Bergsveinn Birgisson, fræðimaður í Noregi, höfundur bókarinnar Svar við bréfi Helgu, hefur komist að því, að „göfugasti“ landnámsmaðurinn, Geirmundur heljarskinn, hafi numið hér land til að veiða rostung. Rostungsskinnið var skorið í svarðreipi. Reipin voru seld norska herflotanum í Dyflinni á Írlandi. Önnur reipi voru ekki betri á seglskip. Áður hafði faðir hans, Hjör konungur á Ögvaldsnesi á Rogalandi, sótt rostungsskinn á Bjarmaland. Að konungasið, þ.e. í hagsmunaskyni, mægðist hann bjarmakonungi. Þannig eignaðist hann tvíburana Geirmund og Hámund, sem fæddust „svartir og ljótir“.

Frá þessu segir í riti Bergsveins, Den svarte vikingen, sem kom út í Noregi í fyrra. Rostungur, rosmhvalur, er selur og auðveld bráð. Menn gátu lagt þá hundruðum saman, þar sem þeir lágu, en þá kom að því að verka þá, flá, skera skinnin í svarðreipi og bræða spikið í lýsi. Það var þrælavinna. Verðmæti þess, sem norski sjóherinn í Dyflinni þurfti til viðhalds, var gífurlegt og stóð undir þrælahaldi Hjörs konungs. Þá voru rostungstennur líka gjaldgengar.

Þegar Haraldur hárfagri jók veldi sitt, tók hann fyrir ferðir Ögvaldsnesmanna til Bjarmalands. Á Rosmhvalanesi (á Suðurnesjum) hafa fundist leifar frá því nokkrum árum fyrir 874. Það eru leifar veiðistöðvar, en ekki bæjar. Ísland var því þekkt sem veiðistöð. Geirmundur nam land, þar sem best var til fanga, á Skarðsströnd í Breiðafirði. Þar um slóðir eru örnefni, sem lúta að veiðum  og nýtingu rosmhvals, svo sem Hvallátur, Hvalsker og Hvalgrafir (grafir til lýsisbræðslu). Rostungurinn hörfar undan endurtekinni veiði. Geirmundur sækir þá lengra og setur fjögur bú á Hornströndum. Þaðan þarf að flytja varninginn, skinn, lýsi og tennur, á Skarðsströnd. Ekki er farandi sjóleiðina vestur fyrir, um verstu rastir landsins, heldur liggur leiðin inn í Djúp og yfir heiðar eða inn Húnaflóa inn í Bitru og yfir fjallveg þar. Veiði, vinnsla og flutningur krefst mikils fjölda þræla og þrælavarða.

Bergsveinn hafði mikið fyrir því að fá vit í það, sem segir frá Geirmundi í fornum ritum, í munnmælum og örnefnum. Hann lætur lesandann fylgjast með, hvernig hann fyllir í eyðurnar.

Svo fellur veldi norðmanna í Dyflinni. Bergsveinn getur sér þess til, hvernig veldi Geirmundar og þrælahald endar þá. Það gerist fyrir stofnun alþingis.

Bergsveinn leitar víða fanga. Hann kannar staði og örnefni, sem fá merkingu með sögu hans. Það er skemmtilegt fyrir þá, sem hafa gengið á Hornströndum. Hann styðst við fornleifarannsóknir og leitar til málvísindamanna og erfðafræðinga.

Ritið er læsilegt. Höfundur gæðir rannsókn sína lífi með því að kenna margt um líf fornmanna. Hann er reyndur sjómaður á Ströndum, ættaður þaðan og náskyldur fólki á Skarðsströnd. Þessa nýtur í skrifum hans og athugunum. Ritdómar í Noregi eru af ýmsu tagi. Ritið er talið snilldarverk, eins og ég geri. Aðrir taka fyrir aukaatriði, sem eru til fyllingar í sögunni. Þá vill aðalatriðið týnast. Palladómar eru sumir hleypidómar, meðal annars þeirra, sem greinilega hafa ekki lesið ritið. Alveg eins og væri á Íslandi. 

Morgunblaðinu 12. nóvember 2014: 20