það kunni að vera svo að þeir hafi stærst bú sem hafa stór bú best á valdi sínu, en hinir hafi heldur hikað við að bæta á sig, þar sem þeir hafi fengið sig fullreynda af því sem þeir höfðu. Súluritin sýndu þá ekki aðeins áhrif bústærðar á vinnumagn, heldur áhrif búmennsku bændanna á vinnumagn, en búmennskan birtist í bústærðinni. Allt orsakasamband er hér sem sagt æði flókið og kemur fleira til. Það vekur athygli í súluritunum hvað mikill munur er á vinnumagni innan sama bústærðarflokks. Þannig er vinna á ærgildi í bústærðarflokknum 250-299 ærgildi minnst 8,7 klukkustundir eða álíka mikil og hún er að meðaltali í flokknum 800-899 ærgildi, en mest 22,9 tímar. Vinna á kind er minnst 3,3 stundir á þeim búum sem hafa færra en 50 fjár, en mest 24 stundir. Ekkert bú með yfir 350 fjár kemst niður fyrir 5 stundir á kind, en hæst fara þau í 10,0 stundir.

Til bóta má það teljast frá því sem var áður, að reiknað er framlag einstakra búgreina, til fastakostnaðar og sameiginlegs kostnaðar. Framlag búgreinar er þá reiknað með því að draga allan breytilegan kostnað sem verður sérstaklega vegna búgreinarinnar frá framleiðslutekjum búgreinarinnar. Afgangurinn fer þá til að greiða fastakostnað og óskiptan kostnað. Það er nokkurt matsatriði hvernig á að skipta kostnaðinum, en í skýrslunni er fastur og óskiptur kostnaður vinna, vextir, fyrningar, viðhald útihúsa, sími, póstur og pappír. Samanburð á framlagi tveggja búgreina á einu búi má þá nota til að meta hvort heppilegt kunni að vera að breyta hlutfallinu á milli búgreina. Einnig geta bændur borið saman framlag tiltekinnar búgreinar hjá sér við meðalframlag eins og það er í skýrslunni. Að sjálfsögðu vita menn ekki þar með allt sem til þarf til að meta slíka tilfærslu, samdrátt eða aukningu í búgrein, en þetta er sá skásti leiðarvísir sem menn geta haft út úr búreikningum.

Mér sýnist höfundur skýrslunnar hafa fallið í þá freistingu að draga ályktanir af framlagsstærð sem enginn fótur er fyrir. Á bls. 48 segir þar: „Meðalframlegð á kind er 847 kr. og á vinnustund 81 kr. Hver veturfóðruð kind gefur því 847 kr. upp í vinnu, vexti og fyrningar. Ef hér væri um eitt bú að ræða, mætti segja, að ef húsrými, land og vinna væru ekki fullnýtt, gæfi hver viðbótarkind 847 kr., þar til fastur kostnaður væri fullnýttur. Hver viðbótarklukkustund gæfi þá 81 kr. í fjölskyldulaun.“

Á bls. 65 segir: „Breytilegur kostnaður á fóðureiningu er að meðaltali 3,12 kr., þar af áburður 2,24 kr. Ef vinna, vélar og tún væru ekki fullnýtt, mundi hver viðbótar heyöflun kosta 3,12 kr. á fóðureiningu að meðaltali.“ Hér er hvort tveggja, að fyrirvari ályktunarinnar er hæpinn og ónákvæmur og sjálf ályktunin um að viðbótarframlag verði jafnt meðalframlagi getur ekki verið rétt nema fyrir algera tilviljun. Búfræðingum á að vera öðrum fremur kunnugt um lögmálið um minnkandi vaxtarauka sem gerir vart við sig á flestum ef ekki öllum sviðum framleiðslu og það áður en einstakir framleiðsluþættir eru fullnýttir. Ekki er trúlegt að þess séu víða dæmi að minnkandi vaxtarauki geri ekki vart við sig við heyskap hér á landi og enn síður við sauðfjárrækt. Það er líka alger tilviljun ef meðalframlag er jafnt framlagi á jaðrinum (viðbótarframlagi) og frekar ótrúlegt annað en jaðarsframlagið sé talsvert lægra. - Í skýrslunni er notað orðið framlegð um framlag. Ég veit ekki hvernig það er hugsað að það sem er lagt fram verði að framlegð en ekki framlagi eins og málvenja er. Ég geri það að tillögu minni að þeir sem af einhverjum ástæðum vilja nota þetta orð, ræði málið fyrst við málhaga menn, t.d. starfsmenn Orðabókar í Háskólanum.

