Halldór Laxness gerir grein fyrir tilurð Sjálfstæðs fólks í minningabók sinni Úngur eg var (1976, Sagan af sögu kotúngsins, bls. 218-223). Þetta er spennandi frásaga af miklu sálarstríði. Enn merkilegri verður frásagan í ljósi minninga Halldórs í bókinni Í túninu heima, sem kom út árið áður. Ég hef lengi beðið eftir því, að bókmenntafræðingar sæju það samhengi, sem ég sá þar, og útskýrðu það, en ekki bólar á því, svo ég viti. Ég legg fyrir lesendur skilning minn á kveikjunni að sögunni af Bjarti í Sumarhúsum og ritstörfum Halldórs yfirleitt.

Ég rifja fyrst upp greinargerð Halldórs í Úngur eg var. Hún hefst haustið 1919 í Kaupmannahöfn, þegar Halldór las skáldsögu Hamsuns, Gróður jarðar, nýbirta, og ákvað að semja aðra sögu gegn boðskap Hamsuns. Umhugsunin um yrkisefnið hélt áfram í Helsingjaborg um haustið; “og lét mig friðlausan í allan vetur”, síðan um vorið á Suðursjálandi og veturinn eftir í Hornafirði, eins og þar segir:

Í öllu þessu vori og sólskini Danmerkur var mér einna líkast innanum mig einsog ég væri staddur í myrkum afhelli ..... Ég sat rúma þrjá mánuði í Austur-Skaftafellssýslu veturinn 1920-21, og var allan tímann að reyna að botna í þeirri hugmynd sem ég hafði gert mér að yrkisefni.”

Stríðið við yrkisefnið hélt áfram í Los Angeles áratug síðar (1930) og síðan á Íslandi:

Í Ameríku hætti ég í bókstaflegum skilníngi að vera skáld, hafi ég verið það áður nema í ímyndun sjálfs mín. En þriðja árið mitt í Los Angeles brá þó svo við í miðjum kæfandi sumarhitum Kaliforníu, að ég veit ekki fyren ég er enn einusinni búinn að negla mig niður við skrifborð og byrjaður á sögunni um þennan mann sem var bölvaður af guði og mönnum ..... Ekki var ég fyr heim kominn en ég var enn rekinn undan einhverjum innri forbænum í útkjálkabygðir landsins, heiðardali og afskekt sjávarpláss, stundum um hávetur í öllum veðrum, að leita að þessum déskotans manni, kotúngnum.”

Enn gerði hann misheppnaða tilraun í Berlín sumarið 1932, en svo kom lausnin:

Úr Berlín fór ég yfir Stokkhólm til Rússlands síðsumars og dvaldist þar eystra frammundir jól. Það var ekki fyren á gresjum Rússlands í frosti og hríð snemma vetrar, að augu mín sem áður voru haldin, lúkast upp fyrir bændaspursmálinu einsog Lenín setur það fram sem endurkast af stjórnmálabyltíngu daglaunamanna;”

Þó að kenningar Leníns hafi eytt heilabrotunum, sem Hamsun kom á stað, voru upptökin ekki þar:

En hér er tími til kominn að gera lokajátníngu um reynslu, sem uppáféll mig í bernsku og kynni að bera í sér frumglæði heilabrota minna um kotúnginn frá öndverðu. Það er sagan um fyrstu líkneskjuna sem hreif mig á ævinni, þegar ég stóð líklega sjö ára gamall í fordyri Íslandsbánka andspænis myndinni af útilegumanninum eftir Einar Jónsson ..... þá er þessi mynd af manninum sem kemur ofanaf fjöllum með barn sitt í fánginu og konu sína dauða á bakinu, stafinn sinn og hundinn, enn hin sama opinberun - og áskorun - og þegar ég sá hana fyrst.” (bls. 223)

Heimur sjö ára barns nær ekki langt út fyrir reynsluheim þess. Hvað var það í reynslu þessa sjö ára drengs, sem varð til þess, að hann skynjaði svo sterkt útlagamyndina? Hver var þessi stælti útilegumaður, hver var dauða konan, hvert var barnið?

