Viðari Halldórssyni, prófessor í félagsfræði í Háskóla Íslands, var mikið niðri fyrir í Morgunblaðinu sunnudaginn 19. mars. Hann flutti erindi um sama efni á fundi í félaginu Málfrelsi í Þjóðminjasafni 15. apríl. Ég rek þráð í máli hans. Þjóðinni hefði verið stíað sundur í kófinu með ýmsum ráðum. Það reyndi á félagsgerðina. Í upphafi sundrungarinnar hafi almenningur notið félagstengsla, eins og þau hefðu verið, en um þau hafi losnað með hinum opinberu ráðstöfunum. Þá greip almenningur upp ýmis ráð til hversdagslegra nota og eins og nýjasta samskipatækni gaf tækifæri til. Þessi nýju tengsl, sem eru án þess að maður mæti manni, dragi úr því, að hin fyrri tengsl, sem báru í sér nánd, nái sér upp. Í þjóðfélagsfræðum hefur verð talað um firringu, upplausn er orðalag í efnafræði, sem ég nota hér. Viðar taldi brýnt að bregðast við hinu nýja ástandi. Von væri á bók eftir hann um efnið.

         Ég rifja upp fræðasöguna hér á landi. Fyrir réttri hálfri öld stóð Félagsvísindafélag Íslands ásamt Norræna húsinu og lagadeild Háskólans fyrir komu norðmannsins Nils Christies (1928-2015) hingað til lands. Hann var félagsfræðingur, nánast sjálfmenntaður, þar sem hann hlaut menntun sína svo snemma, að þá var ekki að hafa kennslu í félagsfræði nema að nafninu til í háskólanum í Osló. Alla tíð síðan var hann óháður í hugsunum. Hann hafði persónulega prófessorsstöðu í lagadeild háskólans í Osló í stofnun afbrotafræði og refsiréttar.

          Sjónarhorn Christies var mikið það, hvernig nánd og fjarlægð ráði félagsheill. Það var sérstaklega tekið fyrir á fundi með honum heima hjá formanni áðurnefnds félags, hvernig mætti meta ýmsa félagsgerð hér á landi, þar sem nyti nándar. Það væri mikið háð því, að menn eigi skylt erindi við náungann og væru gagnkvæmt háðir. Þótt orðalagið væri ekki til þá, má segja, að í því fælist sjálfbærni mannlegs félags af ýmsu tagi, og mætti verða leiðarljós við skipan mála. Þessa sjónarhorns hans hefur ekki gætt hér þá hálfa öld, sem síðan er liðin, í háskólum eða stjórnsýslu, heldur hefur fyrirmynd þeirra, sem hafa verið í áhrifastöðum, verið stjórnsýslan á Norðurlöndum. Þannig hefur verið unnið að því að færa hvers konar ráð frá kjörnum fulltrúum, sem gátu alveg eins verið án prófskírteinis, í hendur handhafa laga og reglugerða, sem ekki eru kosnir, heldur ráðnir, og hafa próf.

          Dæmi um þetta er kirkjan. Fyrir rúmri öld varð vakning um að söfnuðirnir fengju að kjósa sér prest, og var það sett í lög. Prestskosningar hreyfðu oft við söfnuðunum, stundum með látum. Undanfarna áratugi hafa tækifæri safnaðanna til að kjósa prest verið þrengd. Þar með hefur verið dregið úr þeirri örvun innan safnaðanna, sem þeim fylgdi. Ekki síst þeir, sem höfðu embættisgengi, það er voru cand. theol., vildu þrengja tækifæri safnaðanna til að kjósa prest. Raðval og sjóðval var kynnt vandlega meðal kirkjunnar manna, m.a. í Kirkjuritinu, raðval til að kjósa prest og sjóðval til að útkljá málefni kirkjuþings, án þess að því hafi verið sinnt.

          Gagnrýni á stjórnmálaflokka er gjarna á þann veg, að illa fari saman yfirlýstur málstaður, atbeini og árangur. Raðval og sjóðval eru þannig, að betur birtist atbeini fulltrúa og árangur. Með raðvali tjáir maður, hvað hann vill helst, hvað hann vill næsthelst o.s.frv. og hvað hann vill síst, næstsíst o.s.frv., og með sjóðvali sýnir maður, hversu mikill þungi er á þá úrlausn, sem hann metur mest, og, ef vill, hversu mikill þungi er á það, sem er metið næstmest o.s.frv. Þótt maður tjái slíkan stuðning til vara, spillir hann ekki fyrir sínum fremsta málstað.

    Aðferðirnar voru kynntar í ýmsum samtökum, svo sem Alþýðusambandinu og Dagsbrún, og meðal stjórnmálamanna og í háskólum. Margir hafa kynnst þeim í raun, en þar við hefur setið. Þær njóta sín í þjóðfélagi upplausnar. Ólíkt þeim ráðum, sem nú er beitt með nýrri fjarskiptatækni og Viðar Halldórsson fjallar um, efla þær samband óbreyttra þátttakenda og fulltrúa og málefna.

     Það væri gaman, ef Háskólinn tæki raðval og sjóðval bæði til raunhæfra úrlausna og með tilliti til upplausnarinnar. Viðar Halldórsson lætur af því í Morgunblaðsviðtalinu, að ungt fólk sýni málflutningi hans áhuga. Hér um árið kynnti ég raðval og sjóðval rækilega, þó mest raðval, meðal háskólakennara og félaga stúdenta í Háskólanum, en það hreyfði ekki við mönnum. Má vera, að öðru máli gegni nú meðal stúdenta, ef aðferðirnar eru metnar í því ljósi, að þær slái á upplausnina, beri sem sagt í sér meira en hina rökfræðilegu eiginleika.

          Það gengur ekki, að háskólamenn óvirði þúsund ára sögu rökfræði hópákvarðana með atkvæðagreiðslu og kosningu með því að sinna ekki því, sem þar er fremst. Þeir, sem kunna að lesa vísindalegar umsagnir, geta auðveldlega gengið úr skugga um, að þar er einmitt raðval og sjóðval ásamt rökfræðilegri umræðu um kosningu.

Morgunblaðinu 22. maí 2023