Í skýrslunni ber nokkuð á ónákvæmu orðalagi. Allvíða er bústofn lagður í kúgildi, en hvergi sagt hvernig sauðfé er lagt í kúgildi. Það mun þó vera 20 fjár í kúgildi. Sagt er að sumarið 1969 hafi verið mikið óþurrkasumar, þó að kunnugt sé að fjöldi bænda hafi varla lifað hagstæðara tíðarfar en það sumar. Súlurit 3.1. og 3.2. og tafla 3.4, 3,5 og 3.6 sýna vegið meðaltal vinnu eftir mánuðum, en ekkert er sagt hvernig meðaltalið er vegið. Á bls. 33 „Fjölskyldulaun og vextir af eigin fé eru 171.408 kr. að meðaltali.“ Á bls. 63 segir í yfirliti („Samandregnu yfirliti“): „Niðurstöður rekstrarreiknings sýna að meðal fjölskyldulaun eru 171.408 kr.“ Þarna er ekki lengur talað um vexti af eigin fé, en talan er óbreytt. Í hagfræðimáli er reynt að láta laun ná til þóknunar fyrir vinnu, en tekjur er víðtækara hugtak. - Oft er kúm og kúgildum ruglað saman eins og það sé sama stærðin. Vinnu við mjólkurframleiðslu er t. d. jafnað á kúgildi, en útkoman kölluð vinna á kú. Á bls. 20 er vinna á kúgildi árið 1967 sögð 181,3 klst., 178,0 klst. 1968 og 166,8 klst. árið 1969. „Vinna hefur lækkað um 1,35 klst. frá 1967 eða 7,4%.“ Rétt er 14,5 % klst. á kúgildi og 8.0%. (Aðrar samlagningar-, frádráttar eða deilingarvillur hefi ég ekki rekist á nema eina, sjá síðar). Í yfirliti á bls 66 segir: „Vinna á kú var 181 klst. árið 1967 en 166,8 klst. árið 1969.“ Engin sérstök vinnuskýrsla er haldin fyrir kýrnar og önnur geldneyti, og verður því vinna á kú ekki reiknuð öðru vísi en með því að jafna allri vinnu við nautgripi á kýrnar, og fæst þá árið 1969 202,5 stundir á kú.

Í inngangi (bls. 5) er sagt frá því hvernig búum er skipt í kúabú, sauðfjárbú og blönduð bú eftir hlutfallslegri skiptingu ærgilda á nautgripi og sauðfé. Eru þau mörk, sem þar eru sett, trúlega heppileg. Síðan segir, áður en hugtakið ærgildi er frekar skýrt: „Fyrir þá, sem ekki skilja hugtakið ærgildi, mætti skýra flokkunina með því að nota brúttótekjur í stað ærgilda og segja, að sauðfjárbú séu þau bú, sem hafa 70% eða meiri brúttótekjur frá sauðfjárrækt. Blönduð bú verða þannig aldrei með meira en 70% af brúttótekjum frá annað hvort sauðfjárrækt eða nautgriparækt.“ Þessi skýring er bæði óþörf og röng. Brúttótekjur á ærgildi eru alls ekki jafnmiklar frá sauðfé og nautgripum á hverju búi. Í framhaldi af þessu segir á bls. 19: „Eins og áður er getið eru blönduð bú samsett bæði af sauðfé og nautgripum , en þó þannig, að brúttótekjur eða ærgildi annarrar búgreinarinnar er ekki meira en 70% af hinni.“ Hvernig getur þetta farið saman?

Á bls. 30-32 er lýst efnahagsreikningi. Þar kemur meðal annars fram að skuldaaukning hefur orðið nokkur umfram eignaaukningu á árinu eða 15.000 kr. Síðan segir (bls. 32) „Skuldaaukning er lægst á kúabúum eða 12.554 kr., en eignaaukning 14.850. Á blönduðum búum er skuldaukning 38.298 kr. en eignaaukning aðeins 12.810 kr. Á sauðfjárbúum er skuldaaukning 51.894 kr., en eignaaukning 35.536. Skuldaaukning umfram eignaaukningu er mest á blönduðum búum eða kr. 23.448 kr. (rétt sýnist vera 38.298/12.818=25.488), en á sauðfjárbúum 16.358., en lægst á kúabúum kr. 2.296 kr..“ (Rétt sýnist vera að eignaaukning umfram skuldaaukningu hafi orðið 2.296 kr.). Síðan segir nokkru neðar: „Þessar niðurstöður sýna hins vegar, að verðlagningu búvöru hefur verið skipt réttilega í milli búgreina.“ Þetta sýnist nokkuð hæpin ályktun og yfirleitt að telja breytingar á efnahagsreikningi mælikvarða á það hvort verði hafi verið rétt skipt milli afurða og búgreina.