Það þykir vonandi ekki ótilhlýðilegt að túlka hér það, sem Halldór hefur opinberað úr hugarfylgsnum sínum í Í túninu heima, minningabókinni, sem birtist árið á undan tilvitnaðri bók (Úngur eg var). Ætla verður, að hann hafi tjáð sig til að fá lesendur til að rökræða málið og álykta um það.

Guðjón Helgason, faðir Halldórs, var vegaverkstjóri og átti heima í Reykjavík fyrstu hjúskaparár sín. Vegaverkstjórnin var aðeins sumarvinna og utan Reykjavíkur. Litla atvinnu var að hafa í Reykjavík að vetrinum og síst fyrir þá, sem voru utanbæjar að sumrinu. Guðjón tók því það ráð að kaupa jörðina Laxnes í Mosfellssveit og búa þar, en halda áfram vegaverkstjórn. Þá var Halldór þriggja ára.

Halldór lýsir því, hvernig Guðjón hvarf að heiman til vegaverkstjórnar að vori í fjarlæg héruð og kom ekki aftur fyrr en að hausti, og líkaði barninu útilega hans illa. Eftirmaður Guðjóns í starfi vegaverkstjóra, Jónas Magnússon í Stardal, lýsir þessum nágranna sínum sem einstökum atgervismanni um flest, sem mann má prýða. (Hjónin í Laxnesi, Lesbók Morgunblaðsins 12. og 13. tbl. 1967) Umhugsunarefni er, að Jónas gerir minna úr fjarvistum Guðjóns en Halldór og kveður hann oftast hafa komið heim í sláttubyrjun, en farið stundum aftur í vegavinnu snemma hausts.

Ekki fær Sigríður Halldórsdóttir, eiginkona Guðjóns, síðri eftirmæli hjá Jónasi:

Sigríður var góð móðir og umhyggjusöm börnum sínum, vakti yfir velferð þeirra og að þau nytu sinna langana til þroska og menntunar, sem hún líka uppskar ríkulega og gat glaðst yfir á efri árum ævi sinnar. Sigríður var innilega barngóð, þýð og skilningsgóð, þar sem krakkar og unglingar áttu í hlut. Hún hafði sjálf gleði af krökkum og æskufólki, sem hjá henni var ..... Vinir og sveitungar söknuðu Sigríðar og fólksins í Laxnesi. Þar komu margir og þaðan var farið með hlýhug til þess heimilis.”

Halldór minnist móður sinnar í Í túninu heima á víð og dreif. Ég dreg saman nokkur ummæli til skilnings á sálarstríði Halldórs við samningu Sjálfstæðs fólks, eins og nánar verður skýrt:

Ég held móðir mín Sigríður Halldórsdóttir hafi verið dul kona. Sumir sögðu að hún mundi líklega hafa verið þúnglynd að náttúrufari, en það hefur líklega veitt henni nokkra afþreyíngu að eignast lítinn dreing að hafa hjá sér á sumrin, þó hún hefði oft áhyggjur af heilsu hans; hún var talin kona ekki mannblendin, en þó vingjarnleg í ávarpi. Þegar ég hófst úr bernsku fanst mér að þau ár sem ég bjó við hné þessari konu hefði ég notið sælu og umhyggju meiri en aðrir menn og var sannfærður um að einginn maður hefði átt eins sæla bernsku. Nú ætla ég að skrifa um það bók. Einusinni var ég á ferð í Kaupmannahöfn og sat þar veislu hjá íslendingum. Áður en borð voru upp tekin reis úng kona úr sæti og rétti mér tímarit þar sem mynd af móður minni var prentuð á forsíðu, en hún var þá látin fyrir fjórum árum. Frúin bað mig segja veislugestum frá móður minni.

