Sveitarstjórnir hafa ýmis ráð til að gera sér hugmynd um hvernig megi taka tillit til skoðana almennings. Hreppsnefndin á Eyrarbakka hefur hafið tilraun með sjóðsatkvæði í því skyni. Ég vísa til greinar minnar, (Atkvæðafjöldi eftir vægi máls,) í 2. tbl. Sveitarstjórnarmála 1995, en minni á, að með sjóðsatkvæðum geta menn látið það koma fram í atkvæðatölu, ef um kappsmál er að ræða, og sömuleiðis leitt mál að mestu hjá sér með því að bjóða fá atkvæði eða alveg með því greiða engu afbrigði málsins atkvæði.
Hreppsnefndin ákveður hvaða mál eru lögð fyrir. Þeir sem skipuðu aðalmannssæti á framboðslistum vorið 1994 fá atkvæði til ráðstöfunar. Listarnir voru þrír og aðalmenn í hreppsnefnd sjö. Samtals var því 21 gefinn kostur á þátttöku. Þrír urðu ekki með, einn án þess að ástæða væri tilgreind, en tveir vegna fjarveru. Í stað þeirra komu varamenn listanna.
Atkvæðin sem menn fá í sjóð eru í hlutfalli við atkvæðastyrk listanna í kosningunum 1994. D-listinn fékk þá 113 atkvæði. Hver D-listamaður fær í sjóð sinn 11,3 atkvæði fyrir hvert mál, sem borið verður undir atkvæði. E-listinn fékk 62 atkvæði. Fær hver maður þar í sjóð sinn 6,2 atkvæði vegna hvers máls. I-listinn fékk 193 atkvæði og fær hver maður 19,3 atkvæði vegna hvers máls.
Til þess að gefa mönnum þegar í fyrsta málinu kost á að greiða kappsmáli atkvæði í samræmi við eigið mat fengu þátttakendur fjórfalda áðurnefnda atkvæðatölu sem stofnframlag, 45,2 atkvæði hver D-listamaður, 24,8 atkvæði hver E-listamaður og 77,2 atkvæði hver I-listamaður.
Á vel sóttum kynningarfundi 18. janúar var fyrsta mál tekið fyrir. Það var reglur um útivistartíma barna. Voru fjórir kostir í málinu: almenna reglan, Akureyrarreglan, Selfossreglan og Vopnafjarðardæmi. Fékk hver þátttakandi atkvæðaseðil með nafni sínu, tölu atkvæða í sjóði og afbrigðunum fjórum. Nokkrum dögum síðar var ég á hreppsskrifstofunni, ef menn þættust þurfa frekari leiðbeiningu. Skilafrestur var til 30. janúar. Allir skiluðu atkvæðaseðli (í lokuðu umslagi).
Menn þurfa að hafa hugmynd um þau mál, sem síðar á að taka fyrir, til þess að meta vægi þess máls, sem er til afgreiðslu. Þess vegna voru tvö næstu mál kynnt á fundinum 18. janúar. Annað varðar fjárstyrki til afreksmanna í íþróttum. Hreppurinn hefur veitt slíka styrki. Spurningin er hvort svo skuli vera áfram og þá í meira eða minna mæli. Hitt málið er um hraðahindranir og leiksvæði. Þar kemur ýmislegt til greina, miskostnaðarsamt. 15. febrúar var niðurstaða atkvæðagreiðslunnar kynnt á fundi þátttakenda, vinnubrögðin rædd og næsta mál reifað.
Sjóðsatkvæðagreiðsla á alllangan aðdraganda á Eyrarbakka. Magnús oddviti hreppsnefndar fékk áhuga á aðferðinni haustið 1994. Varð það til þess, að ég kom á hreppsnefndarfund í janúar 1995. Fékk hugmyndin góðar undirtektir. Það stóð alllengi í okkur Magnúsi að finna heppileg málefni. Hugmyndir um heppileg málefni reynast koma auðveldar, þegar farið er á stað og fleiri koma að umræðunni. Magnús kveðst fús að ræða sjóðsatkvæði við forvitna sveitarstjórnarmenn.
Menn spyrja hvort sveitarstjórn gefi frá sér völd með skoðanakönnunum af þessu tagi. Það gerir hún ekki. Hennar einnar er réttur og skylda að álykta og taka ákvarðanir fyrir hönd sveitarfélagsins. Þá má spyrja hvort hún sé ekki að gefa frá sér áhrif. Ég hygg, að sveitarstjórnir reyni yfirleitt að gera sér grein fyrir því hversu þóknanlegar ákvarðanir kunna að verða almenningi. Ein leið til þess er sjóðsatkvæðagreiðsla meðal þeirra sem kynnt hafa almennan áhuga sinn með framboði. Sveitarstjórn ræður því hvaða mál eru lögð þannig fyrir. Þó að meirihlutinn hafi einsett sér að ljúka máli, má gera það á ýmsan hátt. Með sjóðsatkvæðum getur hann kynnt sér skoðanir manna á ýmsum úrlausnum.
Þessi vinnubrögð hafa víðar verið til athugunar. Ég hef meðal annars leitað fyrir mér í fjölmennari sveitahreppum, bæði þar sem var listakosning og þar sem kosið var óhlutbundið. Illa hefur gengið að finna málefni. Má vera, að auðveldara sé að finna mál í þéttbýli.
