Kóraninn mælir fyrir um það, að moska skuli vera í borgarhliðinu. Í Reykjavík er ekki borgarhlið. Líta má á þá staði, þar sem borgin birtist aðkomumönnum, sem borgarhlið. Þeir, sem koma til borgarinnar úr flugferð frá útlöndum, fá sýn yfir borgina, þegar ekið er yfir hálsinn norðan Öskjuhlíðar. Þar mætir auganu hús, sem Karlakór Reykjavíkur reisti, en er nú helgihús múslíma. Þeir, sem koma til Reykjavíkur akandi af Suðurlandi og að norðan og vestan koma inn í borgina eftir Miklubraut vestan Elliðaáa. Þar hefur múslímum verið úthlutað lóð fyrir mosku. Þannig hafa fyrirmæli Kóransins verið virt.
Athugum hvernig lóðaúthlutun gæti farið fram í sjóðvali. Lýðræðissetrið setti ráðamenn borgarinnar inn í það fyrir sex árum, hvernig móta mætti skipulag borgarinnar í sjóðvali. Það var þannig hugsað, að skipulagsmál, stór og smá, yrðu borin undir þá, sem voru á hverjum framboðslista, sem fékk mann kjörinn, þar sem atkvæðastyrkur þátttakenda réðist af atkvæðatölu framboðslistanna. Hugmyndin virtist þykja áhugaverð, en ekkert varð úr. Tíð forystuskipti voru í borginni á þessum árum.
Í sjóðvali fær kjósandi jafnt og þétt atkvæði í sjóð til ráðstöfunar. Mál, sem borið er upp, má oftast útfæra á fleiri vegu. Sjóðvalið truflast ekki, þótt afbrigði málsins séu allmörg. Hugsum okkur, að ráðstafa eigi landi undir mosku. Til greina kemur lóð í Sogamýri í tveimur stærðum. Hugmyndir eru, að lóðinni sé úthlutað án gjalds eða með gjaldi. Þá byðust lóðir á tveimur öðrum stöðum. Loks er það afbrigði, eins og alltaf er í sjóðvali, að ekki verði af neinu. Þetta gætu verið minnst 10 afbrigði. Hver þátttakandi býður atkvæði, ekkert á það, sem honum þykir síst, og svo vaxandi fjölda. Þegar úrslit eru kunn, eru dregin atkvæði af hverjum þátttakanda, sem stendur að því afbrigði, sem fær flest atkvæði. Tækifæri þeirra, sem vinna, rýrna þannig til áhrifa í síðari málum.
Með þessum vinnubrögðum eru menn ekki endilega með eða á móti einni úrlausn, heldur mismunandi mikið með afbrigðum. Menn kynnast hver öðrum sem samherjum að einhverju leyti og andstæðingum að einhverju leyti.
Nú getur mál verið þannig vaxið, að sumir viðurkenna ekki nema eina úrlausn. Yrði það svo með múslíma og bandamenn þeirra vegna moskulóðar? Mundu þeir aðeins ansa því að fá lóð við ígildi borgarhliðs? Yrði allt vitlaust, ef einhver ætlaði þeim annað með atkvæðaboðum sínum, og jafnvel fyrir það eitt að telja annað koma til greina?
Morgunblaðinu 6. júní 2014: 25