Ég hafði reyndar laungu gleymt þessu atviki og veislunni sjálfri að mestu, en var mintur á það á dögunum. Ég vitna til þess hér einsog frásagnar um altannan mann. Mér var sagt að fyrst hefði ég horft leingi þegjandi á myndina í sæti mínu og loks þegar ég stóð upp hafi ég ekki sagt annað en þetta: Í rauninni þekti ég aldrei þessa konu. Hún var huldukona. En mér hefur þótt vænna um hana en aðrar konur. (bls. 20-21)

Ég hef áður skrifað að dul þessarar konu hafi ég aldrei ráðið, að eitt get ég fullyrt að hún var bjargvættur minn alla tíð á meðan hennar naut við; og er enn. (bls. 98)

Hún var með öllu laus við tilfinníngasemi, líklega af því hvað hún var mikil tilfinníngamanneskja, og lét aldrei heyrast til sín vorkunnsemi né æðrur, en sagði stundum stutta setníngu um mann eða atburð svo ekki virtist miklu þarvið að bæta. Viðkvæmnisvafníngar í tali manna held ég hafi verkað á hana einsog væri verið að rífa striga.” (bls. 99)

Nú segir frá rithneigð barnsins og hvernig móðirin brást við henni. Fyrst bendir Halldór á, að hann hafi verið einbirni, þar til honum sjö ára bættist systir:

Mikill bóklestur í einveru heima vakti hjá mér laungun til þess að búa til bækur sjálfur, og sem fyr sagði mun ég hafa verið sjö vetra þegar ég fór að „skrifa sögur uppúr sjálfum mér“.“ (bls. 198)

"Strákurinn í Laxnesi situr 10 klukkutíma á dag og párar út stílabækur. Honum verður ekki haldið frá þessu. .....

Alt um það vildu skáldsögur hrúgast upp kríngum mig hvar sem ég var látinn, og móðir mín horfði með skelfíngu uppá bókmentaafrekin vaxa hjá barninu.

Áður en átti að stekkja kom faðir minn heim með lið að smala til stekks og skilja lömbin frá. Nú var af sem áður að ég kendi í brjósti um lömb á stekk. Ég fékk í fyrsta sinn að fara með fullorðnum mönnum í slíka hofferð sem smala ríðandi utan heimalands. Við smöluðum Mosfellsheiði vestanverða, Fellsendaland Kjósarskarð Stardalshagana og loks okkar eigin haga, og vorum á þeysireið frá því snemma að morni og þángatil liðið var á nótt og rákum fé saman til sundurdráttar úr upplöndum fjögurra hreppa. En þegar ég kem heim í austurherbergi mitt undir morgun bregður svo við að handrit mín eru horfin ásamt ýmsu ónýtu drasli sem ég hafði sánkað að mér; hér hafði semsé verið tekið til. Móðir mín sagðist hafa haft raun af útpáruðum pappír og öðrum óþrifnaði inni hjá mér, og hefði hún brent þessu. Ég grét þángatil ég sofnaði; líka daginn eftir. Leingi á eftir var ég ekki mönnum sinnandi, þángatil ég uppgötvaði að kanski var móðir mín enn sorgmæddari en ég sjálfur af því að sjá hve illa ég barst af. Hún var líka rauð um hvarmana og varaðist að segja nema einsatkvæðisorð svo ekki rynni útí fyrir henni.

Ég átti kistil sem Sæmundur holdsveiki æskuvinur föður míns hafði smíðað mér; að honum gekk lykill. Uppúr því skrifaði ég einvörðúngu oní þennan kistil um sinn; en það hefði verið óþarfi að læsa honum nokkurntíma enda hætti ég því fljótt. Konan [svo] snerti aldrei síðan útpáruð blöð þessa dreingstaula síns meðan hann var heima .....