Upp kom sú hugmynd, að kanna mætti skoðanir í hreppum, þar sem kosið var óhlutbundið, með því að láta öllum, sem atkvæði fengu, í té sjóðsatkvæði í hlutfalli við atkvæðatölu í kosningunum. Þetta var tekið til athugunar í tveimur sveitahreppum. Í öðrum þeirra reyndist erfitt að finna mál, en í hinum kom í ljós, að ekki voru til atkvæðatölur nema þeirra 10 sem kosnir voru í hreppsnefnd ásamt varamönnum. 10 tel ég heldur fátt, þegar beita á sjóðsatkvæðum. Þar var í staðinn tekið til athugunar að láta öllum kjósendum í té sjóðsatkvæði. Þar stendur málið.
Þá kom upp sú hugmynd, þar sem kosið er óhlutbundið, að félög, ungmennafélag, búnaðarfélag, kvenfélag, kirkjusókn og verkalýðsfélag, fái sjóðsatkvæði í hlutfalli við tölu félagsmanna innan hrepps og færu stjórnarmenn búsettir innan hrepps með atkvæðin. Þetta mæltist ekki vel fyrir á hreppsskrifstofu einni. Starfsmaður hreppsins kvaðst ekki vera í neinu félagi (var reyndar í þjóðkirkjunni og því sóknarbarn), en sumir væru í mörgum félögum, og væri slík málsmeðferð því ekki sanngjörn. Í staðinn kom fram sú hugmynd að gefa öllum hreppsbúum kost á sjóðsatkvæðum. Þar stendur málið, en ekki hefur tekist að finna nógu mörg málefni, sem hreppsnefnd telur henta.
Reynslan á Eyrarbakka, þótt ekki sé hún víðtæk, styrkir þá von, að með sjóðsatkvæðum geti sveitarstjórn fengið skjalfest ábyrg viðbrögð við málum og þannig stuðst við álit þeirra sem með framboði hafa lýst áhuga á málum sveitarfélagsins. Eitt einstakt mál má ekki vera yfirgnæfandi í slíkri skoðanakönnun. Því er ekki heppilegt að taka fyrir fjárhagsáætlunina í heild, en á Eyrarbakka er til athugunar að taka þar sérstaklega fyrir, hvernig mönnum lítist á að lækka með sérstakri aðgerð þær skuldir hreppsins, sem eru dýrar. Með sjóðsatkvæðum má fá fram viðbrögð við mismunandi ráðstöfunum í því efni. Eins getur sums staðar átt við að taka fyrir framkvæmdaáætlun, þar sem um yrði að ræða að stilla saman einstakar framkvæmdir og hæð útsvars og fasteignagjalda þeirra vegna. Annað mál, sem víða getur verið tímabært, er umhverfismál, þar sem ákveða þarf kvaðir á almenning og eigendur fasteigna og fyrirtækja og gjöld vegna þeirra mála. Þriðja málið, sem endurtekur sig árlega, er um framlög til félaga. Þar gæti sveitarstjórn ákveðið hámark í heild, en skoðanir manna til skiptingar fjárhæðarinnar yrðu kannaðar með sjóðsatkvæðum, og þá kæmi líka til greina, að hún yrði ekki öll hagnýtt. Í bæjarfélögum sýnist verklagið geta verið það, að bæjarráð feli einstökum nefndum bæjarins ásamt starfsmönnum bæjarins að útfæra mál í nokkrum afbrigðum og ráðið leggi þau síðan fyrir handhafa sjóðsatkvæða.
Menn spyrja gjarna hvort stækum minnihluta gefist ekki með sjóðsatkvæðum tækifæri til ráða sérmáli sínu út í æsar. Lítum á til hvers reynslan á Eyrarbakka bendir. Minna verður á, að þar er um að ræða mál, sem hreppsnefnd (meirihlutinn) leitar skoðunar stærri hóps á. Með niðurstöðunni fylgir vitneskja um hvernig einstakir þátttakendur beittu sér. Þannig getur meirihlutinn metið áhrif einstakra þátttakenda á niðurstöðuna og hversu góðar ástæður eru til að taka tillit til hennar. Þátttakendur kynna sig með atkvæðaboðum sínum. Maður sem býður atkvæði lítt í samræmi við eigin skoðanir spillir áliti sínu og laðar ekki til stuðnings við sjónarmið sín yfirleitt. Þannig verður kostnaðarsamara fyrir hann að vinna málum sínum brautargengi. Afbrigði í hverju máli þurfa ekki að vera nema tvö, en ég vænti þess, að þau verði sjaldan færri en fjögur. Þegar svo er, sjá menn sér hag í því að bjóða atkvæði ekki aðeins á það, sem menn kjósa helst, heldur einnig næsthelst, þriðja helst og svo framvegis. Maður, sem gerir það ekki, á á hættu að glata tækifæri til að koma í veg fyrir, að það afbrigði verði ofan á, sem hann kýs síst. Ég hygg, ef menn hugsa málið við slíkar aðstæður, sýnist líklegt, að þeir einþykku minnihlutahópar, sem menn þykjast víða verða varir við, trosni upp í liðsmenn, sem vissulega kunna að halda áfram að kjósa helst eitthvað óralangt frá almenningsáliti, en eru hins vegar til viðræðu um það, sem er nær almenningsáliti og gefa það til kynna með stiglækkandi atkvæðatölu og geta þannig átt þátt í því, að annað verður ofan á en þeir kjósa helst.
Sveitarstjórnarmálum 56 (1996) 1 59-60