Ytri frágangur ársskýrslunnar, umbrot og prentun, er til fyrirmyndar. Hins vegar ber málfarið á skýrslunni hvorki íslenskri sveitarmenningu né skólamenningu glæsilegt vitni. Stafsetning og merkjasetning þætti vissulega fyrir neðan allar hellur í skóla, en skólareglur á því sviði eru raunar til lítillar fyrirmyndar. Verra er með málfarið, og get ég ekki gengið fram hjá þó að segja megi við náinn sé að eiga. Nokkur ádrepa kann að hjálpa mönnum á rétta leið. Helgi Péturss fékk bágt fyrir vont málfar þegar hann var nýkominn frá námi. Hann tók sig svo myndarlega á með lestri bókmennta Rangæinga og annarra bóka á gullaldarmáli að hann þótti skrifa hvað fegurst mál sinna samtíðarmanna. Á bls. 63 stendur (leturbreytingar mínar): „Samanburð á niðurstöðum verður því að gera með varúð, þar sem verið er að bera saman sauðfjárbú, sem staðsett er á sauðfjárræktarsvæði, við kúabú, sem staðsett er á jörðum vel fallin til mjólkurframleiðslu.“ Á bls. 32 eru kúabú staðsett á jörðum vel fallin til kúabúskapar. Á bls. 65: „Ástæður fyrir þessum mismun liggur fyrst og fremst í hærri breytilegum kostnaði.“ Neðar á sömu síðu: „Ef vinna, vélar og tún væru ekki fullnýtt, mundi hver viðbótar heyöflun kosta 3,12 kr. á fóðureiningu að meðaltali. „ Hvað mundu þá tvær heyaflanir til viðbótar kosta? Skammstöfunin þ.s. kemur víða fyrir og mun vera nýsmíði. Vinna hækkar og lækkar, en hvorki eykst né dregst saman. Leiðir það hugann að sögu af deilu tveggja ráðherra eða ráðherraefna sem ekki voru á eitt sáttir hvort kvensokkarnir hefðu hækkað eða lækkað. Svo er það „aðalástæða fyrir því, hvers vegna sauðfjárbúin sýna betri afkomu en blönduðu búin“ (bls.52), en á bls. 27 stunda menn stóran sauðfjárbúskap. Á bls. 15 eru bændur orðnir tvíefldir eða þríefldir og slá með orfum á útengjum og jafnvel á túni. Það hlýtur að vera hagræðing. Loks er hér lítil gestaþraut (bls 22): „Þar sem vinna við 1 kú er meira en vinna við 20 kindur og eftir því sem búin eru stærri er ærgildistala nautgripa hlutfallslega hærri heldur en ærgildi sauðfjár.“

Eins og hér hefur komið fram er allmikil fljótaskrift á Árskýrslu Búreikningastofunnar. Sumt af því má afsaka með því að skýrslan kemur út tímanlega. Mér sýnist að það mætti bæta úr frágangi og koma skýrslunni enn fyrr út árlega með því að láta ársskýrsluna aðeins ná til sundurliðaðra efnahags- og rekstrarreikninga fyrir öll bú og einstakar bútegundir, en láta annað efni bíða betri tíma og birta sérstaklega yfirlit yfir vinnumagn, samanburð á bútegundum og taka þá einnig með bú sem ekki eru hrein nautgripa- og sauðfjárræktarbú, og birta framlagsútreikninga á ýmsum sviðum. Segja má að með starfi Búreikningastofunnar sé nú lagður myndarlegur grundvöllur að gagnasöfnun og útreikningum sem nota má með hliðsjón af öðrum gögnum sem heimildir um afkomu bænda og framleiðslukostnað. Þessar niðurstöður þurfa að koma fyrir almennings sjónir sem hraðast. Hins vegar má vinna úr gögnum Búreikningastofunnar ýmislegt til stuðnings við leiðbeiningarstarfsemi Búnaðarfélagsins. Þar er mönnum meiri vandi á höndum og best að gefa sér góðan tíma ef leiðbeiningarnar eiga að vera traustar.

Frey 67 (1971) 9-14. [ritdómur]