Eftir þetta voru mér keyptar stílabækur að vild einsog börnum er núna keypt kókakóla í heilum kössum. (bls. 203-5)

Ef ég ætti að lýsa einkennum bókanna án þess að vefjast í smáatriðum, hygg ég samsetníngurinn sem þessi dreingstauli gaf útaf sér í föðurgarði frá 7 ára aldri til 12 ára hafi verið pródúkt ofvaxinnar tilhneigíngar til að tjá sig, og er ýmsum innborin þó þeir affermi sig ekki í bókum." (bls. 206)

Það hendir ýmsan að mæla vanhugsuð orð um foreldra sína, en allir eiga leiðréttingu orða sinna. Umhugsunarefni er, að Halldór skyldi sjá ástæðu til að rifja upp áratuga gömul orð sín, að hann þekkti ekki móður sína. Eftir lýsingu Halldórs og Jónasar á Sigríði í Laxnesi leyfi ég mér að túlka, hver móðir hún hefur verið barni, sem var einbirni til sjö ára aldurs. Dulur maður er ekki einlægur. Ekkert hlutskipti er voðalegra barni en að móðir þess dyljist því. Það er svo sárt, að barn, sem ekki nýtur einlægni, bælir sárindin með sér og sér móður sína í ljóma þeirrar þrár, sem ekki varð fullnægt, þegar tími var til. Dulur maður dylst ekki aðeins öðrum, hann dylst sjálfum sér. Skyldi ekki vera svo með barnið, sem þarf að tjá sig svona mikið í rituðu máli, að það hafi ekki fengið að tjá sínum nánustu tilfinningar sínar, og allt eins án orða, eins og barni er eiginlegt? Erfitt er að hugsa sér meira voðaverk gegn slíku barni en að brenna öllu því, sem því lá á hjarta. Dulur maður þekkir sig ekki né viðbrögð sín, þótt hann kunni að skilja eftir á, hvað gerðist og harma það og reyni að bæta fyrir. Margur er dulur, en kann þó að njóta álits og viðurkenningar.

Þar sem barnið sjö ára sér útilegumanninn með barnið, sé ég Guðjón bónda, sem lagðist út á sumrin. Barninu fundust fjarvistirnar miklu meiri en þær voru í reynd, af því að svo mikið vantaði, þegar hann var farinn. Dauða konan er ´konan, sem tortímdi fyrir barni sínu því, sem það þráði að mega tjá og hafði ekki önnur ráð en setja það á blað, af því að hún var hulin barninu, þótt þau væru samvistum.

Það er síendurtekin harmsaga mannsins, að jafnvel mikilhæft fólk getur brugðist í því, sem mestu varðar. Valmennið Guðjón Helgason sá þann útveg til framfæris heimili sínu að ráða sig í starf, sem bar hann að heiman, og skildi einkabarn sitt eftir eitt hjá konu, sem vandalausum sýndist mætti vera salt jarðar, en kunni þó ekki að opna hug sinn þeim, sem þarfnaðist einlægra tilfinninga umfram allt annað.

*

                       Það er óviðkomandi þessari sögu, hvernig Halldór vinnur úr barnslegri skynjun sinni á útilegumanni Einars Jónssonar, eins og hann gerir nokkra grein fyrir í minningum sínum. Ekki þarf heldur að taka afstöðu til skoðunar Leníns á `bændaspursmálinu'. Sams konar raunir bernskunnar geta leitt til ólíkrar afstöðu á fullorðinsárum. Hér er einungis verið að draga það fram úr játningum Halldórs, sem kynni að vera kveikjan að því `frumglæði heilabrota' hans um stæltan mann, sem vildi ráða sér sjálfur, leitaði úr margmenninu til að stofna eigið bú og skildi eiginkonuna stundum eftir eina heima vegna nauðsynjaerinda.

Ekki kemur heldur þessu máli við hinn mikli áhugi Halldórs á skipulagi landbúnaðar á þessum árum. Aðrir hefðu getað lagt öðru vísi út af skynjun sinni á bóndanum og tjaldbúanum Guðjóni Helgasyni og konu hans, Sigríði Halldórsdóttur, sem fylgdi með hálfum hug af Laugavegi í Reykjavík upp í Mosfellssveit, og þótti þunglynd (dauðaleg).

Morgunblaðinu 15. júlí 1987