Kyrrstaða landsins og raunar afturför á 17. og 18. öld hefur lengi verið þjóðinni harmsefni og sagnfræðingum rannsóknarefni. Lengst af kenndu þeir sérleyfisverslun Dana um öðru fremur, nú síðast Gísli Gunnarsson í bók sinni Upp er boðið Ísaland. Arnved Nedkvitne hélt því þó fram í Historisk tidsskrift 4/1984 að markaðs- og verðlagsþróun á 17. öld og fyrri hluta 18. aldar hefði leitt til stöðnunar í verslun með þurrkaðan fisk í Norðurevrópu án tillits til verslunarhátta.

Þó var ekki sama kyrrstaða á Nýfundnalandi, eins og kemur fram í bók Gísla (bls. 112), en fiskútflutningur frá Nýfundnalandi tífaldaðist á tímabilinu 1675-1789. Á sama tíma stóð fiskútflutningur frá Íslandi svo að segja í stað. Athygli vekur að aukning fiskútflutnings nýfundlendinga á þessum tíma er um þrítugfalt heildarmagn útflutnings frá Íslandi. Því vaknar sú spurning hvort aukningin frá Nýfundnalandi hafi ekki þrengt kosti annarra sem seldu fisk á sömu svæðum, en hin mikla hlutfallslega aukning á Nýfundnalandi stafi fyrst og fremst af því að landið var nýnumið.

Þetta hefði ég m.a. viljað sjá rætt af fróðustu mönnum. Gísli gæti stuðlað að því með því að svara ýmsum athugasemdum Nedkvitnes í Historisk tidsskrift við bók hans, en það hefur hann ekki enn gert, heldur hælst um að hann hafi hrakið gagnrýni Nedkvitnes á allt öðrum vettvangi (í Sögu). - Slíkt er óeðlileg framkoma í fræðilegri umræðu.

Gísli kennir einnig varðstöðu íslenskra landeigenda um eigin hagsmuni um kyrrstöðuna í sjávarútvegi og útskýrir það í bók sinni. Ég hef hins vegar talið að arðbærari sjávarútvegur hefði síst verið öndverður hagsmunum þeirra og rökræddi ýmsa þætti hagkerfis og stjórnkerfis með tilliti til skýringa Gísla í ritsmíðum sem hann nefnir í grein í blaðinu 1. þ.m. (Stutt Söguskýring), og vísast til þeirra.

Þar gerir hann að umræðuefni stríð sitt við ritstjóra Sögu. Ég vil fylgja siðareglum sagnfræðinga um rétta lýsingu atburða og leiðrétti því nokkrar ýkjur um það efni og minni enn á þá starfsreglu sagnfræðinga að fylgja tímaröð atburða.

1. „í Morgunblaðsgreinum sínum vitnaði Björn mjög til væntanlegrar ritgerðar sinnar í Sögu 1988 og nefndi raunar að greinarnar væru hlutar úr ritgerðinni óbirtu." Morgunblaðsgreinarnar voru tvær. Ég vitnaði aðeins einu sinni í Söguritgerðina, í niðurlagi seinni greinarinnar, eftir að Gísli hafði sagt frá henni í Morgunblaðsgrein sinni, og að fengnu leyfi ritstjóra Sögu.

2. „Ég fór fram á það við ritstjóra Sögu að ég fengi að sjá þessa ritgerð og jafnvel svara henni efnislega í sama hefti tímaritsins (sem kemur út aðeins einu sinni á ári). Ég benti á, þessari beiðni minni til stuðnings, að ritgerðin væri þegar orðin fjölmiðlamatur fyrir tilstuðlan höfundar og með leyfi ritstjóra tímaritsins." Það var fyrst 25. maí, að ég skýrði frá ritgerðinni í grein í Morgunblaðinu, en Gísli sneri sér til mín 9. sama mánaðar til að fá að sjá ritgerðina og hafði þá þegar fengið synjun ritstjórnar.

3. „Ritstjórarnir höfnuðu báðir beiðni minni og sama gerði höfundurinn." Þegar Gísli sneri sér til mín, bað ég um frest til að hugsa málið. Hann vildi hringja í mig kvöldið eftir, en ég bað hann um að hafa samband að tveimur dögum liðnum og á kristilegri tíma en þá. Samt hafði hann aldrei samband við mig um málið. Ég gerði hins vegar fljótt upp hug minn, að ristjórinn hlyti að ráða yfir ritsmíðum þar til þær birtust, en ætlaði að bjóða honum að koma á rannsóknaræfingu á Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, þar sem hann vinnur, og reifa gagnrýni mína. Til að frásögn Gísla af málaferlum hans við ritstjórn Sögu sé full er þess að geta að hann fór fram á það við útgefanda Sögu, stjórn Sögufélags, að hún tæki fram fyrir hendur ritstjóra og fengi honum ritsmíðina, en hún varð ekki við ósk hans.

Svo ég snúi mér að merkara máli. Lesendur Historisk tidsskrift sem ekki lesa Sögu hljóta að gera ráð fyrir því að Gísli hafi engar meiri háttar athugasemdir við gagnrýni Nedkvitnes. Nú væri ráð að Gísli léti þá vita að svo sé ekki og svaraði Nedkvitne þar sem svara ber. Mætti svo fara að af því hlytist lærdómsrík umræða þar sem hlutskipti íslendinga yrði skoðað í víðu samhengi, eins og Gísli hefur vissulega gert sér far um.

Þjóðviljanum 8. júní 1989